Hjúkrunarheimilið Seltjörn vígt

— Mun taka til starfa um 20. mars —

Mikið fjölmenni var viðstatt vígsluathöfn hjúkrunarheimilisins.

Seltjörn nýtt hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi var formlega vígt laugardaginn 2. febrúar sl. Mikið fjölmenni var viðstatt vígsluathöfn hjúkrunarheimilisins í köldu en dásamlega fallegu veðri. Boðið var upp á hátíðardagskrá auk þess sem öllum gestum gafst tækifæri til að skoða þetta glæsilega húsnæði og njóta veitinga. 

Ásgerður bæjarstjóri og Svandís heilbrigðisráðherra glaðar í bragði á þeim ánægjulegu tímamótum þegar hjúkrunarheimilið SELTJÖRN var vígt laugardaginn 2. febrúar 2019.
Merki hjúkrunarheimilisins var hannað af Seltirningnum Elsu Nielsen.

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Svandís Svavarsdóttir heilbrigisráðherra héldu hátíðarávörp og klipptu á borða. Björn Guðbrandsson arkitekt hússins sagði frá hönnun þess og Jón Ingi fulltrúi Munck Íslandi sem önnuðust byggingu hússins afhenti Ásgerði bæjarstjóra lyklana. Ásgerður afhenti lyklana þá til Svandísar ráðherra heilbrigðismála sem afhenti þá að lokum til Kristjáns Sigurðssonar forstjóra Vigdísarholts sem er rekstraraðili hjúkrunarheimilisins. Í ávarpi sínu upplýsti Kristján um að ráðgert væri að hefja rekstur hjúkrunarheimilisins í kringum 20. mars nk. að því gefnu að mönnun gangi vel. 

Sr. Bjarni Þór Bjarnason blessaði hjúkrunarheimilið og tónlistarmennirnir Ari Bragi Kárason, bæjarlistamaður Seltjarnarness 2014, Eyþór Gunnarsson úr Mezzoforte og Jóhann Helgason, bæjarlistamaður Seltjarnarness 2007 fluttu tónlistaratriði. Veittar voru viðurkenningar til vinningshafa nafnasamkeppninnar auk þess sem nokkrum aðilum voru þakkaðar góðar gjafir sem þeir höfðu gefið hjúkrunarheimilinu. Við athöfnina var heiti hjúkrunarheimilisins opinberað í fyrsta sinn ásamt merki heimilisins sem Elsa Nielsen hannaði. Haldin var hugmyndasamkeppni um nafn á hjúkrunarheimilið. Alls bárust um 140 sendingar með um 90 ólíkum nöfnum. Fimm aðilar sendu inn vinningstillöguna eða þau Guðrún Daníelsdóttir, Jón Tryggvi Sveinsson, Ólafur Egilsson, Ragnhildur B. Guðjónsdóttir og Valgerður Anna Þórisdóttir.

Glæsileg húsakynni hjúkrunarheimilisins.


You may also like...