Ég taldi mig sjá þörfina

— segir Hjálmar W. Hannesson fyrrum sendiherra og einn af stofnendum Framfarafélags Breiðholts 3 —

Hjálmar W. Hannesson fyrrum sendiherra og einn af frumkvöðlum félagsmála í Efra Breiðholti.

Hjálmar W. Hannesson fyrrum sendiherra spjallar við Breiðholtblaðið að þessu sinni. Hjálmar flutti í Vesturberg á árdögum Efra Breiðholts og fylgdist vel með þeirri öru uppbyggingu sem átti sér stað. Hann tók líka mikinn þátt í félagsmálum í Breiðholti. Einkum í því efra og segir að íbúarnir hafi þurft að láta til sín taka og hendur standa fram úr ermum þegar kom að félagslegu þáttum mannlífsins í nýrri byggð. Hann segir byggingu Breiðholtsins hafi gengið hratt fyrir sig. Nánast hafi verið um kraftverk að ræða og því hafi ekki verið óeðlileg að fylgja hafi þurft ýmsum málum eftir af fullum þunga. Félög sem Hjálmar kom að voru meðal annars Framfarafélag Breiðholts 3 og íþróttafélagið Leiknir auk annarra mála sem hann kom að eða annaðist um.

Hjálmar rifjar fyrst upp stofnun Framfarafélags Breiðholts 3 sem var stofnað í Fáksheimilinu 17. mars 1973. Hann segir að­dragandann að stofnun þess hafa falist í því að íbúum hafi verið ljós máttur samtaka þegar kæmi að því að berjast fyrir betra lífi. Á þessum tíma hafi Efra Breiðholt verið orðið barnflesta íbúðahverfi í Reykjavík. Margir íbúar hafi haft aðfinnslur um eitt og annað og undirskriftalistar hafi gengið. Undirbúningsnefnd hafi verið komið á fót sem starfaði mánuðina á undan og lagði drög að stofnunni. Fyrsti formaður sambærilegs félags í Árbæjar­hverfi Sigurjón Ari Sigurjónsson flutti erindi á stofnfundi Fram­farafélagsins en þangað voru ýmsar hugmyndir sóttar. „Sigurjón rakti gildi framfarafélagsskapar í nýjum hverfum í erindi sínu. Að hafa ópólitískan millilið væri bæði búum og borgaryfirvöldum til hagsbóta. Auk þess væri borgaryfirvöldum nauðsynlegt að fá aðhald frá íbúum í gegnum slík samtök. Hjálmar segir að með þessum drögum hafi verið lagt af stað og þau orði ásamt fleirum grunnur að lögum félagsins. Fyrsta stjórn Framfarafélags Breiðholts var skipuð Hjálmari W. Hannessyni stjórnmálafræðingi, þá menntaskólakennara og síðar sendiherra, sem var formaður. Með honum í stjórn voru Marinó Sigurpálsson, sem var vara­formaður, Ragnar Magnússon fyrsti formaður Leiknis var formaður verk­efnanefndar. Sigurður Bjarna­son var gjaldkeri, Margrét Jóns­dóttir var ritari, Bergþóra Sigurjóns­dóttir bréfritari og Snorri Bjarnason var meðstjórnandi.

Umhugað um félagsmálin

Hjálmar segir að félagsaðstaða í Breiðholti hafi ekki haldist í hendur við hina öru uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. „Okkur íbúunum var einkum umhugað um félagsmál barna og ungmenna í Efra Breiðholti sem höfðu í raun orðið út undan í þróunaráætlun borgarinn­ar. Fellaskóli var sprunginn sem þýddi margskipta skóladaga. Enginn aðstaða var fyrir fimleika eða íþrótta­líf vegna húsnæðisleysis. Við sáum fram á að ekki þyrfti að kosta miklu til að koma upp svokölluðum sparkvöllum en aðeins einn slíkur var í öllu hverfinu. Sömu sögu var að segja af gæsluvöllum. Þeir fundust ekki í Efra Breiðholti og byggingu barnaheimila var ábótavant þrátt fyrir að um mikinn barnafjölda væri að ræða. Eflaust má rekja þennan seinagang að einhverju leyti til þess hversu hverfið byggðist hratt og fólki fjölgaði stöðugt. Þá voru líka aðrir tímar og félagsleg hugsun og félagsleg uppbygging voru ef til vill ekki eins mikil og síðar varð. Samgöngumálin voru líka í ólestri. Bygging gatna- og samgöngu­kerfis héldust engan veginn í hendur við hina hraðvaxandi byggð og á vetrum gat verið erfitt að komast inn í hverfið ef snjóaði. Stofnfundur Framfarafélagsins skoraði á hina nýju stjórn að beita sér fyrir bættum samgöngum auk betri aðstöðu fyrir börn og ungmenni.“

