Betri borg fyrir börn í Breiðholti
– segir Sara Björg Sigurðardóttir formaður íbúaráðs Breiðholts
Sara Björg Sigurðardóttir er Breiðhyltingur, varaborgarfulltrúi, formaður íbúaráðs Breiðholts, varamaður í Skóla- og frístundaráði, Samgöngu- og skipulagsráði og Menninga- íþrótta og tómstundaráði. Sara Björg er ekki fædd í Breiðholti heldur í næstu byggð Kópavogi. Leiðir hennar hafa þó legið með Breiðholtinu bæði fyrr og nú. Sara Björg spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni.
„Kynni mín af Breiðholtinu hófust þegar ég var níu ára gömul árið 1986, þegar ég fór að æfa sund í Breiðholtslaug með Sundfélaginu Ægi. Sem barn hjólaði ég úr Kópavogi, um undirgöngin í Mjóddina, eftir göngustígum hverfisins upp í sundlaug. Ræturnar gagnvart hverfinu voru lagðar, og liggja víða um byggðina. Ég vissi ekki þá, að ég myndi sjálf enda sem íbúi í Breiðholti, að ungarnir okkar þrír myndu hjóla um sömu göngustíga og ég gerði forðum. Maðurinn minn er uppalinn Breiðhyltingur og heitir Guðmundur Axel Hansen. Það er gaman að segja frá því, að öll hans fjögur systkini og tengdaforeldrar mínir hafa búið í hverfinu nær alla tíð. Þannig að tenging mín er sterk, þrátt fyrir að hafa ekki alist þar upp.“
Gott að ala upp börn í Breiðholti
Sara Björg hefur búið að nokkrum stöðum en kveðst hvergi vilja ala upp börn annars staðar en í Breiðholti. „Eftir að hafa búið á austurströnd Bandaríkjanna með foreldrum mínum sem unglingur, dvalið vetrarlangt á Spáni til að læra spænsku, tínt vínber í Beaune í Frakklandi og numið í Kaupmannahöfn þá myndi ég hvergi vilja ala upp börnin mín nema hér á landi. Ætli örlögin hafi ekki ráðið því að við enduðum hérna eftir að hafa skoðað heiminn. Hér var gott að festa rætur og hérna líður okkur vel.“
Langaði að tengjast foreldrum barna í hverfinu
Sara Björg er ein þeirra sem stóð fyrir fjölmenningarhátíð í Breiðholtsskóla. Hún segist alltaf hafa haft áhuga á fólki, fjölbreytileika og ólíkri menningu. „Kannski að þessi þvælingur á mér hafi ýtt undir áhugann, ég veit ekki en þarna gafst mér tækifæri að búa í ólíkum löndum og læra tungumál þeirra og kynnast fólki með annarskonar bakgrunn en minn. Ég held að þetta hafi átt þátt í að fjölmenningarhátíðin varð til í Breiðholtsskóla en ég gekk lengi með hugmyndina að hátíðinni í maganum. Mig langaði að tengjast betur foreldrum barnanna í hverfinu, gera þau virkari í nærsamfélaginu samhliða því að kynna fyrir mínum börnunum uppruna barnanna sem þau umgangast og hitta daglega í skólunum sínum. Þannig að þau beri strax í upphafi virðingu fyrir ólíkum uppruna, tungumálum og hvað geri þau að þeim einstaklingum sem þau eru. Kenna þeim það að ekki öll börn á Íslandi þekkja grjónagraut og slátur eða flatköku með hangikjöti. Við erum öll einstök en á sama tíma eigum við fagna fjölbreytninni, virða hvort annað sem einstaklinga í samfélaginu.“
Tengsl milli fólks skapa traust
Sara Björg segir að með því að byggja brýr milli fólks skapist traust og mikilvæg tengsl, bæði milli foreldra og barnanna sem voru svo stolt af sínum uppruna og menningu sem þau deildu með öðrum börnum, foreldrum og gestum. Tengsl milli fólks skapar traust og með því að fræða og miðla nýrri þekkingu brýtur maður niður fordóma og fáfræði. Mér finnst það mjög mikilvægt veganesti fyrir börn í dag að taka með sér út í lífið.
