Samfelld byggð frá landnámstíð
Seltjarnarneshreppur hinn forni náði frá Gróttu, sem þá var breitt nes en ekki eyja, að Elliðaám og austur með þeim til fjalla. Hreppurinn náði þvert yfir nesið, frá Kollafirði suður í Skerjafjörð og einnig yfir eyjarnar Akurey, Engey og Viðey á Kollafirði. Ein af jörðunum á nesinu var Reykjavík þar sem stofnaður var kaupstaður árið 1786 sem skyldi verða nýr höfuðstaður Íslands. Staðarmörk kaupstaðarins í Reykjavík voru færð út nokkrum sinnum á 19. og 20. öld þannig að Seltjarnarneshreppur náði þá aðeins yfir lítið svæði yst á nesinu og einnig jörðina Kópavog fyrir sunnan Reykjavík. Síðar var Kópavogur skilin frá og eftir stendur aðeins land frá Eiði í norðri en aðeins lengra austur í suðri og út að Gróttu og Suðurness. Heimildir eru um byggð á Seltjarnarnesi frá því talið er skömmu eftir landnám. Talið er að órannsakaðar fornminjar geti leynst á Nesinu. Um er að ræða dularfulla hringi sem gætu verið leifar írskra mannvirkja frá upphafi Íslandsbyggðar.
Í kirknatal Páls Jónssonar biskups frá því um 1200 er fyrst getið um kirkju í Nesi við Seltjörn. Hún er trúlega fyrsta kirkjan sem byggð var á suðvesturhorninu eftir Vikurkirkju við Aðalstræti sem talin er hafa verið reist fljótt eftir kristnitöku. Var kirkjunni í Nesi skylt að halda prest sem sýnir að Nes var í tölu stórbýla. Kirkjan hefur átt eignir, trúlega þriðjung úr landi Ness sem var að fornu talin 120 hundraða jörð auk fleiri jarða. Kirkjan átti einnig ýmis ítök svo sem fjórðung af veiði í Elliðaánum og rekaréttindi á tveimur jörðum.
Nes var stórbýli
Árið 1703 tilheyrðu 19 hjáleigur lögbýlunum sjö á Seltjarnarnesi. Langflestar hjáleigur tilheyrðu Nesi, enda sjást yfirburðir þess gagnvart öðrum býlum á svæðinu seint á 17. öld, en þá var Nes dýrari jörð en öll önnur lögbýli í sókninni samanlagt. Forn merkjagarður á Valhúsahæð bendir þó til að byrjað hafi verið að skipta upp landi Ness fremur snemma.
Nesstofa sterk söguleg heimild
Nesstofa er ein sterkasta heimild um byggð á Seltjarnarnesi. Hún er eitt af elstu steinhúsum landsins. Hún var reist á árunum 1761 til 1765. Sögulegt gildi Nesstofu verður ekki dregið í efa. Þar bjó á árunum 1763 til 1779 fyrsti landlæknir Íslendinga, Bjarni Pálsson. Hann var fyrsti Íslendingurinn sem lauk embættisprófi í læknisfræði. Hann var skipaður landlæknir 1760 og beið hans þá mikið og erfitt starf. Ásamt því að hafa umsjón með heilbrigðismálum landsins, veita sjúkum læknishjálp og hafa með höndum lyfjasölu var honum falið að annast læknakennslu, kenna ljósmæðrum og að auki að hafa eftirlit með tukthúslimum. Þrátt fyrir drepsóttir, hungur og gífurlegan barnadauða hófst Bjarni ótrauður handa. Læknaskóla starfrækti hann allan sinn starfstíma í Nesi og lyfjabúð til ársins 1772. Landlæknissetrið og starfið er eitt af því merkilegra sem gert var á Seltjarnarnesi á þeim tíma og raunar í áranna rás. Nú er Nesstofa sögulegur miðpunktur á safnasvæði Seltjarnarnesbæjar.
Grótta
Grótta er fyrst nefnd í fógetareikningum frá árunum 1547 til 1552. Nafnið þykir fornlegt og benda til þess að þar hafi lengi verið búið. Á fyrri árum stóð bærinn Grótta á breiðu nesi. Árið 1703 er Grótta talin hjáleiga frá Nesi. Er jörðin alla öldina nefnd meðal átta bestu jarða Framnessins. Í Básendaflóðinu 1799 varð Grótta að eyju og var jörðin talin óbyggileg eftir það. Kveikt var á fyrsta vitanum í Gróttu þann 1. september 1897 og síðan var núverandi viti reistur árið 1947 sem hefur lýst sjófarendum síðan.
Margir útvegsbændur
Við það fór byggð að þéttast og eflast við sjávarsíðuna. Íbúum fór fjölgandi á nesinu næstu aldirnar og á fyrri hluta 18. aldar var þar einna þéttbýlast á öllu landinu. Um aldamótin 1900 hljóp mikil gróska í útgerð á nesinu og taldist hreppurinn til stærstu útgerðarstaða á landsvísu. Margir útvegsbændur voru á Seltjarnarnesi og árið 1884 áttu Seltirningar 40 sexæringa og níu áttæringa. Eiginlegt upphaf þilskipaútgerðar hófst 1883 til 1984. Fyrstu þilskipin voru skonnortur og á árunum 1884 og 1885 eignuðust Seltirningar átta skonnortur. Árið 1897 er tímamótaár í sögu þilskipaútgerðar á Seltjarnarnesi því þá komu tveir fyrstu enskubyggðu kútterarnir í eigu Nesbúa. Skútu- og þilskipaútgerð frá Seltjarnarnesi náði hámarki 1904. Eftir það fækkaði skipum sem gerð voru út frá Seltjarnarnesi og má segja að árið 1908 hafi verið síðasta árið í sögu skútuútgerðar á Nesinu. Ástæður þess að skútuútgerð Seltirninga fékk svo skjótan endi eru efalaust ýmsar. Stór verslunarfyrirtæki í Reykjavík keyptu skútur Seltirninga og héldu áfram útgerð þeirra. Að lokum skal á það minnst að hafnleysi og annað aðstöðuleysi í landi var útgerð Seltirninga ávallt erfitt og erfiðara eftir því sem skipin urðu stærri.
