Verum ástfangin af lífinu
– segir rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson –
,,Ég er himinlifandi með þær tvær bækur sem ég sendi frá mér núna,“ segir rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson þegar við hittumst á Hugvelli, í gamla sjónvarpshúsinu á Laugavegi. Hann og nokkrir öflugir einstaklingar úr atvinnulífinu opnuðu staðinn í janúar 2021 með það markmið að leiðarljósi að tengja saman öflugt og reynslumikið fólk sem stendur á tímamótum. Fjöldi manns hefur sótt Hugvöll og nýtt sér vinnuaðstöðuna daglega, meðal annars hann sjálfur. ,,Já, ég hef oft skrifað og haldið fundi á Hugvelli af því andinn þar er notalegur.“
Bókin Tunglið, tunglið taktu mig sem kom út á dögunum er krakkabók sem endurspeglar þá sveitarómantík sem flestir krakkar missa af í hraða og kröfum nútímans. ,,Já, ég er hrifinn af sveitinni enda alinn upp að hluta á Staðastað á Snæfellsnesi hjá afa mínum, séra Þorgrími Vídalín Sigurðssyni og ömmu minni Áslaugu Guðmundsdóttur. Heimilið var mannmargt af því afi rak unglingaskóla með heimavist á Staðastað áratugum saman, yfirleitt fyrir nemendur sem áttu erfitt uppdráttar í hefðbundnum skólum. Færri komust að en vildu en meðal þeirra sem dvöldu vetrarlangt hjá ömmu og afa voru Flosi Ólafsson leikari og Karl Sighvatsson tónlistarmaður. Afi var afburða kennari og ég tel að hann hafi unnið stórvirki í skólamálum, hjálpað mörgum á þroskabrautinni. Mér verður oft hugsað til elsku ömmu því skólastarfið mæddi ekki síður á henni. Að hafa rúman tug ungmenna inni á heimilinu vetur eftir vetur væri flestum ofviða. Amma eldaði ofan í alla, mjólkaði kýrnar kvölds og morgna, þvoði þvotta og hélt húsinu hreinu en kvartaði aldrei. Amma og afi voru alvöru áhrifavaldar. Ég hef oft hitt fyrrum nemendur afa sem hafa þakkað mér fyrir þeirra störf. Þetta fjölmenna heimili er mér ákaflega minnisstætt og setti mark sitt á líf mitt og systkina minna.“
Stoltur af forfeðrunum
Þorgrímur, sem ber nafn afa síns, neitar því ekki að það uppeldi sem hann fékk í sveitinni hafi haft áhrif á líf hans og starf til frambúðar. Uppeldis- og skólamálin eiga einnig rætur aftur í ættir Þorgríms. Langafi hans var Sigurður Þórólfsson sem stofnaði Hvítárbakkaskóla í Borgarfirði og afasystir hans er Anna Sigurðardóttir sem stofnaði Kvennasögusafn Íslands og veitti því forstöðu. ,,Ég er mjög stoltur af forfeðrum mínum og foreldrum og systkinum þeirra, allt dásamlegt merkisfólk sem hefur varðað veginn fyrir okkur afkomendur. Mamma og þrjú systkina hennar voru kennarar og ég er því með kennarablóð í æðum. Þá eru öll mín frændsystkini yndislegir einstaklingar og sterkir persónuleikar.“
Verum ástfangin af lífinu
Þorgrímur hefur víða drepið niður fæti en hann var landsliðsmaður í knattspyrnu, blaðamaður og ritstjóri Íþróttablaðsins, vann að tóbaksvörnum fyrir heilbrigðisráðherra en hefur síðastliðinn þrettán ár markvisst heimsótt skóla landsins árlega með fyrirlestur sem hann kallar Verum ástfangin af lífinu. Hann nær að hitta rúmlega 4500 nemendur á hverju skólaári. Samhliða störfum hefur hann skrifað yfir 40 bækur. ,,Það er margt eftirminnilegt þegar ég lít til baka. Blaðamennskan var lærdómsrík af því ég fékk að leika lausum hala að mestu, skrifa um það sem mig langaði til. Í sömu ferð út á land skrifaði ég kannski í Íþróttablaðið, barnablaðið ABC, tímaritið Við sem fljúgum og jafnvel Nýtt líf eða Sjávarfréttir. Mér var falið að taka forsíðuviðtöl í Nýtt líf eða Mannlíf við merkisfólk og líka þá sem urðu undir í lífinu. Þetta var frábær skóli sem leiddi mig síðar út í það að skrifa skáldsögur.“
Vinir mínir þurftu að snúa gaurinn niður
Að vera í forsvari fyrir tóbaksvarnir í átta ár var krefjandi og erfitt á köflum en samt skemmtilegt. Mér var hótað lífláti af því auglýsingar pirruðu suma.