Íbúarnir streymdu í hverfið

„Við fórum strax af stað,“ segir Hjálmar. „Við byrjuðum að vekja athygli á ýmsum félags­legum þáttum sem þurfti að koma af stað eða efla. Við vöktum athygli á vanda Fellaskóla vegna húsnæðis og ekki síður aðstöðu­leysi til tóm­stundaiðkana. Ég þekkti er­lendis frá að í svona fjöl­mennum byggðum væri lögð rík áhersla á að hafa hið félagslega umhverfi tilbúið um leið og fyrsti íbúarnir flyttu inn. Í Efra Breiðholti var þessu öfugt frið. Íbúarnir streymdu í hverfið en ekkert var hugað að hinum félagslega þætti. Þeir voru og hafa alltaf verið nauðsynlegir í nýjum byggðum til þess að fólk festi rætur þar en líti ekki á búsetu sína sem bráða­birgðalausn eða þrep í annað og ef til vill betra umhverfi.“ Hjálmar minnist þess að hann hafi komið í íbúðahverfi norður af Glasgow í Skotlandi um þetta leyti. Þar hafi verið byggt fyrir um 25 þúsund manns eða álíka stærð og fyrir­huguð var Breiðholtinu. Þar hafi meðal annars verið búið að byggja margháttaða félagsaðstöðu á borð við tómstundaheimili og kvikmyndahús áður en nokkur flutti í hverfið. Ég sá að við yrðum að taka mið af reynslu nágrannaþjóðanna þar sem reynt var að veita íbúum góða félagslega þjónustu í stað þess að láta reka á reiðanum sem gert var í Breiðholtinu og ekki síst í því efra þar sem þörfin var mest.“ Hjálmar segir að félagsmiðstöðin í kjallara Fellaskóla eða Fellahelli hafi mátt koma til starfa að minnst kosti tveimur árum fyrr en hún gerði en hún hafi breytt miklu.“

Vesturberg í Efra Breiðholti þar sem rætur Framfarafélagsins og Leiknis liggja.

Akstursleiðir ófullkomnar og umferðaröngþveiti

„Umferðarmálin voru líka fljótt til umfjöllunar hjá okkur og baráttu­mál Framfarafélagsins. Akstursleiðir í Breiðholti voru ófullkomnar og umferðaröngþveiti vildi myndast. Samkvæmt manntali sem Reykjavíkurborg lét fara fram í Breiðholti um miðjan mars 1974 kom fram að íbúar hverfisins væru að verða tæpir 8.600 að tölu en 618 íbúðir voru þá enn auðar eða óbyggð­ar. Þessi íbúafjöldi varð til þess að mjög ófullkomið gatnakerfi annaði alls ekki þeirri umferð sem þessu mannfjöldi skapaði. Allra síst á álagslínum á morgnana og um eftirmiðdaginn þegar fólk var á leið til og frá vinnu. Flestir unnu utan byggðarinnar og þurftu að fara á einkabílum til og frá vinnu. Á þessum tíma hafði lögreglubíll fengið fasta staðsetningu í hverfinu og við þrýstum á að skoðuð yrðu skilyrði fyrir þjónustu sjúkrabíla á sambærilegan hátt. Þá þristum við fast á byggingu Höfðabakkans sem ekki var kominn til sögunnar en hann tengir Breiðholtið beint við Árbæjarhverfi og Vesturlandsveg. Þessi þrýstingur var ekki síst komin til vegna þess að hugmyndin var að þjónustu slökkviliðs- og sjúkraflutnina fyrir Breiðholt yrði sinnt úr Árbæjarhverfi. En án Höfða­bakkans var engin bein umferðatenging á milli hverfanna. Viðbragðsfarartæki hefðu þurft að fara langa leið til að komast á útkallsstað með fyrirsjáanleg tjóni. Í Þjóðviljanum mátti sjá ítarlega fréttaskýringu á baksíðu sem kallaðist „Vanrækt börn í sívakandi borgarhverfi“. Stjórnar­andstaðan í borginni fann pólitíska lykt af þessu.“

