Síðasti sauðfjárbóndinn í Breiðholti

— Ólafur R. Dýrmundsson spjallar um nýútkomna bók sína um sauðfjárrækt í borginni og tengsl hennar við Breiðholt —

Ólafur R. Dýrmundsson við fjárdrátt í rétt að hausti til.

Út er komin hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi bókin Sauðfjárbúskapur í Reykjavík. Höfundur hennar er Ólafur R. Dýrmundsson. Ólafur er búvísindamaður. Doktor á sviði sauðfjárræktar frá Aberystwyth Háskóla í Wales 1972. Hann starfaði við kennslu, stjórnsýslu, rannsóknir og leiðbeiningar, fyrst á Hvanneyri en lengst á vegum Búnaðarfélags Íslands og síðar Bændasamtakanna. Hann sinnir enn faglegum verkefnum í þágu lífræns landbúnaðar og fæðuöryggis og stundar borgarbúskap sér til yndis og ánægju. Ólafur býr í Jóruselinu efst í Seljahverfi í Breiðholti. Hann hefur aðstöðu fyrir kindur í húsi á lóðinni við Jóruselið en þar hafði við skipulag hverfisins verið gert ráð fyrir aðstöðu til búskapar. Í bók Ólafs er að finna margvíslegar upplýsingar og sögulegar heimildir um sauðfjarbúskap í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu þar sem sauðfjárrækt var stunduð af krafti um langt árabil.

Í texta á kápu bókarinnar má lesa eftirfarandi. „Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum sem hefur fjárhúsahverfi og er með aðild að bæði afrétti og lögskilarétt. Í þessari myndríku bók er fróðlegu yfirliti um þróun sauðfjárbúskapar í Reykjavík síðan um miðja 19. öld fléttað saman við sögu Fjáreigendafélags Reykjavíkur. Á meðal efnisþátta eru sauðfjárstríðið 1962 frá 1970, Hvassa­hraunseignin, útrýming riðuveiki, báðar Fjárborgirnar og göngur og réttir.  Höfundur hefur sjálfur verið fjáreigandi í Reykjavík og um skeið í Kópavogi síðan 1957.

Um fimm þúsund kindur

Ólafur segir í samtali við Breiðholts­­blaðið að bæði fjár- og kúabú­skapur hafi verið stundaður á Breið­holtsbýlinu fram um 1960. Síðan 1994 hafi verið eitt fjárbú Reykjavík í Seljahverfi og það eina vestan Elliðaáa. Afréttur eða sumarhagar hafi verið afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna og lögskilaréttin Fossvallarétt í Lækjarbotnalandi. Í þremur sveitar­félögum á höfuðborgarsvæðinu voru um fimm þúsund vetrarfóðraðar kindur um 1960 og fjáreigendur á þriðja hundrað

Fjárborg við Breiðholtsveg

Sauðfjárbúskapur kemur meira við sögu Breiðholtsins. Ólafur segir að Fjárborg hafi staðið við Breið­holtsveg á árunum 1959 til 1968. „Hún var byggð eftir að stjórn Fjár­eigenda­félags Reykjavíkur hafði leitað til borgaryfirvalda um aðstöðu fyrir fjáreigendur. Bæjarráð hafði lagt til fjárhúsabyggð við Rauð­hóla sem Fjáreigendafélagið hafnaði þar sem hún var talin úrleiðis.“ Ólafur segir að þátta­­skil hafi orðið á aðalfundi Fjáreigenda­félags Reykjavíkur 12. júní 1959 þegar samþykkt var tilboð Bæjarstjórnar Reykjavíkur um leigu á fimm hektara mýrarspildu til fimm ára undir fjárhús félagsmanna sem voru í vandræðum. Einnig hafi verið samþykkt að stjórn félagsins gengi frá samningi um landið. „Þannig varð til Fjárborg ofan við Blesugróf í Reykjavík og Meltungu í Kópavogi, nánar tiltekið í horninu á milli Reykjanes­brautar og Smiðjuvegar í Kópavogi þar sem löngu síðar var byggt stórhýsi lagnafyrirtækisins Tengis.“

Fjárlausir hestamenn ekki velkomnir

Ólafur segir að búskapurinn í Fjárborg hafi vakti verulega athygli. Bæjarbúar hafi heimsótt Fjár­borg sérstaklega á vorin þegar foreldrar komu með börn sín til að sjá nýlega fædd lömb. Hann segir að hjarðirnar í Fjárborg hafi verið mis­stórar. Flestar á bilinu 30 til 50 vetrar­fóðraðar kindur og allt upp í 100 kindur. Hross hafi aðeins verið í fáeinum húsum og nær eingöngu smalahestar. Þess hafi verið gætt að fjárlausir hestamenn fengju ekki lóðir eða eignuðust hús í Fjárborg við Breiðholtsveg enda hafði Hestamannafélagið Fákur tryggt þeim góða aðstöðu annars staðar.