Mikilvægt að hafa net til að grípa þá sem þess þurfa
„Í mér hefur alltaf slegið jafnaðarhjarta en ég er alin upp við sterka réttlætiskennd af víðsýnum og vinnusömum foreldrum sem ræddu málefni líðandi stundar í matartímum og yfir morgunkaffinu um helgar. Foreldrar mínir hafa alltaf treyst mér til að taka ákvarðanir sjálf og standa síðan með þeim. Læra af mistökum og koma sterkari til baka reynslunni ríkari. Eftir að hafa búið í öðrum löndum þá veit ég hvað mikilvægt er að vera með sterka samfélagslega innviði, sem við sem þjóð eigum glöð að greiða fyrir með sköttum. Á þessu ári hefur það komið bersýnilega í ljós sem aldrei fyrr, hversu mikilvægt er að búa í samfélagi sem hefur net til að grípa þá sem þess þurfa, heilbrigðisþjónustu og starfsfólk sem vinnur í þágu heildarinnar og skólasamfélagið með kennara og skólastjórnendur sem knýr hjól atvinnulífsins áfram.“
Ein besta forvörnin fólgin í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi
Sara Björg hefur tekið þátt í borgarmálunum að undanförnu. Hvað leiddi hana þangað. „Það voru börn í Breiðholti sem leiddu mig út í borgarmálin, sérstaklega staða barna af erlendum uppruna og uppbygging aðstöðu til íþróttaiðkunar. Rannsóknir hafa sýnt að þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi sé ein besta forvörn sem völ er á og skiptir þar máli að aðstaða sé fyrir hendi. Ég hef alla tíð búið að því veganesti sem hófst í innilauginni í Breiðholtslaug og á ég enn mínar bestu vinkonur síðan á þeim tíma.“
Fannst mikilvægt að leggja mitt af mörkum
„Hausið 2016 lagði ég upp í vegferð til að tryggja uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði ÍR við Suður Mjódd, þannig að börnum hverfisins og komandi kynslóðum yrði tryggður aðgangur að fjölbreyttu íþróttasvæði um ókomna tíð. Mér fannst mikilvægt að leggja mitt af mörkum til að þær ákvarðanir, sem þáverandi meirihluti hafði unnið að undir forystu Samfylkingarinnar, myndi vera tryggt brautargengi inn á nýtt kjörtímabil. Þegar mér bauðst að taka sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 2018 þá sagði ég já. Mig langaði að sjá fjölnota knatthúsið fyllast að kátum krökkum, frjálsíþrótta völlinn komast í notkun og parkethúsið rísa. Fimleika- og danshöll er líka í kortunum og vonandi verður hún að veruleika sem fyrst. Það var því einstaklega ánægjulegt þegar knatthúsið var vígt nú í byrjun september.“
Betri borg fyrir börn í Breiðholti
Meirihlutinn í borginni hefur sett tvö mikilvæg tilraunaverkefni á laggirnar. Það fyrra tengist gróskumiklu íþrótta- og tómstundastarfi en verkefnið gengur út á að hækka frístundakortið úr 50 þúsund krónum í 80 þúsund fyrir fyrsta og annan bekk barna í hverfinu. Markmiðið sé að auka þátttökuhlutfall barna í íþrótta og tómstundastarfi í Breiðholti til jafns við önnur hverfi borgarinnar. „Þátttaka í skipulegu íþrótta- og frístundastarfi sem og nýting frístundakorts í Breiðholti er lægri en í öðrum hverfum borgarinnar og hefur verið um alllangt skeið. Með því að huga að þátttöku og félagslegri aðlögun barna af erlendum uppruna, sem og barna er búa við fátækt, er von bundin við að auka þátttöku og virkni bæði barna og foreldra. Alveg eins og með fjölmenningahátíðina, þá skapast tengsl milli barna og foreldra þeirra í gegnum skipulagt íþrótta og tómstundastarf. Börn, eins og fullorðnir, þurfa tækifæri til að upplifa sig velkomin í hópi, fá jákvæða endurgjöf á eign verðleika og tækifæri til að efla styrkleika sína.