Fór að hugsa um stjórnmál á leikvellinum
– segir Pavel Bartoszek forseti borgarstjórnar Reykjavíkur –
Pavel Bartoszek forseti borgarstjórnar Reykjavíkur er fæddur í Poznan í Póllandi. Hann fluttist ásamt foreldrum sínum Stanislaw Jan Bartoszek og Emiliu Mlynska til Reykjavíkur 1988 átta ára að aldri. Þau settust að í Vesturbænum þar sem Pavel gekk hinn hefðbundna skólaveg. Hann hóf nám í Melaskóla. Þaðan lá leiðin í Hagaskóla. Þá Menntaskólann í Reykjavík og síðan Háskóla Íslands þar sem hann hóf nám í stærðfræði sem hann lauk síðar í Danmörku. Pavel fékk snemma áhuga á stjórnmálum sem hann telur að eigi rætur í pólsku ætterni sínu. Hann starfaði í fyrstu með Sjálfstæðisflokknum og sat meðal annars í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna á árunum 2007 til 2009. Síðar gekk hann til liðs við Viðreisn. Hann átti sæti á Alþingi 2016 til 2017 og hefur setið í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir þann flokk frá síðustu borgarstjórnarkosningum. Pavel spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni.
“Ég var á níunda árinu þegar fjölskyldan flutti til Íslands. Ég kunni ekki orð í íslensku þegar ég kom í Melaskólann en kennarinn minn sagðist ekki hafa áhyggjur af því. Hún væri með pólskt barn í bekknum og það gengi vel. Ég var nokkuð fljótur að ná tungumálinu. Ég hafði gaman af að tefla og varð nokkuð góður í skák. Skákin var vinsæl í skólanum og í gegnum hana náði ég góðum samskiptum við skólasystkini mín. Í skákinni vorum við á jafnræðisgrundvelli. Pabbi hjálpaði mér líka. Ég skrifaði síðan pólsk-íslenska orðabók með pabba. Við notuðum þýsku svolítið sem millimál á milli pólsku og íslensku. Þótt pólska og þýska séu ekki beint skyld tungumál þá eru ákveðin líking með þeim. Til eru góðar pólskar þýðingar á þýskum hugtökum og þýsk orð hafa slæðist inn í pólsku. Ég fann að þetta er ekki eins auðvelt með ensku. Hún er mun lengra frá því að geta talist millimál á milli þessara tveggja meginlandsmála. Skólaganga mín var mjög hefðbundin. Ég fór áfram í Hagaskóla og MR og síðan í Háskóla Íslands. Ég ætlaði mér upphaflega að læra sagnfræði því ég hef áhuga á sögu en af einhverjum ástæðum hófst kennslan í stærðfræðinni fyrr og ég ákvað að slá til. Ég sé ekki eftir því vegna þess að stærðfræði hefur alltaf legið vel fyrir mér. Ég veit ekki hvort mér hefði reitt eins vel af í sagnfræði en það getur þó vel verið. Ég kom með góðan grunn í stærðfræði úr menntaskóla, hafði tekið þátt í stærðfræðikeppni og þarna var því um beint framhald að ræða.”
Danmerkurdvölin hafði áhrif á mig
Pavel tók hluta af náminu í Danmörku og bjó þar árunum 2004 til 2006. Hafði Danmerkurdvölin áhrif á hann. “Já hún gerði það að vissu leyti. Í Danmörku sá maður aðra borgarmynd. Kynntist öðrum hugsunarhætti og venjum. Þarna var önnur borgarpólitík sem kom meðal annars fram í góðum almenningssamgöngum og mun barnvænna umhverfi en hér. Ég hef stundum hugsað um tengsl Danmerkur og Íslands. Ég hef horft á þætti þar sem Egill Helgason hefur gengið um götur Kaupmannahafnar og rifjað upp fyrri tíð og samskipti landanna. Svo rofnuðu tengslin nokkuð með heimsstyrjöldinni síðari og að Íslands stofnaði lýðveldi 1944. Engu að síður hafa borgir á Norðurlöndunum haft mikil áhrif á Íslendinga. Hvort sem um er að ræða arkitektúr og byggingalist eða menningarleg viðhorf.” En hvernig gekk þér með pólsku sem móðurmál og síðan íslensku sem annað mál að læra dönsku. “Það gekk ágætlega. Það skemmtilegasta við að læra dönsku er að læra hana þegar þegar maður er ekki neyddur til þess eins og skólakrakkar hér á landi eru neydd til að gera. Þá kemst maður að því að danska er ekki flókið tungumál. Ekki í samanburði við Íslensku. Ég komst nokkuð vel inn í dönskuna á þessu tveimur árum. Ég hef geta notað mér það í norrænu samstarfi.”
