Risavaxinn sýndarveruleiki í Örfirisey

Unnið að byggingu fyrir FlyOver í Örfirisey.

Verið er að vinna að uppbyggingu hátækniafþreyingar í Örfirisey á vegum Esja Attractions ehf. undir heitinu FlyOver Iceland. Sérhönnuð bygging verður reist og háþróaðri kvikmynda- og sýningartækni beitt þannig að áhorfendum finnist þeir svífa yfir margar af helstu náttúruperlum Íslands. Sýningin verður staðsett við Fiskislóð og er stefnt að opnun hennar á næsta ári að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Um risavaxinn sýndarveruleika er að ræða þar sem gestir munu svífa um í sérstökum stólum sem hreyfast í takt við sýningarrýmið. Þar mun verða hægt að njóta útsýnis um helstu náttúruperlur landsins á 17 sinnum 20 metra skjá. Unnið er að því að reisa hús við Fiskislóð auk þess sem sýningarbúnaður er væntanlegur til landsins eftir áramót. Tækin koma að mestu frá Brogent Technologies á Taívan. Þungamiðjan í tækjabúnaðinum er hið svokallaða iRide með fjörutíu sætum sem fyrirtækið hefur þróað. Heildarkostnaður verkefnisins þegar allt er talið, bygging hússins, tækjabúnaðurinn og að koma honum til landsins hleypur á milljörðum króna og á annað hundrað manns hafa unnið við verkefnið. Gert er ráð fyrir veitingasal- og verslun á neðri hæð hússins. Stofnendur Flyover Iceland eru Sigurgeir Guðlaugsson, Robyn Mitchell og Kevin Finnegan. Fyrirtækið Pursuit verður rekstraraðili og á 54,5% í félaginu, en það hefur starfað í Kanada og Bandaríkjunum. Fasteignafélagið E6 er eigandi hússins að Fiskislóð.

You may also like...