Fjögur ár í Gerðubergi

– viðtal við Evelyn Rodriguez veitingamann í Gerðubergi –

Evelyn Rodriguez hefur rekið kaffihús og veitingastað í Gerðubergi í nær fjögur ár.

“Ég verð búin að reka kaffihúsið í Gerðubergi í fjögur ár um áramótin,” segir Evelyn Rodriguez. Ég opnaði Cocina Rodriguez 2. janúar 2017. Vinkona mín benti mér á að verið væri að leita eftir fólki til þess að taka við þessum rekstri. Ég spurðist fyrir og var boðuð á fund. Ég var búin að hugsa þetta aðeins. Hugsa um hvernig ég vildi gera þetta. Við ræddu málin. Ég sagði já og hef verið hér síðan.”

Þegar Evelyn opnaði kaffihúsið höfðu orðið miklar breytingar í Gerðubergi. Kaffihúsið hafði verið fært til. Opnað inn í bókasafnið og allt pláss aukið. Gert var ráð fyrir að fólk gæti nýtt safnið og gætt sér á veitingum í leiðinni. Aðstaða til fundarhalda hafði einnig verið bætt og allt umhverfi var orðið opnara og aðgengilegra. Kaffihúsið í Gerðubergi hafði um árabil boðið upp á máltíðir fyrir heldri borgara sem gestir félagsstarfsins í Gerðubergi og einnig íbúar í byggingum austan menningarhússins. Þegar Evelyn tók að sér rekstur kaffihússins útbjó hún nýjan matseðil nokkuð ólíkan því sem daglegir gestir höfðu átt að venjast. Hún raðaði saman hugmyndum úr hefðbundinni matarmenningu á Íslandi einnig frá sínum fyrri heimkynnum. Hún lagði einnig aukna áherslu á grænmeti við matargerð. Svo bar við að fljótlega nutu réttir hennar frábærra vinsælda. Fastir gestir endurnýjuðu komur sína og nýir bættust í hópinn. En hvaða kemur þessi kraftmikla kona sem hefur drifið veitingarekstur í Gerðubergi upp eftir að hann hafði ekki notið sín nægilega vel.

Frá Dómíníska lýðveldinu

“Ég er frá Dómíníska lýð­veldinu sem er land á eystri hluta eyjunnar Hispaníólu einni af eyjunum í Karíbahafi með landamæri að Haítí í vestri. Ég kom hingað þegar ég var 21 árs. Kom fyrst til Akureyrar. Ég á frænku sem býr þar. Ég kynntist vini mannsins hennar og við giftumst. Ég bjó á Akureyri til ársins 2004. Þá var hjónabandið búið og ég fluttist til Reykjavíkur.” Evelyn er lærður blómaskreytingamaður en fór að starfa við ólíkan iðnað á Akureyri. Það er matvælaiðnað. “Ég var að leita mér að vinnu og fékk starf hjá Kjarnafæði. Þetta var allt nýtt fyrir mér. Ég hafði aldrei unnið við matvælaiðnað sem er mjög ólíkt blómaskreytingunum og allt annað umhverfi. Miklu harðari vinna. Þetta voru mikið viðbrigði. Ég fór líka í Verkmenntaskólann á Akureyri til þess að læra íslensku. Ég vissi að ég yrði að læra íslensku ef ég ætlaði að vera hér áfram.” Evelyn segist nota íslensku dags daglega en tala spænsku heima við börnin og oft líka í vinnunni ef hún er með spænskumælandi fólk með sér. “En ég held mig líka ákveðið við íslenskuna. Ég hef orðið vör við að þegar fólk sér að ég er útlend þá vill það fara að tala ensku. Ég forðast það. Við tölum bara íslensku við Íslendinga. Segi stundum að ég tali ekki ensku.” Evelyn segir skemmtilega sögu að viðskiptum sínum við VÍS. “Ég hafði sent þeim fyrirspurn í tölvupósti. Skrifaði hana á íslensku. Ég beygi ef til vill ekki alveg rétt þótt ég reyni. Og svo er það spænskættaða nafnið mitt. Ég fékk svar á ensku. Sú sem svaraði mér talar eflaust ekki spænsku en hefur haldið að enska hentaði mér betur en íslenskan. En samt undarlegt að fá svar á öðru tungumáli en ég skrifað. Ég svaraði til baka á íslensku og sagði að þannig vildi ég hafa það.”