Fórum að hugsa um stjórnmál á leikvellinum
Pavel fékk snemma áhuga á stjórnmálum. “Ég held að ég hafi verið farinn að hugsa um þau sem barn. Krakkar sem alast upp í kommúnistaríki eins og Póllandi var þegar ég var barn fá pólitískara uppeldi en í lýðræðissamfélögum. Við krakkarnir vorum farin að velta pólitík fyrir okkur strax á leikvellinum. Ég man eftir kosningum í Póllandi þann 4. júní 1989. Það voru fyrstu frjálsu kosningarnar frá stríðslokum. Þær voru jafnframt þær fyrstu í þessum heimshluta frá því að járntjaldið skall á. Í kosningunum vann stjórnarandstaðan sigur og í kjölfarið tóku nýir valdhafar við stjórnartaumunum, hentu út alþýðuforskeytinu úr nafni landsins og komu á lýðræðis- og markaðsumbótum. Ég man líka þegar Lech Walesa náði að mynda fyrstu ríkisstjórn í Póllandi án þátttöku kommúnista og var síðar kjörinn forseti.“
Líf í löndum Evrópu er samofið
“Með árunum tileinkaði ég mér ákveðið frjálslyndi,” heldur Pavel áfram. Var frjálslyndur hægri maður. Ég skrifaði mig í Sjálfssæðisflokkinn sem ég taldi mig eiga samleið með en síðar kom annar flokkur til sögunnar sem mér fannst henta betur fyrir mína hugsun. Ég er alþjóðlega þenkjandi og Evrópusinni og mér fannst stefna Viðreisnar falla vel að mínum sjónarmiðum.” Stjórnmál í Póllandi ber á góma og spurning vaknar hvort kaþólska kirkjan eigi ef til vill nokkurn þátt í stefnu núverandi stjórnvalda til dæmis í garð samkynhneigðar. Hann segir kirkjuna hafa verið sterkustu stofnunina sem barðist fyrir frelsi. Fólk sem aðhylltist ekki stjórnarhætti austursins hafi átt athvarf í kirkjunni sem kommúnískum stjórnvöldum hafi aldrei tekist að knésetja. “Fólk var hlynnt kirkjunni. Það þurfti ekki að vera af trúarlegum rótum. Heldur alveg eins pólitískum. Já ég held að sumt af því sem er að gerast í pólskum stjórnmálum eigi sér rætur í kaþólsku kirkjunni. Ég neita því ekki að áhrif hennar ættu að vera minni. Pólverjar hafa líka tekist á við Þjóðverja og þarf ekki annað en að minnast síðari heimstyrjandarinnar þegar Þjóðverjar slátruðu fjölda Pólverja. Sem betur fer hafa samskipti landanna verið góð á síðari árum. Nú í faraldrinum sem kenndur er við kórónaveiruna hefur komið berlega í ljós hversu mikilvægt er að landamæri ríkja séu opin og viðskiptalíf búi ekki við þvinganir. Líf fólks í löndum Evrópu er samofið. Pólverjar fundu fyrir því þegar öllum landamærum var lokað. Margir Pólverjar vinna í Þýskalandi. Fara jafnvel daglega á milli og komust enn daginn ekki til vinnu. Sem betur fer er búið að opna fyrir ferðir fólk sem þarf að sækja vinnu yfir landamæri Póllands og Þýskalands.”
