Verið að endurgera Tryggvagötu

Séð yfir Hafnarstræti og Tryggvagötu. Búið er að endurgera Hafnarstræti en nú standa framkvæmdir við endurgerð Tryggvagötu frá Pósthússtræti að Lækjargötu. Miklar breytingar eru að verða á Tryggvagötu bæði vegna nýbygginga, gatnagerðar og umferðartenginga.

Framkvæmdir standa nú yfir við endurgerð Tryggvagötu frá Pósthússtræti að Lækjartorgi. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í byrjun október og er bílaumferð beint um Geirsgötu á meðan. Þá eru einnig að hefjast framkvæmdir við Steinbryggju sem er sá kafli Pósthússtrætis sem er á milli Tryggvagötu og Geirsgötu. Sú gata hefur verið lokuð bílaumferð vegna framkvæmda á aðliggjandi byggingarreit. Einnig er að hefjast vinna við frágang nýrra göngugatna á byggingarreitnum sem fengið hafa heitin Kolagata og Tónagata. Bæjartorg, þar sem Bæjarins bestu hafa verið með söluskýli, verður einnig endurgert samtímis og fá Bæjarins bestu framtíðarstað á Bæjartorgi að framkvæmdum loknum.

Einnig er unnið að lokafrágangi á Kalkofnsvegi og Geirsgötu. Kalkofnsvegur verður tekinn í notkun í áföngum og nú hefur umferð verið hleypt á nýjan kafla, vestari akrein, frá Sæbraut að Geirsgötu. Þá hafa einnig verið virkjuð ný umferðarljós á gatnamótum Geirsgötu og Kalkofnsvegar. Framkvæmdirnar munu óneitanlega hafa áhrif á mannlífið í miðborginni og verða gerðar sérstakar ráðstafanir til að beina gangandi vegfarendum um öruggar gönguleiðir. Skilti hafa verið verða sett upp á nokkrum stöðum til að vísa veginn og verða þau einnig á ensku vegna þess mikla fjölda ferðamanna sem er á þessum slóðum.

You may also like...