Hafliði garðyrkjustjóri og Skúli lögregluvarðstjóri

Í bók sinn rekur Ólafur átök fjáreigenda við borgaryfirvöld í Reykjavík þegar þau vildu banna allt búfjárhald í borginni. Uppnám hafi orðið meðal reykvískra fjáreigenda þegar tveir áhrifamiklir starfsmenn borgarinnar, þeir Hafliði Jónsson garðyrkjustjóri og Skúli Sveinsson lögregluvarðstjóri hafi lagt fram skýrslu um sauðfjárhald í Reykjavík 12. nóvember 1962. Í þeirri skýrslu hafi sauðfjárhald verið gagnrýnt á ýmsan hátt en jafnframt lagðar fram tillögur til úrbóta. Stjórn Fjáreigendafélags Reykjavíkur hafi strax kvartað undan skýrslunni við Borgarstjórn Reykjavíkur. Sagt hana mjög villandi og ranga í flestum efnisatriðum en óskaði þess jafnframt að eiga gott samstarf við borgarstjórnina um sauðfjárhaldið. „Stjórn Fjáreigendafélagsins gagnrýndi stjórnskipulag og framkvæmd vörslu borgarlandsins sem Skúli hafði yfirumsjón með og kvaðst Fjáreigendafélagið reiðubúið til að semja við borgina um að taka að sér vörslu, forðagæslu og böðun fjár í Reykjavík. Fjáreigendafélagið tók við umsjón með bæði Breiðholtsgirðingunni sem lág umhverfis Breiðholt og Breiðholtsréttinni árið 1962 af vörslumanni borgarlandsins.“ Ólafur segir að þrátt fyrir þetta hafi greinilega verið uppi önnur áform innan borgarinnar og mjög andstæð hagsmunum fjáreigenda og reyndar borgarbúa líka í flestu tilliti.

Stríðssaga fjáreigenda við Reykjavíkurborg

Ólafur rekur þessa stríðssögu fjáreigenda við borgaryfirvöld og segir að harðlínustefnu hafi gætt gagnvart þeim. „Sauðfjárstríðið stóð óslitið um nær átta ára skeið eða til 1970 með hámarki 1968 þegar farið var að rífa húsin í Fjárborg við Breiðholtsveg og aðgerðarinnar í röðum fjáreigenda létu að sér kveða. Niðurrifi Fjárborgar lauk á árinu 1969. Borgarráð Reykjavíkur sá fyrir því, með stuðningi Sambands íslenskra sveitarfélaga að alþingismennirnir Auður Auðuns, sem einnig var forseti borgarstjórnar og Alfreð Gíslason, einnig borgarfulltrúi sem hafði lagt fram tillögu haustið 1962 og síðar frumvarp á Alþingi snemma árs 1964 sem fól í sér heimild til að banna búfjárhald og þar með sauðfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum. Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi eftir miklar umræður 23. maí 1964.“

Snemma beygðist krókurinn. Hér er Ólafur í fjárhúsi sínu í Fjárborg við Breiðholtsveg í lok febrúar 1964 þá aðeins 17 ára að aldri.

Reglugerð um búfjárhald 1964

Reykjavíkurborg var búin að fá staðfesta reglugerð um búfjárhald 9. júlí 1964. Aðeins sex vikum eftir samþykkt laganna á Alþingi var búfjáreigendum í borginni gefinn kostur á að sækja um leyfi til búfjárhalds og það gerðu rúmlega hundrað sauðfjáreigendur í Reykjavík. Heildartalan var um 3.400 kindur. Þeir sem sóttu um fyrir flest fé voru allir á lögbýlum, Þorgeir Jónsson bóndi í Gufunesi, sem var fjárflestur í Reykjavík á þessum árum og einnig með fjölda hrossa.

Fjölskyldan hefur staðið með mér í þessu

Ólafur kveðst hafa unnið að þessu verki um lengri tíma og þá einkum heimildaöflun sem verið hafi all nokkur. Sér þó efst í huga þakklæti til fjölskyldu sinnar fyrir margvíslega aðstoð við fjárbúskapinn um áratuga skeið. Sérstaklega eiginkonu sinnar, Svanfríðar Sigurlaugar Óskarsdóttur sem og einnig dóttir okkar, Sigurrósar Svövu myndlistarmanns sem veitti ágæta aðstoð við vinnslu myndefnisins. Morgunstund með kaffi og pönnukökum í Jóruselinu var fljót að líða enda umræðuefni ærið. Hér er þó aðeins hægt að stikla á stóru og drepa á nokkur atriði einkum þau er snerta Breiðholt fyrr og síðar.

You may also like...