Vatnsmýrin mörg hundruð milljarða virði
– að mati borgarskipulagsfræðings –
Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að 20 til 25 þúsund manns geti búið í Vatnsmýri ef Reykjavíkurflugvöllur fer. Óvissa er uppi um framtíð innanlandsflugs og hvar eða hvort byggja eigi nýjan flugvöll. Áform um flugvöll í Hvassahrauni hafa raskast vegna eldsumbrota á Reykjanesi þótt þau hafi ekki verið slegin af. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill nýjan flugvöll einhvers staðar á suðvesturhorninu en Icelandair vill að innanlandsflugið verði áfram í Vatnsmýrinni. Gert er ráð fyrir að nýr flugvöllur verð bæði fyrir innanlandsflug og millilandaflug og eigi að létta á umferð um Keflavíkurflugvöll vegna vaxandi flugumferðar. Til þess er Reykjavíkurflugvöllur talinn of lítill, möguleikar til að stækka hann mjög takmarkaðir, auk þess sem hann er á mikilvægu byggingarlandi inni í miðri borg.
Guðmundur Kristján Jónsson borgarskipulagsfræðingur sagði uppbyggingu í Vatnsmýri eina hagkvæmustu loftslagsaðgerð sem hægt sé að fara í hér á landi í viðtali á Rás 2 á dögunum. Úr Vatnsmýrinni gefist tugþúsundum fólks færi á að komast til og frá vinnu án þess að nýta til þess einkabíl. Hann sagði gríðarleg verðmæti felast í landinu í Vatnsmýrinni. Hann benti á að nýlega hafi verið boðin út sex þúsund fermetra lóð á Hlíðarenda þar sem tilborðsverð hafi numið allt að þremur milljörðum. Hann sagði að þessi lóð væri bara eitt lítið frímerki af þessu ógnarstóra svæði. Því megi ímynda sér hversu mörg hundruð milljarðar liggi þarna vannýttir af fjármagni sem væri hægt að nýta þjóðfélaginu öllum til heilla, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur um allt land.
Lilja Karlsdóttir samgönguverkfræðingur benti á við sama tækifæri mikilvægi þess að taka ákvörðun um flugvallarmálin sem fyrst. Ef halda eigi flugvelli í Vatnsmýrinni og ekki byggja þar verði að byggja fyrir fólk einhvers staðar annars staðar. Með því sé verið að teygja byggðina enn þá meira. Inn á virk svæði. Spurningin sé því um hvort skynsamlegra sé að hafa flugvöll mögulega á áhættusvæði en mannabyggð. Hún sagði að þarna vanti að taka ákvarðanir og fara af stað og gera þetta almennilega. Slæmt sé fyrir alla hlutaðeigandi sem hafa aðstöðu á flugvellinum, einnig þá sem eru með minni vélarnar og einkaflugvélarnar að vera alltaf í þessari óvissu.