Var alltaf vel tekið 

Evelyn bjó í 12 ár í Vestur­berginu en býr nú í Safamýri. “Ég festi kaup á 76 fermetra íbúð í Vesturberginu 2005. Ég var yngsta manneskjan í sjö hæða stigagangi alla vega til að byrja með. Ég var þó aldrei vör við annað en að mér væri tekið vel. Ég var með yngstu systur mína hjá mér og átti orðið tvö börn. Því var orðið þröngt um okkur. Ég ákvað því að selja íbúðina og fann íbúð í Safamýri, Hún er á fyrstu hæð sem er betra fyrir krakkana. Við erum beint á móti skólanum þeirra. Ég fékk systur mína hingað fyrir sex árum. Hún býr núna fyrir norðan. Á Hrafnagili við Akureyri. Hún stefnir að því að læra matreiðslu.”

Evelyn með ömmu sinni heima í Dóminóska lýðveldinu. Amma hennar er að verða 105 ára og var myndin tekin þegar haldið var upp á 104 ára afmæli hennar.

Amma að verða 105 ára 

Fjölskyldan í Dóminínska lýðveldinu. Ertu í góðu sambandi við hana. “Já – ég legg mikið upp úr því. Hef reynt að fara þangað á hverju ári. “Fjölskylda mömmu flutti reyndar til Bandaríkjanna þegar ég var ung. Ég á systkyni í New York og Boston. Ég á líka skyldfólk á Spáni. Í Madrid og Barcelona. Það hentar mér vel að eiga skyldfólk í Bandaríkjunum. Ekki er um beint flug að ræða héðan til Dóminíska lýðveldisins. Ég þarf að millilenda og þá nota ég tækifærið að hitta ættingja mína þar.” Móðir Evelyn dó þegar hún var 12 ára. Varð fyrir voðaskoti. “Faðir minn er hins vegar á lífi og amma er að verða 105 ára. Verður það í febrúar. Ótrúlega hress þrátt fyrir þennan háa aldur.” Evelyn tekur farsímann upp og sýnir tíðindamanni upptöku af ömmu sinni þar sem hún er að dansa. “Er þetta ekki ótrúlegt,” segir hún. Evelyn á tvö börn. Tíu ára dreng og sjö ára stúlku. Þau eru af dómeníksum uppruna eins og mamman. “Ég er einstæð móðir í dag en á vin í Dóminíska lýðveldinu. Það er nokkuð langt á milli en ég geri ráð fyrir að hitta hann í sumar ef losnar um ferðatakmarkanir og ég kemst út. Hann er byggingarverkfræðingur og starfað þar ytra. Hlakka til að hitta hann. Hann hefur íhugað að flytja hingað því ég er ekki tilbúin að fara aftur út til að setjast þar að. Ég er ef til vill ekki auðveldasta manneskja í sambúð. Bæði með fyrirtæki og tvö börn. Ef ég fer í sambúð verður sambýlingurinn að taka þátt í lífinu með mér – heimilishaldi sem öðru. Við verðum bara að bíða og sjá hvað verður. Hvort draga mun úr covid faraldrinum. Í dag er allt hálf stopp út af honum.”

Stöðugt sumar, fellibyljatími og misskipting

Evelyn segir að samfélagið í heimalandi hennar sé allt annað en hér á landi. “Veðráttan er með öðrum brag. Það er sumar allt árið. Fellibyljatíminn gengur yfir á haustin. Hann getur verið erfiður. Miklar rigningar og stormar á milli. En það er líka allt önnur stemming í samfélaginu. Fólk er mikið úti. Hittist og spjallar saman. Fólk situr mikið úti fyrir utan heimili sín. Heilsar og spjallar jafnvel við þá sem labba fram hjá. Það er líka mikil fátækt víða. Atvinnuleysið er mikið. En samfélagið er skipt. Sumir eru efnaðir. Jafnvel ríkir og búa í allt að 500 fermetra húsum.”    

