Vilja aðstöðu fyrir sjúkra- og slökkvilið nær Nesinu
Seltirningar hafa áhyggjur af þeim tíma sem viðbragðsaðilar þurfa til þess að koma á staðinn þegar vá ber að Seltjarnarnesi. Þetta á einkum við um slökkvilið og sjúkralið en einnig lögreglu. Viðbragðstími er miðaður við tíu mínútur í brunavarnaráætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Seltirningar vilja að aðstöðu fyrir slökkvi- og sjúkralið verði komið upp nær Seltjarnarnesi en nú er og nefna háskólasvæðið eða Grandann í því efni. Það myndi auka öryggi íbúa á svæðinu. Þeir telja einnig að ástandið muni versna þegar framkvæmdir við nýtt byggingasvæði í Skerjafirði hefjast og þangað flytjast þeir 3.600 nýju íbúar sem gert er ráð fyrir að taki sér bólfestu í nýrri byggð í Skerjafirði. Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri telur að ljósastýrð gatnamót Hringbrautar og Ánanausta geti tafið viðbragðsmöguleikana. Borgarskipulag og Vegagerðin hafa lagt til ljósastýrð T-gatnamót í stað hringtorgsins við JL-húsið bestu lausnina fyrir umferðarflæði þar. Seltirningar eru ekki sáttir við þá hugmynd og bendir Þór á að af slíku fyrirkomulagi skapist umferðatafir.