Styrkurinn felst í fjölbreytileikanum

— Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur —

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur spjallar við Breiðholtsblaðið að þessu sinni. Sigurborg er uppalin á Kjalarnesi og er landslagsarkitekt að mennt. Umræðuefnið er Breiðholtið. Lítið hefur verið um breytingar og framkvæmdir í byggðarlaginu alla götu frá því það var byggt með undraverðum hraða á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar. Dæmi um framkvæmdagleðina á þeim tíma má geta þess að á árinu 1973 voru byggðar 1.133 íbúðir í Reykjavík að mestu í Breiðholti. Þetta met var ekki slegið fyrr en á síðasta ári, 45 árum síðar að hafin var bygging 1.417 íbúða í Reykjavík. Nú hefur nokkur breyting orðið og horft er til umtalsverðra framkvæmda í Breiðholti á næstu árum. Ekki síst á svæði Mjóddarinnar.

Sigurborg segir Mjóddina vera þróunarsvæði enda á milli. Allt frá því sunnan ÍR og norður fyrir Garðheima. Ljóst er orðið að samningaviðræður milli borgarinnar og Heklu hf. báru ekki árangur mun því flutningur Heklu hf. af Laugavegi í Suður Mjódd ekki ganga eftir. „Það er miður að verkefnið hafi ekki gengið eftir og samningar ekki náðst í þetta skiptið.“ Mikil uppbygging sé hins vegar á næsta hluta Mjóddarinnar, norðan fyrirhugaðs Heklusvæðis, sem er umráðasvæði ÍR. “Það verkefni er komið í fullan gang. Búið er að undirrita samninga um knatthús fyrir ÍR og æfingaaðstöðu fyrir frjálsar íþróttir.”

Öflugt miðsvæði í framtíðinni

En hvað með aðra hluta Mjóddarinnar. Sigurborg segir Mjóddina vera miðjusvæði. Verklegt skipulag sé komið af stað og mikilvægt að þróa svæðið áfram. “Ég tel að styrkja megi Mjóddina með meira af atvinnuhúsnæði og ekki síður íbúðum. Þar eru mjög stór bílastæði sem eru með takmarkaðri notkun og hægt væri að taka hluta þeirra undir aðra starfsemi. Bílastæði mættu færa í bílakjallara eða fremur í bílastæðahús sem eru praktískari því ekki er eins mikill kostnaður við þau og að gera djúpa kjallara. Mjóddin liggur einnig mjög vel við tengingum við borgarlínu. Ég sé fyrir mér að Mjóddin geti orðið öflugt miðsvæði í framtíðinni.”

Áhugavert að tengja Mjóddina betur við Kópavog

Sigurborg ræðir síðan um bakland Mjóddarinnar sem er í Kópavogi hinu megin Reykjanesbrautar. “Þar er Smiðjuhverfið sem var skipulagt á sínum tíma sem iðnaðarhverfi. Þar er mikið af bílaverkstæðum og öðrum léttum iðnaði en engar íbúðabyggingar og lítið um verslanir. Þetta hverfi er auðvitað barn síns tíma en með skipulagi Smiðjuhverfis var Kópavogur að snúa afturendanum að Mjóddinni. Starfsemi og umferðarskipulag hverfisins styður ekki við Mjóddina sem þjónustukjarna og því væri það upplagt að tengja þessi tvö svæði betur saman. Ég veit ekki hvort hugmyndir eru um það hjá bæjaryfirvöldum í Kópavogi að breyta formi þessa bæjarhluta – til dæmis með því að flytja eitthvað af iðnaðarstarfseminni til og þróa hverfið áfram líkt og gert var við Vogabyggðina. En nándin býður upp á að tengja þessi svæði betur saman og byggja íbúðir sem væru í nánum tenglum við borgarlínu.”

Mjóddin er örnefni á mótum Breiðholtsmýrar og Breiðholts, meðfram mýrinni og náði niður undir Blesugróf. Mýrin var mjög blaut en Mjóddin var þurrari og þar lá leiðin úr Reykjavík að Breiðholtsbænum. Þjónustuhverfið fyrir Breiðholt reis á Mjóddinni og er kennt við hana.  

