Deilt um skipulag við Stekkjarbakka

Teikning af fyrirhugaðri gróðurhverfinu Aldo Biodome.

Með nýju deiliskipulag fyrir svæðið austan Stekkjarbakka verður heimilað að að reisa allt að 4.500 fermetra gróðurhvelfingu og verslunarrými á skipulagssvæðinu. Einnig er gert ráð fyrir uppbyggingu fyrir Garðyrkjufélagið og búsetuúrræðum fyrir velferðarsvið borgarinnar.

Fjöldi athugasemda við skipulagið hefur borist borgarráði. Athugasemdirnar koma bæði frá íbúum og stofnunum enda lengi verið umdeilt að reisa mannvirki svo nálægt Elliðaárdalnum sem gert er ráð fyrir. Umhverfisstofnun hefur gert athugasemdir við að svæðið sem er skilgreint í deiliskipulagstillögunni sé stærra en það sem skilgreint er í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2030. Stofnunin telur að verið sé að ganga á grænt svæði og að niðurgrafnar byggingar sem deiliskipulagið opnar fyrir eigi eftir að skapa rask auk þess að upplýstar byggingar muni rýra útsýni nærliggjandi íbúa. Umhverfisstofnun gagnrýnir einnig að umfang bygginga hafi verið aukið frá fyrri skipulagslýsingu og því mögulega átt að senda út nýja lýsingu þegar það var ákveðið. Þá bendir stofnunin á að starfsemin eigi eftir að laða að sér gesti og ferðamenn sem skapi meiri umferð og meiri hávaða fyrir íbúa í nágrenninu.

Gróðurhvelfingin lækkuð um sex metra

Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á fyrirhuguðum byggingaráformum neðan Stekkjarbakka frá því hugmyndir voru fyrst kynntar í skipulags- og samgönguráði borgarinnar í september í fyrra. Þær breytingar snúa einkum að því að byggingarreitur fyrirhugaðrar gróðurhvelfingar Aldin Biodome var færður fjær Elliðaárnum en nær Stekkjarbakka. Gróðurhvelfingin var lækkuð úr 15 metrum í níu metra yfir landhæð og byggingar að hluta grafnar í jörð. Lóð sem áætluð var vestast á svæðinu var tekin út og bílastæðum var fækkað. Flestar þessara breytinga voru gerðar á síðasta hausti áður en boðað var til íbúafundar í Gerðubergi í febrúar. Á þeim fundi skiptust fundargestir í tvær fylkingar, með og á móti framkvæmdunum. Breytingar sem gerðar voru eftir fundinn voru minni háttar auk leiðréttinga.

Séð yfir Stekkjarbakka til austurs. Elliðaárnar eru til vinstri á myndinni.

Ónýtt svæði um árabil

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs telur skipulagið ekki raska útivistarsvæði að öðru leyti en öll önnur uppbygging raski nánasta umhverfi á meðan hún eigi sér stað. Hún bendir á að þetta svæði við Stekkjarbakka sé nú þegar mikið raskað. Þarna sé um gamalt námusvæði að ræða þar sem tekið var efni fyrir byggingu Miklubrautar á sínum tíma. Í aðalskipulagi hafi verið gert ráð fyrir því að hraðbraut myndi liggja í gegn um þetta svæði. Hraðbrautin hafi síðan verið felld út og gert ráð fyrir grænni starfsemi á svæðinu sem samræmast þessu deiliskipulagi. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs segir þetta svæðið ekki hafa verð nýtt um árabil. Það sé vilji borgaryfirvalda að þarna verði skemmtilegt svæði fyrir alla. Hún segir í vikulegum pistil í Kjarnanum fyrir nokkru að þetta nýja skipulag hafi verið í vinnslu í nokkur ár og búið að auglýsa tillöguna vel. Haldinn hafi verið afar vel sóttur fundur með íbúum. Tekið hafi verið við mörgum ábendingum og umsögnum, þeim svarað og tekið tillit til þeirra eins og við á. Nákvæmlega eins og vinna við deiliskipulag fer almennt fram.  

Viðkvæmt svæði með lífi fugla og laxa 

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins er á öðru máli. Hún telur deiliskipulagið fela í sér mögulega uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og bílastæða á skipulagssvæðinu. Þetta sé í jaðri Elliðaárdalsins þar sem í aðalskipulagi Reykjavíkur sé ráð gert fyrir að geti komið græn starfsemi. Hún bendir á að þetta svæði sé alveg ofan í Elliðáárdalnum sem sé eitt verðmætasta svæðið í borginni. Eyþór Arnalds oddviti sjálfstæðismanna telur Elliðaárdalinn í hættu ef leyfa eigi bygging 4.500 fermetra atvinnuhúsnæðis. Hann segir dalinn viðkvæmt grænt svæðið í Reykjavík með lífi fugla og laxa inn í miðri borg.

