Nær 100 ára sögu bankastarfsemi í húsinu að ljúka
— Landsbankahúsið við Austurstræti —
Innan tíðar mun Landsbankinn flytja starfsemi sína í nýjar höfuðstöðvar sem verið hafa í byggingu við Austurhöfn. Við það losnar mikið af húsnæði sem bankinn á eða hefur haft afnot af í Kvosinni. Merkust þeirra bygginga er Landsbankahúsið á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis. Hús sem sett hefur mikinn svip á Miðborg Reykjavíkur allt frá því það var byggt. Ekki liggur fyrir hverjir munu eignast Landsbankahúsið eða til hvers það verður notað í framtíðinni. Með hliðsjón af sögu hússins og ekki síður af útliti þess og stílmynd í miðju Miðborgarinnar má ljóst vera að vanda þarf til vals og verka þegar kemur til þess að veita því nýtt hlutverk.
Sögu Landsbankahússins má rekja aftur til ársins 1922. Stjórn Landsbankans hafði ákveðið haustið 1921 að kaupa lóð og hús að Austurstræti 11 og reisa þar nýja bankabyggingu. Byggingin skyldi verða reist úr rústum eldri bankabyggingar sem hafi farið illa í bruna. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins var fenginn til þess að teikna húsið. Við endurbyggingu Austurstrætis 11 var ákveðið að nýta það sem eftir stóð af hlöðnum útveggjum eldra hússins eftir brunann. Húsið var lengt til vesturs um fjögur gluggabil og einni hæð bætt ofan á það. Bygging hins nýja húss var boðin út í ákvæðisvinnu vorið 1922. Vel var að verki unnið og var húsið fokhelt þegar um haustið. Starfsemi Landsbankans var flutt í húsið fyrsta mars 1924.
Hóf fyrst starfsemi í Stelluhúsinu
Saga Landsbankans er þó nokkuð eldri. Bankinn hóf starfsemi árið 1886 í Bankastræti í húsi sem lengi hefur verið kennt við verslunina Stellu. Tlkoma bankastarfseminnar mun hafa orðið til þess að nafninu Bakarabrekku var breytt í Bankastræti. Bankinn flutti í Austurstræti 11 árið 1898. Þá hafði verið reist hús yfir bankann í svonefndum nýendurreisnarstíl. Gamla Landsbankahúsið skemmdist mikið í miðbæjarbrunanum vorið 1915. Þá keypti landsstjórnin það sem eftir stóð af húsinu. Þak var sett ofan á veggina og húsið nýtt sem vörugeymsla á stríðsárunum 1914 til 1918. Til umræðu kom að byggja hús fyrir Landsímann á lóðinni en af því varð ekki. Starfsemi Landsbankans var um tíma flutt í Austurstæri 16. Húsi sem byggt var fyrir forgöngu Natan Olsen og hefur lengst af gengið undir nafninu Reykjavíkurapótek eftir að apótek fluttist þangað 1929. Rætt var um að byggja yfir Landsbankann á Arnarhólstúninu en sú hugmynd náði aldrei athygli. Fráleitt þótt að færa bankann úr miðbænum út á Arnarhólstún og lýsir það hugsunarhætti fólks í hinum unga bæ sem enn var varla meira en þorp. Haustið 1921 var ákveðið sem fyrr segir að kaupa aftur lóðina við Austurstræti 11 og reisa þar nýja bankabyggingu úr rústum hinnar eldri.
Guðjón og Gunnlaugur
Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið og mikið var lagt í byggingu þess. Alla umgjörð sem innréttingar auk þess sem verk þekktra listamanna voru sett upp til þess að prýða rými og vistarverur. Umsvif bankans jukust stöðugt um áratug síðar varð ljóst að hún rúmaðist ekki innan veggja þess. Bæta þurfti við. Vorið 1934 var ákveðið að byggja við Austurstræti 11. Efndi Landsbankinn til samkeppni um teikningar af væntanlegri sambyggingu milli Landsbankahússins og Ingólfshvols sem þá stóð á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis og var síðar rifið. Gunnlaugur Halldórsson arkitekt bar sigur úr bítum og var fenginn til að útfæra hugmyndir sína nánar. Ein þeirra var að rífa Ingólfshvol sem sem stóð við Hafnarstræti til að rýma til fyrir viðbyggingu. Á þeim tíma þótti slíkt ótækt þótt það væri gert síðar. Reist var minni tveggja hæða millibyggingu í sundinu á milli Landsbankahússins og Ingólfshvols auk þess að taka hluta af Ingólfshvoli undir starfsemi bankans. Gert var ráð fyrir að Ingólfshvoll yrði rifinn síðar og bankaviðbyggingunni lokið í þeirri mynd sem samkeppnistillagan sýndi og síðar varð. Þessi fyrsta viðbygging við Landsbankahúsið var tilbúin árið 1940. Hún varð ekki óumdeild og þótti stinga verulega í stúf við heildarútlit hússins. Árið 1970 var Ingólfshvoll rifinn og Landsbankahúsið stækka í þá mynd sem það er í dag.