Vilja þverpólitískan starfshóp um fjármál bæjarins

Bæjarfulltrúar minnihlutans á Seltjarnarnesi vilja setja af stað þverpólitískan starfshóp til að rýna 264 milljón króna hallarekstur bæjarsjóðs. Minnihlutinn í bæjarstjórn segir fjárhagsstöðu bæjarins grafalvarlega og telja vinnubrögð stjórnenda bæjarins óboðleg.  

Halli var á rekstri bæjarins upp á 264 milljónir króna í fyrra, eða um 324 milljónum frá áætlun. Ennfremur segja bæjarfulltrúar minnihlutans ljóst að þegar tvö þriggja ára tímabil eru skoðuð – tímabilin frá 2016 til 2018 og 2017 til 2019 sé um neikvæðan rekstrarjöfnuð að ræða. Þetta kemur fram í bókun minnihluta Samfylkingar og Neslista/Viðreisnar á fundi bæjarstjórnar. Þar segir þetta þvert á viðmið sveitarstjórnarlaga sem kveða á um að bæjarstjórn eigi að sjá til þess að rekstrarjöfnuður A og B hluta séu á hverju þriggja ára tímabili jákvæður. Þessi staða er grafalvarleg og mun ef ekkert verður að gert hafa alvarleg áhrif á getu sveitarfélagsins til að veita íbúum sínum góða þjónustu.

Útsvar langt undir hámarki

Í bókun meirihluta frá sama fundi segir m.a. að rekstrarniðurstaða aðalsjóðs á árinu 2018 skýrist m.a. vegna umframkostnaðar í málefnum fjölskyldusviðs, fræðslusviðs, eignasjóðs og gjaldfærsla vegna Brúar lífeyrissjóðs. Þá hafi börnum fjölgað mikið á leikskólaaldri á liðnu ári sem beri að fagna, en til að halda úti sama þjónustustigi var tekin ákvörðun um að opna þrjár leikskóladeildir og ráða 15 nýja starfsmenn á miðju ári. Þessi ákvörðun hafði í för með sér aukin útgjöld sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Í bókuninni er einnig bent á farið hafi verið í veigamiklar fjárfestingar á liðnu ári en fjárfest var fyrir rúma tvo milljarða og stærsti liðurinn er hjúkrunarheimilið og stækkun íþróttamiðstöðvar. Útsvar á Seltjarnarnesi sé 13,7% sem er langt undir því hámarki sem sveitarfélögin hafa heimild til. 

You may also like...