Fyrst í Sjálfstæðisflokknum
En aftur að stjórnmálum á Íslandi. Ég varð fyrst virkur á árinu 2007 þegar ég settist í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Ég var líka á lista fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2011. Ég byrjaði að skrifa pistla í Fréttablaðið um 2010 en hef einnig skrifað nokkuð á veftímaritið Deigluna. Ég gaf síðan kost á mér í Alþingiskosningunum 2016 og varð þingmaður fyrir Viðreisn í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þingsetan var þó ekki löng því eins og menn rekur minni til sprakk sú ríkisstjórn sem mynduð var um ári síðar. Þá var aftur efnt til kosninga og ég datt út af þingi.”
Í borgarstjórn 2018
Svo taka borgarmálin við. “Ég kom inn í borgarstjórn á vegum Viðreisnar við síðustu borgarstjórnarkosningar 2018. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á borgarmálum. Ég hef áhuga á mannvænni byggð og fjölbreyttum ferðamáta. Ég sóttist eftir öðru sæti á listanum og við fórum í gegnum mjög góða en nokkuð sérkennilega kosningabaráttu. Við náðum því að verða þriðji stærsti borgarstjórnarflokkurinn en það voru 16 listar í framboði. Svo hófust viðræður um meirihluta og þær leiddu til þeirrar niðurstöðu sem var. Samstarf okkar Þórdísar Lóu hefur verið mjög gott. Við eigum vel saman í þessu og erum ef til vill ekki með svo ólíkan bakgrunn. Hún er eldri en ég og er með ýmsa reynslu að baki. Hún hefur búið erlendis og einnig tekið þátt í atvinnulífinu.”
Vatnsmýrin er verðmætasta byggingarlandið
Nú brenna nokkur mál á Vesturbænum. Sum eru meira umdeild en önnur. Málefni Reykjavíkurflugvallar ber fyrst á góma. “Það er óumdeilanlegt að flugvöllurinn á að víkja þegar litið er til lengri tíma. Þegar er búið að loka einni flugbraut af þremur og búið að byggja nýtt hverfi við annan enda hennar og nú er að hefjast bygging annars hverfis Skerjafjarðarmegin. Við vitum að málið er umdeilt en samstarf við ríkið hefur verið nokkuð gott. Sumir vilja völlinn burt strax en aðrir mega ekki heyra minnst að neinni girðingu sé þokað til. Stefna borgarinnar hefur verið skýr. Vatnsmýrin er verðmætasta byggingarland Reykjavíkurborgar og þá kemur upp sú spurning hvort eigi að byggja Reykjavík stöðugt til austurs. Dreifa byggðinni endalaust með tilheyrandi umferðarvanda og mannvirkjagerð til þess að fólk komist inn í atvinnukjarnann. Hugmyndin um flugvöll í Hvassahrauni er á dagskrá og ég hef ekki trú á að það tímabundna ástand sem nú ríkir í flugmálum af sóttvarnarástæðum komi til með að breyta framtíðaráætlunum um flugmál. Gert er ráð fyrir miklum framkvæmdum til framtíðar á Keflavíkurflugvelli en mörgum hefur fundist ótækt að flytja innanlandsflugið þangað. Býst við að það stafi ekki síst af því að framkvæmdum við Reykjanesbraut er enn ekki lokið og umferð í gegnum Hafnarfjörð getur verið tafsöm. Þekkt er að flugvellir hafa hjálpað borgum að vaxa og dafna en svo kemur að því að þeir verða að víkja fyrir vaxandi byggð. Nauðsynlegt verður að færa þá út fyrir vaxandi borgir eins og til dæmis var gert í Noregi þegar Fornebu flugvöllur í Osló var lagður niður, flugstarfsemin færð á Gardemoen og byggt á Forenbusvæðinu. Ég þekki aðeins til innanlandsflugsins. Ég kenndi við Háskólann á Akureyri um tíma og flaug þá á milli aðra hverja viku.”
