Hvar er áhyggjulausa ævikvöldið?

Teikning sem sýnir húsnæði fyrir eldri borgara sem er í byggingu í Breiðholti. Um 450 umsóknir bárust um 68 íbúðir.

Ellert Schram, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík.

Ellert B Schram, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni segir að margt þurfi að laga. Breyta þarf því kerfi sem nú er til staðar. Þar á hann við allt of lágar lífeyrisbætur, tekjutengingar einstaklinga vegna hjónabands, skerðingar vegna lífeyristekna, lá frítekjumörk og skatta sem teknir eru af bótum sem eru langt undir framfærslumörkum. 

Hann segir að yfir 30% ellilífeyrisþega hafi heildartekjur fyrir skatt, sem eru undir skilgreindum framfærslu- og fátæktarmörkum. Einnig séu húsnæðismál eldri borgara í ólestri, einkum í höfuðborginni. “Félag eldri borgara er um þessar mundir að reisa blokkaríbúðir í Árskógum í Breiðholtinu, samtals 68 íbúðir. Umsækjendur eru fjögur hundruð og fimmtíu. Það segir sína sögu um ástandið. Félag eldri borgara vinnur að því að fá fleiri lóðir og mæta þessari eftirsókn. Við höfum gott samstarf við borgarstjóra og hans fólk, en alltaf tekur þetta langan tíma og tefur fyrir úrlausnum.”

Lakari kjör eftirlaunafólks

Þegar talið færist yfir á kerfið og stöðuna um ástandið og fyrirgreiðslu til handa eldri borgurum bendir Ellert á að núverandi ríkisstjórn hafi fallist á tillögu frá Félagi eldri borgara að skipa starfshóp til að endurskoða lífeyris- og tryggingarkerfið. Sá hópur er enn að störfum. “Áhersla mín,” segir Ellert, “beinist að þeim sem verst standa og hafa minnst á milli handanna. Það blasir við að stuðningur við aldraða hefur dregist aftur úr öllum framfærsluviðmiðum. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að lífeyrisbætur hækki um þrjú og hálft prósent. Þrjú og hálft prósent. Öllum á að vera ljóst að stuðningur við aldraða hefur dregist aftur úr. Meginþorri eftirlaunafólks á Íslandi býr við mun lakari kjör en aðrir samfélagshópar og stenst engan samanburð við þau kjör sem nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum búa við. Það er ennþá von mín að starfshópur ráðuneytis og eldri borgara nái árangri og jákvæðri niðurstöðu. Þó ekki væri annað en að koma til móts við þá sem verst standa. Á þessum vettvangi erum við að reyna að benda á lagfæringar, aftur og aftur, en svörin og undirtektirnar hafa hingað til verið tregar og máttlausar. Undir þessum kringumstæðum líður mér stundum eins og sökin og siladrátturinn sé okkur að kenna, en því miður ráðum við ekki ferðinni.”

Endurskoða þarf lög um fasteignaskatt

Annað sem Ellert bendir á er álagning og innheimta fasteignaskatts. “Hann er reiknaður eftir markaðsverði íbúða á hverjum tíma og þegar íbúðarverð hækkar á markaðnum, eins og hefur verið að gerast að undanförnu, þá hækka fasteignaskattarnir í takt við þá hækkun. Það er sem sagt alltaf dýrara og dýrara að búa í sínu heimili. Við hjá Félagi eldri borgara teljum að endurskoða þurfi þetta kerfi. Við viljum og styðjum þá stefnu að fólk geti verið sem lengst heima í sínu húsi. Jafnvel löngu eftir að það hverfur af vinnumarkaðnum vegna aldurs. Launin hverfa og tekjurnar minnka, en gjöldin fyrir að vera heima hjá sér hækka og hækka. Þessa þróun verður að skoða og leysa.”

Þetta eru útbrunnin lög

Talið berst að starfslokum eldra fólks. Ellert telur að lengja eigi um þann tíma sem eldri borgarar geti haldið áfram á vinnumarkaðnum. “Eldri kynslóðin er að stækka og fjölga og starfskrafturinn er meiri en áður þekktist, vegna lengri ævi og betra heilsufari. Það á að afnema þau lög að þeir sem vinna hjá hinu opinbera, þurfa að leggja niður störf og hætta sínum verkum, vegna þess eins að þau eldast. Þetta eru útbrunninn lög. Fólk á sjálft að ráða því hvenær það sest í hægindastólinn. 

Já, þau eru mörg viðfangsefnin þegar við ræðum um eldri borgara. Lífsgæðin eru fólgin í því að njóta eins lengi og mögulegt, störfum, fjárhag og áhyggjulausu ævikvöldi. Hvar er áhyggjulausa ævikvöldið?”

You may also like...