Ber sterkar taugar til Seltjarnarness
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir lögfræðingur og þingmaður hefur setið á Alþingi fyrir Viðreisn frá árinu 2020. Hún er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og leiðir framboðslista flokksins í því kjördæmi í komandi kosningum. Þorbjörg nam lögfræði við Háskóla Íslands og einnig við Columbia-háskóla í New York þar sem hún lauk LL.M-gráðu. Þorbjörg skipaði annað sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í Alþingiskosningunum 2017. Hún tók sæti á þingi þann 14. apríl 2020 eftir að Þorsteinn Víglundsson, oddviti Viðreisnar í kjördæminu lét af þingmennsku. Nesfréttir hittu Þorbjörgu á Kaffi Örnu á Eiðistorgi á dögunum. Svo skemmtilega vildi til að tvær dætur hennar Elísabet Una og Kristrún voru að vinna á staðnum og færðu okkur kaffið.
Þorbjörg er Seltirningur. Ólst upp fyrstu árin á Nesinu en fylgdi síðan foreldrum sínum til Svíþjóðar þar sem þau dvöldu í nokkur ár. Hún býr ekki á Seltjarnarnes en segist bera sterkar taugar til bæjarfélagsins. „Ég er fædd í Reykjavík. Við bjuggum hér á landi þar til ég var þriggja ára. Þá fluttu foreldra mínir Gunnlaugur A. Jónsson guðfræðingur og prófessor og Guðrún H. Brynleifsdóttir hæstaréttarlögmaður til Lundar í Svíþjóð þar sem þau stunduðu nám, pabbi í doktorsnámi í guðfræði og mamma lauk prófi í hagfræði. Við vorum í sjö ár í Lundi og þar hófst skólaganga mín. Ég var tíu ára þegar Nesið tók við að nýju og því má segja að ég hafi átt æskuna eftir þótt bernskan hafi verið í Svíþjóð.“ Þorbjörg lætur vel af árunum í Svíþjóð. Þetta hafi verið góð ár í Lundi og gott að vera barn í þessu umhverfi. Hún hafi lært sænsku sem hún telur auðveldast fyrir okkur Íslendinga að læra af Norðurlandamálunum. „Framburðurinn er auðveldur fyrir okkur og ég held að Íslendingar ættu margir auðveldara með hana en dönskuna. Og sænska gengur líka alveg í norrænum samskiptum ekkert síður en hin norrænu tungumálin. Það var gott að fá þá gjöf að geta talað annað Norðurlandatungumál.“
Sat við stofugluggann hjá afa og greip í flygilinn hans Sigvalda
„Við fórum beint á Nesið þegar við komum heim. Bjuggum fyrst í húsinu hjá Jóni afa á Skólabrautinni sem nú heitir Valhúsabraut. Fórum svo um tíma á Miðbrautina og enduðum í Bollagörðum þar sem foreldrar mínir búa enn í dag. Ég fór nokkuð hefðbundna leið. Gekk í Mýró og Való og í Menntaskólann í Reykjavík. Það má eiginlega segja að það hafi verið fyrsta skrefið af Nesinu. Það var frábært að vera krakki og unglingur þar og héðan eru vinkonur mínar, sem sumar hafa nú stofnað heimili hér. Þegar við bjuggum á Valhúsabrautinni fór ég oft til afa, Jóns Gunnlaugssonar eftir skóla. Hann var þá orðinn ekkjumaður. Ég sat oft við stofugluggann með honum þar sem hann sat með sitt Neskaffi með útsýnið út yfir Gróttu þar sem vitinn blasti við á. Hann átti það til að baka lummur eftir skóla sem voru vinsælar hjá barnabörnunum. Hann var óskaplega góður afi, var níu barna faðir og hafði enn þolinmæði fyrir börnum þegar kom að okkur barnabörnunum. Ég fékk líka að spila á, eða fikta á flygilinn sem stóð uppi í stofu, meðan ég æfði á píanó þótt píanóæfingar mínar hafi staðið fremur stutt yfir. Þetta var flygill tengdaföður hans Sigvalda Kaldalóns langafa míns sem nú er geymdur í Árbæjarsafni. Ég ber taugar til Seltjarnarness eftir æskuna og fer um helgar töluvert í göngutúra að Gróttusvæðinu. Það er einstaklega fallegt svæði.“
