Velheppnuð hátíðarhöld

Afar fjölmenn skrúðganga gekk samstillt frá leikskólanum að Bakkagarði.

Það vantaði ekki þátttökuna, gleðina og gamanið á 17. júní á Seltjarnarnesi. Frábær mæting var í skrúðgönguna þar sem mann­fjöldinn marseraði undir fánahyllingu og lúðrablæstri. Bakkagarður iðaði af lífi og fjöri og allir sem fram komu vöktu mikla lukku.

Þjóðhátíðarstemning á Seltjarnarnesi

Það var svo sannarlega þjóðhátíðarstemning og nóg um að vera á 17. júní á Seltjarnarnesi þegar að þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga var fagnað með pompi og prakt. Fánar blöktu um allan bæ og fjöldi fólks nýtti sér gott boð um bátasiglingu frá smábátahöfninni á vegum björgunarsveitarinnar Ársæls og siglingafélagsins Sigurfara. Afar fjölmenn skrúðganga gekk samstillt í takt við trommuslátt og lúðrablástur lúðrasveitar tónlistarskólans, frá leikskólanum að Bakkagarði, með fánabera frá ungliðadeildinni Árnýju fremsta í flokki. Nokkur þúsund manns komu saman í Bakkagarði þar sem boðið var upp á mikinn ævintýraheim fyrir börnin með leiktækjum hvert sem litið var. Þau voru óspart nýtt allan tímann auk þess sem fjöldi barna skellti sér á hestbak. Kandífloss, 17. júní nammi, kaffi, vöfflur og grillaðar pylsur runnu út eins og heitar lummur enda líka þannig dagur.

Dagskráin á sviðinu var fjölbreytt og skemmtileg og gestir tóku vel undir

Jóhann Örn, betur þekktur sem Jói dans stýrði dagskránni á sviðinu og kom öllum í góðan gír strax í upphafi. Þórdís Sigurðardóttir formaður menningarnefndar Seltjarnarness flutti hátíðarávarp og Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona var fjallkonan 2023. Með glæsibrag frumflutti hún nýtt ljóð eftir Auði Jónsdóttur, Sólin úti á Nesi, sem samið var sérstaklega af þessu tilefni. Íþróttaálfurinn og Solla stirða úr Latabæ voru hoppandi hress á sviðinu og fengu stóra sem smáa með sér að hreyfa sig. Júlí Heiðar og Kristmundur Axel sungu nokkur af sínum vinsælustu lögum en þeir hafa verið í ofarlega á vinsældarlistum þjóðarinnar undanfarnar vikur. Sylvía Erla og Árni Beinteinn tóku svo við keflinu og sungu og dönsuðu með börnum lög sem allir þekkja og tóku börnin vel undir með þeim. Hljómsveitin Karma Brigade sem á svo sannarlega framtíðina fyrir sér, sló svo botninn í hátíðardagskránna og flutti nokkur frumsamin lög sveitarinnar. Smátt og smátt tíndist fólk úr Bakkagarði og átti vonandi áframhaldandi ljúfan þjóðhátíðardag eftir góða fjölskylduskemmtun á Seltjarnarnesinu. 

Þórdís Sigurðardóttir formaður menningarnefndar Seltjarnarness, Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona og Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri.
Gleði í Bakkagarði.
Bátasigling.

You may also like...