Einu sinni var ráðist á mig á skemmtistað fyrir það eitt að sinna starfi mínu samviskusamlega. Vinir mínir björguðu mér frá snarklikkuðum gaur, þurftu að snúa hann niður og halda honum þar til löggan mætti á svæðið. Stundum var hringt heim á nóttunni með hótanir þannig að ég tók nafn mitt úr símaskránni. Sumir héldu í alvörunni að ég væri að sinna tóbaksvörnum mér til gamans, en ég var í launuðu starfi og vildi gera það vel. Okkur tókst það með margvíslegum hætti, m.a. með að sannfæra ráðherra og þingmenn um hvaða lög og reglur þyrfti að skerpa á til þess að ná árangri, bjarga mannslífum. Og sá árangur vakti heimsathygli.“
Þarf risa átak í forvörnum
Þorgrímur segir að í dag þurfi risaátak í fyrsta stigs forvörnum, til að hjálpa börnum að fóta sig í lífinu en okkur skorti ennþá leiðtoga til að taka af skarið, virkja aðra til verka og setja alvöru fjármagn í þá málaflokka sem skipta mestu máli. „Við höfum verið að hjakka í sama farinu á mörgum sviðum, áratugum saman en með hugrekki, samstilltu átaki og frumkvæði gætum við snúið óheillaþróun við. Ég er fyrst og fremst að tala um dapran lesskilning, brottfall úr skólum og vanlíðan barna og ungmenna sem hefur slæmar afleiðingar. Það er augljóst hvað þarf að gera en aðrar áherslur virðast skipta meira máli, t.d. efnahagsmálin og allt sem lýtur að peningum. Leik- og grunnskólar eru mikilvægustu vinnustaðir landsins og þar starfar fólk sem hefur ástríðu fyrir því að hjálpa börnum og ungmennum. Fyrir slíkt ætti að greiða hæstu launin.“
Lifi ekki á ritstörfum
Fyrsta bók Þorgríms Með fiðring í tánum kom út 1989 og síðan hefur þeim fjölgað í hillum landsmanna. Alls eru bækurnar yfir fjörutíu. Þorgrímur hefur átta sinnum hlotið verðlaun fyrir bækurnar, hann var kjörinn Borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2013 og samkvæmt útlánum á bókasöfnum eru bækur hans teknir á fimm mínútna fresti. Engu að síður hefur hann ekki verið í náðinni hjá þeim sem úthluta listamannalaunum, alls fengið úthlutað níu mánuðum á 32 árum.
Vantar fleiri klukkustundir í sólarhringinn
,,Ég skrifa af því ég hef ástríðu fyrir því en lifi vitanlega ekki á ritstörfum, ekki frekar en 98% rithöfunda. Ég skrifa á kvöldin, um helgar og í sumarfríinu en það væri frábært í framtíðinni að njóta stuðnings til að prófa að einbeita sér alfarið að ritstörfum. Ég óttast ekkert í lífinu, nema það helst að ná ekki að ljúka við að skrifa þær bækur, þær kvikmyndir og þá sjónvarpsþætti sem mig langar til. Mig vantar fleiri klukkustundir í sólarhringinn en þar sem litlar líkur er á því að hann lengist stefni ég að því að verða 100 ára og vel virkur fram á síðasta dag.“
Sögusvið Skaftárelda
Þær bækur sem Þorgrímur segir að hafa fengið mesta athygli í gegnum tíðina eru Ertu Guð, afi?, Tár, bros og takkaskór og hans eina skáldsaga fyrir fullorðna, Allt hold er hey. ,,Það er freistandi að segja frá sögunni Allt hold er hey en bókin gengur reglulega í endurnýjun lífdaga af því hún er oft tekin fyrir í leshringjum. Ég fékk þriggja síðna frásögn frá miðli, sögu sem átti sér stað í kringum Skaftárelda árið 1783 og skrifaði um 350 síðna bók. Þetta er baráttusaga ungrar konu sem var nauðgað af sýslumanni og dæmd í útlegð fyrir að bera út barnið sitt, sem hún gerði ekki. Það hlýtur að styttast í að einhver kvikmyndagerðarmaður lesi bókina.“
Fleiri fullorðinsbækur á teikniborðinu
