Ekki tekist að fjármagna framkvæmdir við Vesturbugt

Séð yfir fyrirhugað framkvæmdasvæði við Vesturbugt.

Reykjavíkurborg hefur veitt félaginu Vesturbugt sex mánuði til viðbótar við þann frest, sem kveðið er á í samningum um framgang verkefnisins í von um að ástand á fasteigna- og fjármagnsmörkuðum batni. Óvissa ríkir um framtíð uppbyggingar á svæðinu við gamla Slippinn og Mýrargötu. Framkvæmdir áttu að hefjast um mitt síðasta ár en ekki hefur enn tekist að fjármagna framkvæmdirnar og óvíst hvenær eða hvort það muni takast. Í frétt í Viðskiptablaðinu á dögunum kemur fram að ekki hafi reynst mögulegt að ljúka fjármögnuninni.

Breyttar aðstæður á fasteignamarkaði hafa sett strik í reikninginn. Það kom fyrst fram í bréfi sem lagt var fram á fundi borgarráðs í október á síðasta ári. Þessar breytingar megi einkum rekja til þess að mikið sé af nýjum óseldum íbúðum í nágrenni Vesturbugtar og einnig nýs atvinnuhúsnæðis sem ekki hefur tekist að koma í not. Þá hafa útlán til verkefna sem þessi dregist saman.

176 íbúðir og húsnæði fyrir atvinnustarfsemi

Vesturbugt er eignarhaldsfélag í meirihlutaeigu Kaldalóns, fasteignafélags sem er í eignastýringu hjá Kviku banka og var stofnað til uppbyggingar á svæðinu. Fyrirhugað er að reisa 176 íbúðir í Vesturbugt auk þess sem tæplega 13 þúsund fermetrar eru áætlaðir fyrir atvinnustarfsemi, verslanir, veitinga- og kaffihús, á jarðhæð bygginganna. Gert er ráð fyrir að þessa verkefni muni kosta um 10 milljarða króna.

Þegar viðskiptabanki Vesturbugtar dró til baka vilyrði fyrir fjármögnun verkefnisins á grundvelli óhagstæðra ytri skilyrða á liðnu sumri var gengið til samninga við Kviku banka og síðastliðið haust var tilkynnt að bankinn myndi afla framkvæmdafjármagns til verkefnisins. 

You may also like...