Hefði aldrei orðið læknir
Hvarflaði aldrei að Þorbjörgu að fara í guðfræði? Hún kveðst hafa verið að hugsa um ýmis fög þegar menntaskólanáminu var að ljúka. „Guðfræðin kom reyndar til greina. Ég var að huga að ýmsum hugvísindagreinum. Hafði mikinn áhuga á bókmenntum og hugleiddi íslensku en lögfræðin varð á endanum fyrir valinu. Eins og hjá mömmu.“ En er lögfræðin ekki leiðinleg? „Heiðarlegt svar er nú kannski að sum fög voru sannarlega laus við að vera skemmtileg. Námsefnið var misskemmtilegt en árin í lagadeildinni voru algjörlega frábær. Og þar kviknaði áhuginn á pólitík svona af alvöru. Námsefnið gat sumt vissulega verið þurrt. En það er kannski eins og með flest, að sumt er skemmtilegra en annað. Svo breyttist það þegar maður fór að starfa við lögfræðina. Þá verður maður fljótt áskynja hversu fjölbreytt og lifandi hún er. Ég er mjög ánægð með þetta val, það hefur leitt af sér spennandi störf og lögfræðin er lifandi grein. Og hún nýtist sannarlega á þingi.“ Afar Þorbjargar Jón Gunnlaugsson á Seltjarnarnesi og Brynleifur H. Steingrímsson á Selfossi voru báðir læknar. Við það vaknar sú spurning hvort ekki hafi heillað hana að feta í fótspor þeirra. Hún verður fljót til svars. „Nei, það hugsaði ég aldrei. Ég hafði lítinn áhuga á raungreinum og var léleg í þeim. Hef greinilega ekki erft þann eiginleika sem þarf til þess að verða læknir,“ segir Þorbjörg og hlær. „Elsta dóttir mín var hins vegar að ljúka stúdentsprófi í vor og hefur nám í hjúkrunarfræði í haust. Það finnst mér bæði gott val og fallegt.“
Spennandi verkefni að stunda nám í bandarískum háskóla
Þorbjörg fór í framhaldsnám í lögfræði við Columbia háskólann í New York þar sem hún lagði meðal annars stund á alþjóðlegan refsirétt og þjóðarrétt. Hvernig líkaði henni lífið í stórborginni. „Manhattan er í mínum huga einfaldlega borgin. Við bjuggum úti í þrjú ár. Að búa á Manhattan var auðvitað gjörólíkt því að vera í Reykjavík eða hér á Seltjarnarnesi. Okkur fjölskyldunni líkaði mjög vel þarna og mér fannst frábært að upplifa hversu mikil áhersla er lögð á græn svæði inni í borginni. Og ég trúi því að það sé dýrmætt fyrir krakka að kynnast öðru umhverfi og annarri tungu. Það er öllum hollt. Stelpurnar voru fljótar að aðlagast umhverfinu og læra enskuna og njóta auðvitað góðs af því að í dag að vera sterkar í henni. Fyrir mér var spennandi verkefni að stunda nám í bandarískum háskóla. Bandaríkjamenn eru opnari en við. Fyrirlestrarnir voru öðruvísi og meira í samtalsformi en ég átti að venjast að heiman. Þarna fóru þeir meira fram í samræðum. Maður þurfti svolítið að þjálfa sig í samræðulist á ensku. Framhaldsnámið gaf mér mikið og eftir að hafa unnið í nokkur ár fannst mér ég líka njóta námsins betur en þegar ég var yngri. Ég er meiri Íslendingur í mér eftir að hafa kynnst stórborgarlífinu. Þessu frelsi sem við njótum hér heima. Ég skynja enn sterkar hvers virði það er, ekki síst fyrir börnin. Mér fannst gott að koma aftur heim og að stelpurnar fengju aftur þetta frelsi sem börn hér njóta. Ég man að ég saknaði þess íslenska, eins og sundlauganna okkar. Gæti þó hugsað mér að búa aftur ytra um tíma. Kannski verður það einhvern tíma síðar.“
Kynferðisbrotamál geta tekið á