Málið á villigötum

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sagt á facebook síðu sinni að frá árinu 2010 hafi Elliðaárdalurinn verið skilgreindur sem borgargarður, nokkurs konar þjóðgarður borgar. Engin uppbygging sé því leyfð innan marka hans nema til samræmis við verndunarmarkmið svæðisins. Áformunum um uppbyggingu hafi  verið mætt með mikilli tortryggni vegna nálægðar við dalinn „Mér finnst líka allt of áberandi í hinni pólitísku umræðu að því sé haldið fram að verið sé að ganga á Elliðaárdalinn með skipulagi Stekkjabakka. Það er rangt. Að Elliðaárdalurinn sé ekki varinn og friðaður í skipulagi. Sem er líka rangt.“  Hjálmar Sveinsson, fulltrúi Samfylkingarinnar tekur í sama streng. Hann segir deiliskipulagið ekki ganga á Elliðaárdalinn og bendir á að þetta svæði við Stekkjarbakka sé í rauninni býsna raskað. Þetta sé í jaðri Elliðaárdalsins þar sem aðalskipulag Reykjavíkur geri ráð fyrir að geti komið græn starfsemi. 

Einstakt verkefni 

En hvað er Aldin BioDome gróðurhvelfingin sem deilur um deiliskipulagið snúast einkum um. Aldin BioDome er gróðurhvelfing þar sem mynda á gróðursælt umhverfi með nýtingu jarðvarma og gróðurlýsingu sem fylgja birtustigi miðjarðarhafssólar undir glerþökum. Hjördís Sigurðardóttur frumkvöðull og framkvæmdastjóri verkefnisins sagði í samtali við Breiðholtsblaðið fyrr á þessu ári þetta verða einstakt verkefni sem stuðli að auknu jafnvægi í lífi fólks einkum yfir dimma og kalda vetrarmánuðina. Hún segir að Elliðaárdalur sé eitt stærsta og verðmætasta útivistarsvæði borgarinnar sem laði að fólk á öllum tímum ársins. Við hönnun verkefnisins hafi verið leitað leiða til að fyrirhuguð mannvirki falli eins vel og unnt er að umhverfinu, að tekið sé mið af sjónarmiðum mismunandi aðila og að framkvæmdin bæti núverandi umhverfi. 

Spurning um rekstrarmöguleika

Nokkuð hefur verið rætt um kostnað við þetta verkefni, meðal annars á Facebook síðu Betra Breiðholts þar sem lesa mátti þessar línur. “Líka áhugavert að hugsa út í það hvernig þetta Aldin BioDome mun reka sig og ætlar að lifa. Myndu einhverjir fara að borga sig inn þarna oftar en einu sinni á ævinni til að skoða plöntur utan úr heimi, fá sér kaffibolla og kaupa krydd. Manni finnst eins og verið sé að planta einhverri byggingu þarna bara til planta einhverju. Myndi frekar vilja sjá eitthvað útivistartorg þarna og bekki ásamt flottum gosbrunni sem dæmi til að skyggja ekki á dalinn.” Ef til vill er von að einhverjir leiði hugann að þessari hið málsins þar sem um stóra fjárfestingu er að ræða. Fátt er vitað um fjárfesta og einnig raunverulega rekstarmöguleika.

Íbúakosning hugsanleg

Einn þeirra aðila sem hefur beitt sér gegn deiliskipulaginu og framkvæmdum á svæðinu neðan Stekkjarbakka eru Hollvinasamtök Elliðaárdalsins. Samtökin vilja kæra nýja skipulagið til Skipulagsstofnunar og einnig þrýsta á að um það verði kosið um það í íbúakosningu. Þá segja samtökin fyrirhugaðar byggingaráætlanir ná ofan í Elliðaárdalinn á lítið raskað svæði. Einnig benda þau á að Aldo BioDome verkefnið sé ófjármagnað og muni því standa sem framkvæmdaverkefni í miðjum dalnum næstu ár. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs vill ekki útiloka að kosið verði um skipulagið í íbúakosningu. Hún kveðst telja það eðlilegt ef komi fram mikill vilji til þess og íbúar vilji fá að segja sína skoðun. Þá sé mikilvægt að slík kosning verði haldin. Spurningin sé um hversu stór hópur sé andvígur þessu og hversu stór hópur vilji fá þessa uppbyggingu. Ljóst má vera að þetta mál er ekki útrætt. Hvorki innan borgarkerfisins eða á meðal borgarbúa.

You may also like...