Framfarafélagið, Leiknir og Fjallkonurnar

Ári síðar. Þann 17. júní 1975 flutti Hjálmar ávarp á þjóðhátíðarsamkomu við Fellaskóla. Hann minnti á þann sið frjálsra þjóða að halda einn slíkan hátíðisdag á ári. Hann rakti síðan nokkuð sögu deilna Benedikts Sveinssonar sýslumanns sem bjó um tíma að Elliðavatni og Thomsens kaupmanns um stíflugerð og veiðirétt í Elliða­ánum og minnti á að þetta gamla deilu­svæði væri orðið helsta úti­vistarland í Breiðholti. Hann sagði hollt að minnast fornra afreka til að örva síðari kynslóðir til dáða og að þjóð sem vilji ekki aðeins una við glæður liðinna ár þurfi einkum að leggja mikla alúð við menntun og uppeldi æskulýðsins sem brátt myndi leysa hina eldri af hólmi. „Mér fannst þar sem mér var fengið það verk­efni að flytja erindi þjóðhátíðardaginn nauðsynlegt að leggja áherslu á þennan þátt í lífsbaráttunni enda í fullu samræmi við það sem Framfarafélagið var að berjast fyrir. Síðan sagði Hjálmar. „Í Breiðholtshverfi hafa flust fleiri íbúar á skemmri tíma en í nokkurt annað þéttbýli á landinu. Því hafa nokkur félög með Framfarafélag Breiðholts 3 í fararbroddi reynt að skapa ýmsar góðar hefðir, sem eiga að stuðla að nauðsynlegri rótfestu íbúanna hér. Reynt hefur verið að spyrna við fótum við því sem erlendis hefur verið kallað svefnhverfa­einkenni. Framfarafélagið stofnaði á sínum tíma íþróttafélagið Leikni og kvenfélag sem nú nefnir sig Fjallkonurn­ar. Standa félögin þrjú fyrir þessari fyrstu útiskemmtun á þjóðhátíðardegi hér. Þetta er fyrsta úti­skemmtunin 17. júní í Breiðholti ef að líkum lætur og er það vel.“        

Margir viðburður hafa farið fram á Leiknissvæðinu á 50 árum. 

Byggingarsagan kraftaverk en félags­málunum ekki fylgt eftir

Hjálmar segir að bygging Breiðholtsins hafi raunar verið kraftaverk á sínum tíma. Ekkert byggðahverfi á Íslandi hafi risið á svo skömmum tíma. Breiðholtið var einnig mun fjölmennari byggð en áður hafi verið lagt í að skipu­­l­eggja. Með því hafi verið hægt að útrýma verstu fátækrahverfum borgarinnar. Herbröggunum og kassafjala­byggðum sem risið höfðu í húsnæðiseklu eftirstríðsáranna. Hvað sem því líður hafi þurft fylgja þessu eftir af fullum þunga. Einkum hvað félagslega þáttinn varðar. Margskonar fólk hafi komið í Breiðholtið. Sumt hafi sest að annað farið í burt. Flutt á aðra staði. Félagsleg vandamál hafi vissulega gert vart við sig. Við öðru hafi ekki verið að búast. En með baráttu Framfarafélagsins og annarra félaga hafi tekist að þoka þeim málum áfram. Fellahellir hafi verið ein fyrsta félagsmiðstöðin í Reykjavík. Leiknir hafi lifað af og eflst í áranna rás. Orðinn 50 ára. Fleira mætti nefna. „Ég hef aðeins farið yfir söguna frá því ég flutti ungur með fjölskylduna í Efra Breiðholt. Ég taldi mig sjá þörfina fyrir ópólitísk félagasamtök til þess að berjast fyrir betri aðstöðu og betra mannlífi,“ segir Hjálmar.

You may also like...