Gamla Farsóttarhúsið

– byggt sem farsóttarhús, varð síðar stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og nú fyrirhugaður byggingarreitur –

Gamla farsóttarhúsið og síðar stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Hluti af húsnæðissáttmála stjórnvalda sem var kynntur árið 2017 í stjórnartíð Þorsteins Víglundssonar, fyrrverandi félags- og jafnréttismálaráðherra og Benedikts Jóhannessonar, fyrrverandi fjármálaráðherra var að reisa allt að fjögur hundruð íbúðir á landhelgisgæslulóðina við Seljaveg þar sem gamla sóttvarnarhúsið stendur. Tekið var fram að um yrði að ræða hagkvæmar íbúðir fyrir ungt og efnaminna fólk.

Gamla farsóttarhúsið á sér sína sögu. Í lögum frá 1902 var kveðið á um að byggja skyldi sérstök sóttvarnarhús í kaupstöðum landsins á kostnað landssjóðs. Strax árið 1903 var sóttvarnarhúsi fyrir Reykjavík valinn staður vestan bæjarins, neðst í túni Miðsels niðri við sjó. Árið 1905 var húsið ekki fullgert, en smíði þess þó svo langt komin að hægt var að hafa þar sjúklinga í sóttkví. Smíði hússins var svo að mestu lokið haustið 1906. Um er að ræða einlyft hús með kjallara, risi og kvisti, byggt af bindingi og klætt að utan með járni á þaki og veggjum. Við hvorn gafl hússins er áfastur skúr sem innangengt er um, hvor um sig byggður eins og húsið. Tveir reykháfar voru upphaflega á húsinu. Húsið var óbreytt við næstu virðingar árin 1925 og 1942. Eftir 1925 þjónaði Sóttvarnarhúsið í Reykjavík öllu landinu og var rekið sem slíkt til ársins 1954 þegar það var aflagt með lögum og húsið selt Landhelgisgæslunni. Árið 1935 voru 25 sjúkrarúm í húsinu. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var um árabil í húsinu og af því dregur reiturinn heiti sitt í dag. 

You may also like...