Jákvæðari fjárhagur, varlegar fjárfestingar og góður gangur í grunnskólaviðgerðum

— Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri ræðir bæjarmálin —

Þór Sigurgeirsson.

Nesfréttir höfðu samband við Þór Sigurgeirsson bæjarstjóra og spurðu frétta af því helsta sem bæjaryfirvöld fást við þessa daganna.

Vinna við fjárhagsáætlun komandi árs er þegar þetta er ritað (18. nóv) á lokametrunum en fyrri umræða fjárhagsáætlunar verður næstkomandi miðvikudag. Í dag stefnir í að við munum sjá mun jákvæðari niðurstöðu en á árinu sem nú er að líða. Munar þar helst um auknar skatttekjur bæjarsjóðs en greitt útsvar er talsvert yfir áætlunum. Útsvarsprósenta verður óbreytt.

Það má þó lítið út af bregða því verðbólgan er enn há og vaxtaberandi skuldir bæjarins bera þess merki. Við munum eins og nágrannasveitarfélögin hækka flestar gjaldskrár bæjarins um 9,9% auk þess heitt vatn mun hækka um 20% á nýju ári. Ástæða þessarar umfram hækkunar á gjaldskrá hitaveitunnar er bæði vegna kostnaðar við auknar fjárfestingar og vegna fráviks sem varð við framkvæmd á verðskrá Hitaveitunnar á þessu ári. Mannleg mistök urðu því miður til þess að Hitaveitan varð af umtalsverðum tekjum árið 2023 sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins.

Fjárfestingar framundan

Við munum fara varlega í fjárfestingar á komandi ári, vegna þess gríðarstóra verkefnis sem lagfæring á skólahúsnæðinu er vegna myglunnar þarf því miður að fresta verkefnum m.a. uppbyggingu á Félagsheimilinu því miður. Haldið verður áfram með Félagsheimilið okkar eins fljótt og auðið er. Bygging leikskóla er enn á dagskrá auk þess sem farið verður í að LED-væða götulýsingu bæjarins. Við erum með Reykvíkingum í sameiginlegu útboði sem gefur okkur góð verð sökum stærðarhagkvæmni. Við munum setja kraft í að laga skólalóð Mýrarhúsaskóla. Einn liður fjárfestinga er kallaður „Málning og fegrun“ og munum við setja sérstakt fjármagn á þann lið til þess að geta sett kraft í að fegra og mála bæinn okkar svo sem gróður, leiksvæði og götur. Þarna þurfum við íbúa í lið með okkur að gera fínt í kring um okkur. Við eigum þennan bæ jú öll saman.

Ég tel ástæðu til að þakka bæjarbúum góðar viðtökur á nýju sorpflokkunarkerfi sem fór formlega í gang hér í bænum í síðasta mánuði. Með nýju kerfi erum við að uppfylla lagaskyldu að hluta en við þurfum að koma upp grenndarstöðum til að uppfylla lagaskylduna að fullu. Sitt sýnist þó hverjum um staðsetningu slíkra stöðva en við komumst ekki hjá því að setja upp slíkar hér á Nesinu á nýju ári. Þar til þær verða komnar upp er íbúum bent á næstu móttökustöð Sorpu.

Sala eigna er í fullum gangi og mikill áhugi á Safnatröð 1 sem hýsir hjúkrunarheimilið. Sæbraut 2 er einnig í söluferli en það er glæsilegt einbýlishús.

Góður gangur í viðgerðum á grunnskólanum

Eins og gefur að skilja er lang umfangsmesta verkefnið þessi misserin viðgerðir á húsnæði grunnskólans. Það er gríðarlega krefjandi ekki síst þar sem unnið er að viðgerðum samhliða því sem kennt er í byggingunum eins og víða annarsstaðar er gert. Það er full ástæða til að hrósa starfsfólki skólanna, nemendum og foreldrum fyrir góða samvinnu og samskipti við þessar erfiðu aðstæður. Skólastarfið hefur í raun gengið með eindæmum vel þó þetta sé alls ekki einfalt fyrir alla og fólk er mismunandi næmt fyrir innivist í húsnæði. Við vinnum í einu og öllu eftir verkferlum og ráðgjöf Eflu á öllum stigum framkvæmdanna. Bærinn hefur leigt húsnæði út skólaárið á Eiðistorgi fyrir kennslu og hefur skólastarfið þar farið mjög vel af stað, starfsfólk og nemendur una sér ágætlega á torginu sem skiptir öllu máli.

Það er góður gangur í viðgerðum beggja bygginganna og vonandi verða þær tilbúnar að fullu fyrir næsta skólaár. Það er ánægjulegt að segja frá því að við höfum nú þegar fengið stofur í Valhúsaskóla til baka úr viðgerðum og er kennsla hafin þar aftur. Fleiri stofur eru væntanlegar úr viðgerðum á næstunni. Í sumar verður svo sett upp ný loftræsing í allar stofur Valhúsaskóla. Framundan eru viðgerðir á drenlögnum við báðar byggingarnar auk þess sem steypa þarf nýtt gólf í jarðhæð Mýrarhúsaskóla, en það hefur verið brotið upp og fjarlægt. Sömuleiðis verður loftræsing í Mýrarhúsaskóla endurbætt. Mikið er lagt upp úr því að halda foreldrum og starfsfólki vel upplýstu en upplýsingapóstur um gang framkvæmda er sendur til þeirra á hverjum föstudegi sem hefur mælst vel fyrir.

Eins og sjá má á þessari stuttu upptalningu sem er langt því frá tæmandi þá eru vissulega mörg, umfangsmikil og krefjandi verkefni sem hafa bæst við alla daglega starfsemi bæjarins. Álagið hefur verið mjög mikið en það eru allir að reyna að gera sitt besta og við horfum bjartsýn fram á nýtt ár segir Þór bæjarstjóri að lokum.

You may also like...