Minnkum áhrif umferðar á lífsgæðin

Sverrir Bollason.

Í Umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar var á dögunum samþykkt stefnumörkun um hraða umferðar vestan til í borginni. Ástæður þess að skoða þurfi þennan mikla áhrifavald á lífsgæði í nánu sambýli íbúa og umferðar ættu að vera íbúum Vesturbæjarins vel kunnar. Umræðan um jafnvægið milli aðgengis, þæginda, ónæðis og áhættu er gegnumgangandi stef í allri umfjöllun um skipulagsmál í hverfinu.

Þótt umræðan hafi stundum tekið hjáleiðir til dæmis þegar hönnun og skreytingar á Hofsvallagötunni voru sem mest ræddar var grundvallarkrafa íbúa engu að síður mjög skýr: Fólk taldi að hröð bílaumferð ætti ekki að njóta forgangs fram yfir öryggi og þægindi þeirra sem ganga um og yfir þessa lífæð hverfisins. Umræðan um Hringbraut sem klýfur hverfið í tvennt er alltaf mikil en fáir hafa þorað að snerta á henni.

Bætt hönnun og lækkaður hraði

Hvar sem drepið er niður í umræðunni er ljóst að það eru átök milli tveggja sjónarmiða varðandi bílaumferðina. Það eru annars vegar sjónarmið þægindanna að geta lagt hvar sem er og ekið hratt milli staða. Hins vegar þess að umferðin taki ekki öll völd í umhverfinu með loft- og hljóðmengun, slysahættu og óöryggistilfinningu við að ferðast um hverfið okkar. Þetta er skýrt í öllum athugasemdum um skipulag, ábendingum um það sem betur mætti fara og umræðum á íbúafundum. Með þeirri vinnu sem gerð var í starfshóp Umhverfis- og skipulagsráðs kom skýrt fram að það er töluvert að sækja með því að lækka hraðann. Hermun á umferðinni á Miklubraut bendir ótvírætt til minnkunar á loft- og hljóðmengun með lækkuðum hraða. Fordæmi frá öðrum löndum benda einnig til þess að öryggi sé aukið við það að dregið sé úr hraða. Með breytingu á hönnun má gera lækkun umferðarhraða skýrari og auka við bætta öryggistilfinningu.

Lausnin er minni umferð

Það eru að verða vatnaskil í umræðunni um umferð bæði hér á landi og ekki síst víðar um heiminn. Víða er verið að draga úr áhrifum bílaumferðarinnar með því að leyfa henni ekki einni að stýra heldur líta á breiðari hagsmuni byggðar og íbúa. Eftir að hafa reynt að fjárfesta í stærri og fleiri vegum um áratugaskeið án árangurs hefur hið gagnstæða verið reynt, að minnka vegi og fækka þeim. Áhrifin koma á óvart, en ættu kannski ekki að gera það. Í borgum víða um heim hefur götum verið lokað með þeim áhrifum að umferðin virðist gufa upp. Það er flókið og að sumu leyti ekki fullrannsakað fyrirbæri en ástæðuna er að finna í því að umferð er umfram allt mannleg hegðun en ekki gangverk í vélasamstæðu. Fólk finnur sér aðrar leiðir, annan tíma til að ferðast á og aðra samgöngumáta sem henta betur nýjum aðstæðum.

Minnka áhrifin af þeirri umferð sem er til staðar

Það er því verið að takast á við ákveðna tálsýn um að hægt sé að ná fram bestu mögulegu aðstæðum fyrir einkabíla og alla aðra samgöngumáta í takmörkuðu rými. Þar sem aðstæður eru líkt og þær eru í elsta hluta borgarinnar eru allir samgöngumátar í sama almenningsrými verður plássi ekki úthlutað til eins nema að taka af öðrum, allt er nýtt með einum eða öðrum hætti. Bílaumferðin hefur aukist hraðar en íbúafjöldinn síðustu áratugina og er það ekki að furða, það eru innviðirnir sem fjárfest hefur verið í. Það eru hins vegar engar fjárfestingar sem losa okkur við neikvæðu áhrifin af bílaumferð. Það eina sem hægt er að gera er að minnka áhrifin af þeirri umferð sem er til staðar og sjá til þess að hún vaxi ekki meira en orðið er.

Eftir Sverri Bollason formann hverfisráðs Vesturbæjar

You may also like...