Þorbjörg hefur unnið hjá embætti ríkissaksóknara sem saksóknari og hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu við meðferð sakamála, sér í lagi við málflutning í kynferðisbrotamálum. Þá var hún um tíma deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst auk þess sem hún hefur verið pistlahöfundur á Fréttablaðinu um nokkurra ára skeið. Hún hefur fengist við rannsóknir og leiðbeint laganemum við skrif á lokaritgerðum í refsirétti. „Ég kunni ágætlega við mig í þessum störfum. Málflutningur er krefjandi og í kynferðisbrotamálum getur hann tekið á. Þetta eru oft erfið mál og viðkvæm, eins og gefur augaleið.“
Fannst vanta frjálslyndan stjórnmálaflokk
Eftir að hafa lokið námi sem átti við þig og starfað við það sem þú hefur haft metnað til fórstu að fást við pólitík. Hvað kom til. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á pólitík. Ég tók til dæmis þátt í starfi Vöku þegar ég var í Háskóla Íslands og var oddviti Vöku í Stúdentaráði. Hafði tekið þátt í alls konar félagsstarfi, eins og að sitja í stjórn Kvennaathvarfsins og stjórn Unifem. Mér fannst vanta frjálslyndan stjórnmálaflokk aðeins hægra megin við miðju sem væri alþjóðasinnaður og ekki hikandi í samstarfi við aðrar þjóðir. Þegar Viðreisn var í mótun bauðst mér að vera með og ég tók þátt strax frá stofnun flokksins 2016. Þetta kitlaði mig. Ég var ekki óvön pólitík af bernskuheimili mínu. Mamma sat í bæjarstjórn á Seltjarnarnesi fyrir Neslistann. Ég tók annað sæti á framboðslista Viðreisnar í Reykjavík 2016 og aftur 2017 þegar ríkisstjórnin sem mynduð var eftir kosningarnar 2016 sprakk og það var kosið aftur. Og nú þegar við leggjum af stað í þriðja sinn í kosningabaráttu hlakka ég til að takast á við það hlutverk að leiða framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.“
Komast hjá efnahagslegum afleiðingum og auka verðmætasköpun
Nú er ný kosningabarátta að hefjast. Þorbjörg segir verkefni stjórnmálanna hér á landi núna vera efnahagslegar afleiðingar baráttunnar við heimsfaraldurinn.
„Það eru yfir þúsund milljarða króna ríkisskuldir í kjölfar heimsfaraldurs. Það er því gríðarstórt verkefni sem bíður stjórnmálanna nú þegar við erum að komast að landi í viðureign við veiruna. Verkefni ársins 2021 er enn hið sama og ársins 2020, það er að veita fólki, fyrirtækjum svigrúm til að komast standandi frá efnahagslegu afleiðingunum. Þegar öllu er á botninn hvolft snúast efnahagsmál um hið daglega líf fólks, að fólk hafi atvinnu og að kostnaður við að eiga og reka heimili sé fyrirsjáanlegur. Hvað fyrirtækin í landinu varðar hefur grundvallar-þýðingu að geta gert áætlanir. Svo er einfaldlega ekki í íslensku umhverfi. Af þeirri ástæðu er íslenskt samfélag ekki samkeppnishæft til lengri tíma litið. Stjórnvalda er að skapa skilyrði til að daglegt líf fólks og fyrirtækja í landinu sé gott, stöðugt og samkeppnishæft. Til þess að svo geti orðið þarf stöðugan gjaldmiðil. Verkefnið er þess vegna að leggja grunn að því að næsti kafli í sögu þjóðarinnar verði annar og betri. Við erum aftur farin að sjá mynd sem við þekkjum, vextir á húsnæðislánum fara hækkandi og ástæða er til að hafa áhyggjur af verðbólgu. Lykilspurning stjórnmálanna er þess vegna hvernig auka á verðmætasköpun og hver framtíðarsýnin er fyrir Ísland. Stjórnvöld verða að skapa skilyrði til að daglegt líf fólks og fyrirtækja í landinu sé gott, stöðugt og samkeppnishæft,“ segir Þorbjörg. Hér er ekki ætlunin að hefja kosningabaráttu þótt vart verði komist hjá því að nefna það sem verður verkefni stjórnmálamanna næstu vikur. Af nægu að taka en verður að bíða betri tíma. Tíminn er floginn og Þorbjörg þarf að flýta sér á annan fund.