Nálægð við sjó var höfuðatriði
Þéttbýlismyndun sem orðin er í dag á Seltjarnarnesi hófst ekki fyrir alvöru fyrr en eftir síðari heimsstyrjöldina en átti sér þó talsverðan aðdraganda. Þegar jarðabók Árna og Páls frá 1703 kom út voru 37 heimili á Seltjarnarnesi og 158 íbúar. Öll lögbýlin nema Nes og verulegur hluti hjáleiganna voru mjög nærri sjó og þau býli sem stofnuð voru á 18., 19. og fram eftir 20. öld voru flest alveg við sjávarmál. Greinilegt er að nálægð við sjó var höfuðatriði sem haft var í huga við staðsetningu býlanna. Heimilunum á Seltjarnarnesi virðist hafa fækkað talsvert á 18. öld og í upphafi 19. aldar voru þau 20 talsins. Ekki er að sjá miklar breytingar á íbúafjölda eða fjölda bústaða á nesinu á 19. öld en um 1900 hafði heimilum á nesinu aftur fjölgað og voru þau þá 35.
Sími, rafmagn, vatnsveita o.fl.
Eitt helsta viðfangsefni hreppsnefndar Seltjarnarness á árunum 1913 til 1931 var að meta hvort Seltirningar ættu að verða aðnjótandi ýmissa gæða, sem nágrannar þeirra í Reykjavík höfðu fengið. Má þar nefna síma, rafmagn, vatnsveitu og sjúkrasamlag. Á þessum árum voru þó skólamál eitt helsta viðfangsefni hreppsnefndar. Þrátt fyrir slæma vegi á framnesinu hófust strætisvagnaferðir þangað á árinu 1937. Fór vagn frá Lækjartorgi á hálftíma fresti að Mýrarhúsaskóla og svo nokkrar ferðir á dag fram að Nýjabæjarhliði.
Skerðing Seltjarnarneshrepps vegna þarfa Reykjavíkur
Haustið 1942 kom fram frumvarp á Alþingi um skerðingu Seltjarnarneshrepps vegna þarfa Reykjavíkur fyrir aukið landrými. Var hér um að ræða jarðirnar Elliðavatn, Hólm og spildu úr Vatnsendalandi. Hreppsnefndin mótmælti þessu frumvarpi og fól oddvita að fylgja því eftir. Ekki var tekið tillit til þessara mótmæla og samþykkti Alþingi lög um innlimun þessara jarða í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur 14. apríl 1942. Nú eru þrír kaupstaðir innan gömlu hreppamarkanna og býr þar nær helmingur þjóðarinnar.
Framfarafélag Kópavogs tók völdin
Við hreppsnefndakosningar árið 1946 fékk listi framfarafélagsins í Kópavogi hreinan meirihluta í hreppsnefnd eða þrjá fulltrúa af fimm. Flestir fundir hreppsnefndar þetta kópavogstímabil Seltjarnarness voru haldnir á heimili oddvita í Kópavogi. Um sumarið 1947 gengu undirskriftalistar um Nesið, þar sem farið var fram á skiptingu hreppsins í tvo hreppa. Sýslunefnd Kjósarsýslu var hlynnt málinu og lá stefnumarkandi ákvörðun Félagsmálaráðuneytis um skiptingu fyrir í nóvember 1947 og tók gildi á áramótum sama ár. Í byrjun árs 1948 er hinn nýi Seltjarnarneshreppur orðinn til. Þá bjuggu þar um 500 manns. Flestir í Lambastaðahverfi en einnig allmargir á Framnesinu. Við Tryggvastaðabraut, sem nú heitir Lindarbraut voru komin nokkur hús þar sem búið var allt árið.
Kaupstaðaréttindi samþykkt
Hinn 29. mars 1974 voru samþykkt lög frá Alþingi um kaupstaðarréttindi Seltjarnarness og skyldi hreppsnefnd stýra kaupstaðnum til bráðabirgða, þar til bæjarstjórn hefði verið kosin. Formlegur stofndagur kaupstaðarins taldist undirskriftardagur laganna sem var 9. apríl 1974. Þegar Seltjarnarnes fékk kaupstaðarréttindi voru íbúar tæplega 2500. Var nú einkum byggt í Strandahverfi, Neshverfi og á Melhúsatúni. Fyrsta meiriháttar framkvæmd Seltjarnarness sem bæjarfélags var að ljúka byggingu Valhúsaskóla. Hann var tekinn í notkun haustið 1975. Bæjarstjórnarkosningar fóru í fyrsta sinn fram á Seltjarnarnesi 26. maí 1974 og voru kosnir sjö fulltrúar. Nú búa um 4.700 manns á Seltjarnarnesi.
Heimild: Seltirningabók.