Þorgrímur segir að það séu fleiri fullorðinsbækur á teikniborðinu, ein sem hefur verið þar síðan 1990. ,,Já, ég hef verið að punkta niður í sögu í rúm þrjátíu ár en mig skortir tíma. Þessi blessaði sólarhringur. Mín dásamlega vinna rænir mig rithöfundarferlinum að vissu leyti en ég er algjörlega sáttur við það, enn sem komið er. Það er mikilvægara fyrir mig að hreyfa við ungu fólki en að standa á stalli sem rithöfundur. Sá hégómi er horfinn. Ég stökk niður af þeim stalli á meðan ég var að sinna tóbaksvörnum, sem var þjóðþrifamál og mikilvægara en mín velgengni á rithöfundavellinum. Annars er ég trúr þeim hugmyndum sem koma til mín og þær höfða flestar til barna og ungmenna.“
Móey tekst við mótlætið
Tunglið, tunglið taktu mig kom út á dögunum og Þorgrímur segir að sagan gerist í sveit. ,,Sagan er um Móey litlu sem er að verða 12 ára en hún er á einhverfurófi. Foreldrar hennar og bræður búa á Indlandi en hún vill frekar dvelja í sveitinni hjá ömmu og afa sem eru prestshjón og sinna dýrunum. Þegar Sóli, sem er að verða 13 ára, flytur á næsta bæ til fólks sem hann þekkir ekki, breytist allt. Honum líður illa, hann á litla systur sem fær ekki að flytja til hans og vanlíðan hans bitnar á öllum, líka dýrunum. Sagan fjallar um það hvernig Móey tekst á við mótlætið og reynir af hjartans einlægni að hjálpa Sóla að aðlagast sveitalífinu en það er hægara sagt en gert. Þau lenda í lífsháska og Móey leysir afa sinn af sem prestur.“
Litlir hlutir skapa stóra sigra
Bókin Verum ástfangin af lífinu, sem kemur út um miðjan nóvember, er allt annars eðlis. ,,Ég hef ekki hugmynd um hversu lengi ég mun halda áfram með fyrirlestra í skólum en mig langaði að efnið, sem ég hef borið á borð fyrir nemendur í rúman áratug, myndi lifa áfram. Ég er sérstaklega stoltur af þessari bók, ekki síst vegna þess hversu fallega Halla Sigríður Margrétardóttir hannaði hana. Bókin er eins og listaverk og hvert umfjöllunarefni rúmast á einni opnu, stundum tveimur. Sumt sem rataði í bókina fjallaði ég um fyrir áratug en mér finnst allt efnið eiga erindi við ungt fólk í dag og í framtíðinni. Bókin er hvatning til að láta draumana rætast og lykilsetningin sem fyrr er; Litlir hlutir skapa stóra sigra. Ég þekki engan sem hefur fengið góðar einkunnir í jólagjöf eða sjálfstraust í afmælisgjöf. Árangur næst ef maður leggur sig fram alla daga, í öllu sem maður tekur sér fyrir hendur.“
Sum fyrirtæki sýna mikla samfélagslega ábyrgð
Þorgrímur hefur notið stuðnings fyrirtækja til að halda fyrirlesturinn, sem hefur verið skólum að kostnaðarlausu. ,,Sum fyrirtæki sýna mikla samfélagslega ábyrgð og undanfarin ár hefur Festi (N1) og Brim veitt mér styrk til að halda fyrirlesturinn fyrir nemendur. Ég verð þeim ævinlega þakklátur. Áður voru það Bónus, Hagkaup, Icelandair og Bláa lónið en N1 og Brim hafa haldið tryggð við verkefnið í mörg ár. Þeir sem stýra þessum fyrirtækjum eru ábyrgir feður og gera sér grein fyrir því að það þarf að hvetja unga fólkið til dáða með margvíslegum hætti.“
Lít á mig sem Ólsara
Eins og áður sagði er Þorgrímur fæddur í Vesturbæ Reykjavíkur, nánar tiltekið í kjallaranum að Tómasarhaga 39. Nokkru seinna flutti hann að Hólavallagötu 3, þannig að Landakotstúnið var heimavöllur hans á æskuárunum. Næsti áfangastaður var Kópavogur en þegar hann var ellefu ára flutti fjölskyldan til Ólafsvíkur og svo aftur á höfuðborgarsvæðið tólf árum síðar. ,,Ég lít á mig sem Ólsara og er stoltur af því. Snæfellsnesið togar stanslaust í mig og þegar ég hef verið á yfirkeyrslu er nóg fyrir mig að skreppa í dagsferð á Snæfellsnes. Þar dreg ég andann á annan hátt og gleymi amstrinu. En mér þykir vænt um Vesturbæinn og nýt þess að fara í Vesturbæjarlaugina. Þegar við hjónin förum á rúntinn er það yfirleitt Vesturbærinn, Ægisíðan. Hver veit nema ég ljúki æviskeiðinu á þeim slóðum þar sem ég kom í heiminn.“