“ Sara Björg segir að samhliða því verði styrktarsjóður stofnaður til að greiða þeim fagaðilum fyrir umfram kostnað vegna þátttöku í verkefnum og foreldrum barnanna til að standa straum af aukakostnaði t.d. vegna þátttöku í viðburðum, kaupa eða leigu á búnaði. „Það er því heit ósk mín að þetta tilraunaverkefni nái til þess hóps sem því er ætlað að virkja og efla.“ „Betri borg fyrir börn er annað tilraunaverkefni sem er í gangi í Breiðholti en það snýst um að flétta skóla- frístundar- og velferðarþjónustu barna og unglinga saman í gegnum Þjónustumiðstöð Breiðholts. Þannig að þjónustan sé samfelld út frá þörfum barnsins og er framkvæmd í skóla- og nærumhverfinu í stað þess að foreldrar sæki þjónustuna víða út um borgina.“
Ferli umsókna hraðað og einfaldað
Nú hefur nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt verið kynnt. „Við í Breiðholtinu erum heppin að fá að vera annað hverfi borgarinnar á eftir Árbæ til að fá hverfisskipulag. Markmið hverfisskipulagsins er tvíþætt. Annars vegar er það hugsað til að einfalda líf borgarbúans og hins vegar til að endurskipuleggja gróin hverfi með komandi kynslóðir í huga.“ Sara Björg segir að fyrir venjulega íbúa í borginni geti skipulagsmál og umsóknir þeim tengdum virkað flóknar og hægfara í afgreiðslu. „Sumum finnst tungutak tæknilegt og því getur verið torvelt að skilja leikreglurnar fyrir venjulegt fólk sem er ekki að byggja hús, reisa kvisti eða stækka eignina sína nema einu sinni á lífsleiðinni. Hverfisskipulagið er hannað á mannamáli og er aðgengilegt fólki á öllum aldri og einfalt í notkun. Vönduð vinna, myndræn framsetning og skýr efnistök gerir það í senn áhugavert og skiljanlegt fyrir hinn almenna borgarbúa. Með fyrra markmiði hverfisskipulagsins er ferli umsókna hraðað og það einfaldað. Með því að sýna á aðgengilegan hátt hvaða heimildir eru til staðar í skipulaginu og t.a.m. hvort hækka megi þak, reisa kvist eða stækka húsnæði.“
Valkvæðir byggingakostir
Sara Björg segir að í almennri umræðu hafi borið á þeim misskilningi að borgin ætli að hækka þök á fjölbýlishúsum í Breiðholti, byggja hús á bílastæðum við sundlaugina og fjölga íbúðum allt að 3000. Svo er ekki. „Einungis er verið að útbúa heimildir til hækkunar húsa og breytinga á lóðum. Borgin ætlar ekki að byggja ofan á fjölbýlishús en hins vegar er íbúum gert kleift að breyta og bæta eignir sínar, hvort sem það er í sérbýli eða fjölbýli. Gert er hins vegar ráð fyrir nýjum íbúðum við þéttingareiti. Við Arnarbakka í kringum 140 íbúðir, í Seljahverfi í kringum 100 íbúðir og í Efra Breiðholti eru nokkrir reitir. Við Gerðuberg er áætlað að byggja 60 til 70 íbúðir á efri hæðum bygginga og í kringum 120 íbúðir við Völvufell. Aðrar tölur um fjölgun íbúða eru valkvæðir kostir eigendanna.
