Ómar Örn nýr skólastjóri Hagaskóla
Ómar Örn Magnússon hefur tekið við starfi skólastjóra í Hagaskóla af S. Ingibjörgu Jósefsdóttur. Ómar hefur starfað farsællega sem kennari, verkefnastjóri og stjórnandi í Hagaskóla til fjölda ára. Jafnframt hefur hann leitt ýmiss skólaþróunarverkefni fyrir opinbera og óháða aðila sem og kennt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands á undanförnum misserum.
Ómar lauk BA gráðu í sagnfræði árið 2001 frá Háskóla Íslands og námi í kennslufræði til kennsluréttinda árið 2004 frá Háskólanum á Akureyri. Hann lauk MA prófi í stjórnun og forystu í menntastofnunum frá University of Warwick árið 2017. Viðfangsefni Ómars í meistararitgerð hans var traust í skólasamfélögum þar sem mælingar á trausti voru bornar saman við viðhorf stjórnenda til ákveðinna dyggða. Ómar hefur undanfarin tvö ár lagt stund á rannsóknir á jafnræði í skólastarfi í tengslum við yfirstandandi doktorsnám sitt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.