Fór að undirbúa veislur

Svo dastu inn í veitingageirann? “Já – það má segja það. Ég byrjaði að þjóna á Hótel Loftleiðum þegar ég kom að norðan 2005. Ég var ekkert við eldamennskuna þar en hafði engu að síður áhuga á mat og gaman af því að elda. Á meðan ég var að vinna hjá Kjarnafæði fór ég að undirbúa veislur og einnig að matbúa og selja tilbúinn mat. Heiman að frá mér. Ég hélt þessu áfram. Fólk var líka að koma heim og borða hjá mér. Þannig byrjaði þetta og ég sá tækifæri fyrir mig í veitinga- og kaffihúsi í Gerðubergi. Ég ætla mér að vera áfram. Fólk hefur tekið mér vel og því sem ég er að gera. Fólkið kann vel við matinn og þjónustuna.”

Frá markaði. Matarmenning er önnur en hér. Evelyn hefur sameinaði matarmenningu tveggja ólíkra landa í Gerðubergi.

Fólkið fljótt að aðlagast nýjum matseðli

En hvernig var að fá fólk til þess að venjast nýrri matargerð. Fólk sem ef til vill var vant hefðbundnum íslensku mat sem er öðru vísi en matargerð frá Dóminíska lýðveldinu. “Ég byrjaði á að setjast niður og þróa matseðil. Ég var strax ákveðin í að blanda saman matargerð að heiman og þeirri sem ég hafði lært hér á landi. Þannig fengi ég meiri fjölbreytni og að auðveldara yrði að fá fólk til þess að prufa og reyna eitthvað sem það hafði ef til vill ekki gert áður. Ég ákvað líka að vera ekki með sama matinn dag eftir dag. Fólk þarf stundum að bíða í þrjár vikur til þess að fá það sama aftur. Ég reyni að hafa fjölbreytnina sem mesta. Ég er yfirleitt með fiskrétti tvisvar í viku og kjöt þrisvar og síðan bröns á laugardögum. Ég hef líka lagt áherslu á frá upphafi að hafa grænmeti með matnum. Það er hluti af honum.” Evelyn segir að sumir hafi verið hræddir við að bragða fyrstu dagana og jafnvel fyrstu tvær vikurnar. Ég fór að ræða við fólkið og segja því frá matargerð í Dóminíska lýðveldinu og hvernig ég reyndi að blanda þessu saman. Þá fór þetta að fara vel í gang. Fólk fékk áhuga á að smakka og flestum líkaði vel. Það var ákveðin íhaldssemi að vilja ekki prufa eitthvað nýtt.”  

Býð fólki að taka með sér heim

Cosina Rodriguez er dagkaffihús. Kvöldverður er ekki í boði. Sumt fólk borðar ekki í hádeginu. Er ekki eftirspurn eftir kvöldverði. “Já – hún er fyrir hendi. Ég býð fólki upp á að taka mat með sér heim. Það getur tekið mat með sér og haft í kvöldmatinn. Það er bara að hringja og panta. Fólk getur pantað til dæmis fyrir þrjá eða fjóra. Það er talsvert um þetta.” Það er föstudagssíðdegi og fáferðugt í Gerðubergi. Bókasafnið er lokað nema bækur eru lánaðar innpakkaðar á borð fyrir framan. Grímuklætt fólk kemur að sækja þær og skila í sérstakan skilakassa. Covid er allsstaðar. Evelyn er ein að vinna á kaffihúsinu meðan á þessu stendur. Það koma kannski tíu til tólf manns í mat í hádeginu. Venjulega er ys og þys á þeim tíma. “En þetta á vonandi eftir að breytast aftur,” segir hún um leið og hún minnir á kaffihúsið og fjölbreytta aðstöðu fyrir framan bókasafnið í Gerðubergi.

Dýralífið er fjölbreytt og ólíkt því sem er hér á landi.

You may also like...