Græn gildi, mannfjöldaþróun og fjölbreyttar samgöngur
„Seinna markmið hverfisskipulagsins er að skipuleggja gróin hverfi borgarinnar á vistvænan og sjálfbæran hátt í takt við samfélagslegar breytingar. Þar eru höfð að leiðarljósi græn gildi, mannfjöldaþróun, fjölbreyttar samgöngur og þarfir komandi kynslóða, styrking verslunar og nærþjónustu innan hverfanna, samhliða því að fegra borgarlandið og hvetja til heilbrigðs lífs. Mikill og ánægjulegur áhugi var á frumkynningu hverfisskipulagsins í hverfinu í lok ágúst og fram í byrjun september en starfsmenn hverfisskipulagsins voru með aðsetur sitthvora vikuna í Gerðubergi og í göngugötunni í Mjódd. Síðan voru haldnar þrjár göngur um hverfið sem þó nokkur fjöldi mætti í. Hugmyndirnar voru síðan kynntar á streymisfundi. Núna er verið að vinna úr þeim athugasemdum og ábendingum sem bárust starfsmönnum hverfisskipulagsins. Þegar niðurstaða liggur fyrir um næstu skref mun starfsfólk hverfisskipulagsins kynna þau og íbúaráðið verður upplýst um þau.“
Íbúaráðin eitt af stóru lýðræðisverkefnunum
Nú hafa verið stofnuð íbúaráð í hverfum borgarinnar. Eitt þeirra er í Breiðholti. Er það nýr hluti stjórnkerfis borgarinnar. „Íbúaráðin eru eitt af stóru lýðræðisverkefnum meirihlutans í borginni. Hlutverk þeirra er að styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar, stuðla að aukinni upplýsingagjöf til íbúa, styrkja möguleika þeirra til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og vekja athygli á áskorunum innan hverfisins. Íbúaráð eru skipuð sex fulltrúum, þar af þremur úr hópi borgarfulltúra eða varaborgarfulltúra, einum fulltrúa íbúasamtaka, einum fulltrúa foreldrafélaga í hverfinu og loks einum fulltrúa úr hverfinu sem valinn er með slembivali. Íbúaráð eru lifandi samstarfsvettvangur samráðs íbúa, bakhóps hverfisins, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda. Íbúaráðin eru virkir þátttakendur í útfærslu á allri stefnumörkun hverfanna, ráðgefandi fyrir starfsemi þjónustumiðstöðva í hverfum og skulu stuðla að eflingu félagsauðs í hverfum Reykjavíkurborgar.“
Á þriðja milljón króna ráðstöfunar fyrir framtakssama Breiðhyltinga
„Íbúaráðin stuðla einnig að kynningu skipulags auk framkvæmda og þjónustu borgarinnar í hverfunum,“ heldur Sara Björg áfram. „Þau beita sér fyrir því að samráð verði haft við íbúa, allt eftir eðli máls hverju sinni. Íbúaráð skulu fá til kynningar auglýstar breytingar á skipulagsáætlunum er snerta hverfið, meginbreytingum á þjónustu auk kynninga á stærri framkvæmdum s.s; við umhirðu borgarlandsins og vor- og vetrarþjónustu. Ég get einnig nefnt Hverfissjóð Breiðholts. Hann styrkir hverfisbundin félagasamtök, íbúa og aðra þá sem vilja leggja sitt af mörkum og standa fyrir hverfistengdum verkefnum og/eða viðburðum með framangreind markmið til hliðsjónar. Íbúaráðið úthlutar styrkjum úr hverfissjóði en við í Breiðholtinu höfum á hverju ári vel á þriðju milljón króna til ráðstöfunar fyrir framtaksglaða Breiðhyltinga sem búa yfir góðum hugmyndum.“
Að lokum vil ég hvetja áhugasama Breiðhyltinga að fylgjast með starfsemi íbúaráðsins, sem fundar fyrsta mánudag í hverjum mánuði til að senda mér eða íbúaráðinu tölvupóst, skilaboð eða koma athugasemdum á framfæri til að gera gott hverfi enn betra.