Uppbygging hverfiskjarnanna er forgangsmál

Norður-Mjóddin hefur verið talsvert til umræðu og hugmyndir um að reisa þar íbúðabyggð með tilheyrandi verslunum og þjónustu. Ef horft er aftur í tímann, til fyrstu skipulagningar Breiðholtsins frá sjöunda áratug liðinnar aldar, mun ekki hafa verið gert ráð fyrir byggingum á þessu svæði meðal annars til þess að vernda útsýni frá neðstu byggðunum, einkum Stekkunum fyrir neðan Bakkahverfið. Síðar risu byggingar á svæðinu. Bensínstöð, bílalúgusjoppa, síðar gróðurvöruverslunin Garðheimar og síðast Vínbúðin. Sigurborg segir að upplagt sé að fá nýtt skipulag fyrir Norður Mjódd. Hún segir að þarna megi byggja gott íbúðahverfi með góðri þjónustu. Þó verði að gæta annarrar þjónustu sem þegar er á svæðinu. Það sé mikilvægt að halda í starfsemi verslanakjarnans í Mjóddinni en einnig Arnarbakk-ann þar sem unnið er að því að koma á fót þjónustustarfsemi að nýju eftir að þjónustukjarnarnir í Neðra og Efra Breiðholti lentu í hálfgerðri niðurníðslu. “Við verðum að gæta þess að raska ekki grundvelli verslunnar í hverfunum vegna þess að íbúar eru í vaxandi mæli að kalla eftir þjónustu til baka inn í hverfin. Uppbygging hverfiskjarnanna við Arnarbakka og Völvufell er forgangsmál og búið er að auglýsa eftir hugmyndum um starfsemi þar til bráðabirgða þar til endanlegt skipulag liggur fyrir og þá hvort möguleikar verða á frekari endurnýjun eða byggingu húsnæðis þar. Þetta er í göngufæri fyrir svo marga og helst líka í hendur við hverfisskipulagð fyrir Breiðholt sem er næsta hverfi sem sett verður í formlegt auglýsingaferli. Vinna við það er langt komin. En það sem ég vil segja er að við þurfum að fá meiri fjölbreytileika í Arnarbakka og einnig að endurskipuleggja Eddufellið að einhverju leyti.” Talið berst að hugmyndum um byggingu stórrar íbúðablokkar eða íbúðaturns fyrir framan núverandi byggingar í Eddufellinu. Sigurborg kveðst kannast við hugmyndina og segir fólk hafa hafa haft ákveðnar efasemdir um hana kannski fyrst og fremst vegna hæðar og umfangs. “En það var líka margt jákvætt við þessa hugmynd. Einkum að fá meiri fjölbreytileika í íbúasamsetninguna og þar með í byggðina. En þessi tillaga hefur ekki verið rædd neitt frekar.”

Vistvænt við Stekkjarbakka og Langagróf

Í nýju deiliskipulagi norðan Stekkjarbakka er gert ráð fyrir að reisa níu metra háa gróðurhvelfingu í Löngugróf þangað sem sækja megi margskonar þjónustu, nýr samkomustaður fyrir íbúa borgarinnar og ferðamenn. „Verkefni með vistvænar byggingar og sjálfbæran lífsstíl verða fyrirferðamikil í borginni á næstu árum og er þetta verkefni með gróðurhvelfingar eitt af þeim verkefnum. Önnur koma í gegnum alþjóðlegar samkeppnir líkt og C40 samkeppnina sem Reykjavíkurborg tekur þátt í. Við sem samfélag erum sífellt að færa okkur nær sjálfbærni og er verkefni Aldin Biodome við Löngugróf skýrt dæmi um slíka þróun. Skipulagið er í ennþá í ferli og hafa komið skiptar skoðanir við það, margir sem eru mótfallnir uppbyggingunni en líka margir sem styðja hana og fagna aukinni þjónustu á svæðinu.“

Verðum líka að byggja á félagslegri sjálfbærni

Sigurborg segir að Breiðholtið hafi verið nokkuð einsleitt þegar það var byggt, það hafi ekki verið félagslega sjálfbært, sem leiddi af sér ákveðinn vanda. Þetta hafi þó breyst og mikið gróska komið fram til dæmis í skólasamfélaginu. “Við erum að sjá bæði frumkvæði og sköpun í skólum í Breiðholti sem ekki er fyrir hendi í sama mæli í öðrum borgarhverfum. Sama má sjá á fleiri sviðum en það sem læra má af sögu Breiðholtsins er meðal annars að þegar ný hverfi eru skipulögð verður að huga að því að byggja fyrir alla hópa samfélagsins en ekki að einblína á húsnæðisuppbyggingu fyrir ákveðna tekjuhópa. Breiðholt byggðist með miklum hraða á sínum tíma til þess að mæta brýnni þörf í húsnæðismálum. Kappið hefur ef til vil borið forsjána ofurliði að einhverju leyti af þeim orsökum. Í dag erum við að vinna þessi mál með öðrum hætti. Við erum að byggja upp eftir langtíma áætlunum. Að undanförnu hefur verið unnið eftir sýn frá árunum 2004 til 2005 sem birtist í aðalskipulagi Reykjavíkur og er núna í endurskoðun. Stærstu málin í þeirri endurskoðun eru að móta byggð með sjálfbærni í huga. Borgarhverfi og hluta sem staðið geta að miklu leyti á eigin fótum hvað alla þjónustu varðar. Höfuðborgarsvæði er eitt atvinnusvæði og fólk fer á milli staða og svæða til þess að sækja vinnu eftir því við hvaða störf það fæst og því er mikilvægt að tengja byggð við góðar og skilvirkar samgöngur.”

Styrkurinn felst í fjölbreytileikanum

Sigurborg segir að sjálfbærni hljóti að verða höfuðárhersluatriði í skipulagningu borgarhverfa í framtíðinni. Hluti af því sé að húsnæðisuppbygging og góðar almenningssamgöngur haldist í hendur. “Hlutirnir eru að gerast hratt og munu gerast enn hraðar í framtíðinni. Það sem gerir Breiðholt að þeirri perlu sem það er, en fólk áttaði sig ef til vill ekki á í byrjun, er sá mikli fjölbreytileiki sem einkennir bæði mannlífið og byggðina. Styrkur Breiðholts felst í fólkinu sem þar býr, í dýrmætum fjölbreytileikanum.“

You may also like...