Flugið er partur af lífsgæðum
Pavel minnist á þann mikla vöxt sem verið hefur í flugsamgöngum hingað til lands á undanförnum árum. “Ég spái því að flugið verði fljótt að ná sér á strik þegar áhrifa kórónaveirufaraldurins hættir að gæta. Í þessu máli er allur heimurinn undir. Þetta snýst ekki aðeins um okkur hér. Að þessu leyti er sú kreppa sem faraldurinn hefur valdið annars eðlis en til dæmis bankakreppan. Þar vorum við talsvert ein út í horni með okkar vanda. Fólki finnst gott að búa í borg þar sem auðvelt er að komast til annarra borga. Ég held að það breytist ekki neitt. Það sama á við okkur og aðra en við erum eðlilega háð flugsamgöngum vegna legu landsins.” En hvað með aðrar gáttir inn í landið.” Ég held að Egilsstaðaflugvöllur eigi vaxtarmöguleika. Akureyrar-flugvöllur líka þótt erfiðara sé með lendingarskilyrði þar einkum að vetrinum. Ég held að opna þurfi fleiri virka gáttir inn í landið en bara Keflavíkurflugvöll. Í Póllandi var tekinn upp einkarekstur á flugvöllum. Þeir fóru að keppa hver við annan, sem hefur reynst af því góða. Flugið er partur af lífsgæðum.”
Ekki endanleg ákvörðun um KR svæðið
Nú þrengir stöðugt að KR. KR-ingar telja sig vanta betri aðstöðu. Að undanförnu hefur verið unnið að því að hanna framkvæmdir á athafnasvæði þeirra í Vesturbænum. Er eitthvað að frétta af þeim málum. Pavel segir ýmislegt hægt að gera á KR svæðinu. Þegar sé búið að gera ráð fyrir hálfu knatthúsi og öðrum mannvirkjum ásamt íbúðabyggingum. “Þessar hugmyndir eru á plani en eru bundnar peningum. Þetta snýst um peninga. Reykjavíkurborg hefur unnið að mikilli uppbyggingu á Fylkissvæðinu við Úlfarsá og einnig á athafnasvæði ÍR í Breiðholti. Framkvæmdir vegna íþrótta-mannvirkja hlaupa á tugum milljarða. Út frá borgarskipulagi er hugmyndin sem unnin hefur verið fyrir KR svæðið frekar heillandi. Plássið er takmarkað á þessum stað og þétting byggðarinnar á svæðinu er skynsamleg nálgun. Við búum við fjárfestingaráætlanir til fimm ára í senn. Nú stendur yfir vinna við að forgangsraða framkvæmdum við íþróttamannvirki. Þessari vinnu er ekki lokið og því ekki hægt að segja til um hver röðin verður.” Ertu að segja að ekki verði hafist handa hjá KR á næsta ári. “Ég er að segja að um álitlegan kost er að ræða en endanlegar ákvarðanir um fjárframlög hafa ekki verið teknar.”
Þarf að vera hægt að breyta gistihúsnæði í íbúðir og aftur til baka
Nú hafa borist fregnir af að erlendur aðili vilji hefja stórframkvæmdir á Miðbakkanum við gömlu höfnina þar sem gert er ráð fyrir að reisa 33.500 fermetra húsnæði með bílakjallara sem taka mun yfir lóðirnar númer 11, 13 og 15 við götuna. Hvernig leggjast þessar hugmyndir í borgaryfirvöld. “Þessar hugmyndir eru nýkomnar til borgarinnar og ekki enn tímabært að segja af eða á um þær. Ef við ætlum að byggja Ísland áfram upp sem ferðamannaland getur verið skynsamlegt að byggja hótel og hótelíbúðir. Slíkar byggingar þurfa þó að bera í sér þann möguleika að breyta megi þeim í íbúðir ef komur ferðamanna duga ekki til að fullnýta þær. Ég hef verið talsmaður þess að við eigum að vera sveigjanlegri að leyfa fólki að breyta gistiheimilum yfir í íbúðir og jafnvel aftur til baka ef skapast þörf fyrir meira gistirými. Nú er ferðamennskan í algeru frosti út af sýkingarhættu vegna covid en við verðum að vona að innan tíðar losni um og fólk getir farið að fara á milli landa að nýju. Ég hygg að fólk geti verið hikandi að breyta gistirýmum í íbúðir af ótta við að geta ekki breytt þeim til baka ef þörf skapast. En við verðum líka að gæta þess að einhver borgarhverfi verði ekki algerlega byggð hótelum og gistiheimilum sem við getum svo ekki breytt til baka. Það verður að blanda þessu saman.”