Kirkjan er í sókn

– segir Pétur G. Markan samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar –

Pétur G. Markan með fjölskyldu sinni á góðri stundu.

Pétur G. Markan samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni. Pétur á ættir úr Skerjafirði en ólst upp í Fossvogi. Hann segir að þótt hann sé ekki Vesturbæingur í raun eigi hann margvísleg tengsl við þennan bæjarhluta. „Faðir minn, Hörður Markan, lék fótbolta með KR. Pabbi var KR-ingur og það er lífstíll, hluti af gullaldarliði félagsins sem kenna má við ártalið 1968. Fortíð föður míns hafði áhrif á mig. Ég æfði knattspyrnu og varð knattspyrnumaður. Það hafði, og hefur, mikil áhrif á mig að pabbi dó rétt um fimmtugt. Fram að því hafði ég ekki sérstakar ambisjónir að spila fótbolta lengur en barnaboltinn nær. Föðurleysið dreif mig áfram í boltanum, sjálfsagt til að lifa drauminn hans og vinna föðurlega “freudíska” aðdáun. Ég sé kannski mest eftir því á mínum fótboltaferli að hafa aldrei spilað með KR. Árið 2009 stóð það jafnvel til. Það eru mörg frábær lið á Íslandi en bara eitt stórveldi. Það er staðreynd. Svo geta menn karpað um með hvaða liði þeir halda og hversu skynsamlegt það er. Ekkert rangt svar í þeirri umræðu. En það bíða allir leikmenn eftir leiknum í Frostaskjólinu.”

“Ég er fyrst og fremst félagsvera, pólitíkus og umbótasinni,” segir Pétur. “Fór fljótt að taka forystu þar sem ég var. Ég var bekkjarformaður, formaður í nemendaráðum og var síðan í háskólapólitíkinni. Ég er alinn upp á pólitísku heimili þar sem stefnan var til vinstri. Vinstriveran í mér er gjöf frá frá mömmu. Mamma var lengi dagmanna, starfaði heima og ég deildi fallega herberginu mínu með öðrum börnum alla daga. Þannig var alltaf dauf í mér þessi eignarréttatilfinning, og er enn þá. Í staðinn hvílir í mér sterk sannfæring samvinnu, samábyrgðar og samneyslu. Hvernig samfélagið virkar af gagnkvæmri virðingu – maðurinn fullkomnast í sjálfum sér þegar hann deilir með sér umhverfi sínu, þekkingu og kærleika.”

Var mikið á vesturhlið Vatnsmýrarinnar 

Þrátt fyrir að alast upp í Fossvoginum kveðst Pétur engu að síður hafa eytt stórum hluta æfi sinar i tengslum við Vesturbæinn. „Ég eyddi miklum tíma við Sæmundargötuna. Var framkvæmdastjóri stúdentaráðs og skautaði á milli verkefna tengdum Háskólanum. Ég var því mikið á vesturhlið Vatnsmýrarinnar meðal annars sem verkefnisstjóri á Markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands. Svo flutti ég í gamla Vesturbæinn þegar ég hleypti heimdraganum. Átti heima á skipstjóragötunum, Marargötu og Bárugötu og auk þess sem við Björg Magnúsdóttir, fjölmiðlakona og góð vinkona mín, bjuggum saman á Neshaganum á milli sambandsvertíða – leigðum saman. Svo Vesturbærinn og miðbærinn hefur sterka taug í mér.”

Stofa fimm er mér hugleikin og minnisstæð

Pétur lauk guðfræðisprófi frá Háskóla Íslands. „Stofa fimm í  aðalbyggingu Háskólans og Háskólakapellan eru mér bæði hugleikin og minnisstæð. Ég hef þó ekki lokið embættisprófi. Sá mig aldrei í almennilega í hlutverki prestsins. Kannski samskiptum mínum við Guð sé ekki best lýst í lokaorðum ljóðsins eftir Paul Simon, Kathy´s song;

And as I watch the drops of rain

Weave their weary paths and die

I know that I am like the rain

There but for the grace of you go I

“Ég var heldur aldrei mjög efnilegur námsmaður í guðfræðinni. Háskólaárunum eyddi ég í stúdentapólitík, fótbolta og frítímanum í að spila á gítar í háskólakapellunni. Það er ráðgáta hvernig ég lauk með 1. einkunn. Ég hef ekki hugsað mér að klára magisterprófið þótt maður eigi auðvitað að segja „aldrei að vita“.

Tvisvar vestur á fjörðum

Pétur á tíma úr æfi sinni vestur á fjörðum. Hann var sveitarstjóri Súðavíkurhrepps  og leiddi hagsmunabaráttu fyrir sveitarfélögin á Vestfjörðum á sama tíma. Varð meðal annars formaður fjórðungssambands Vestfjarða og stjórnarformaður Vestfjarðastofu svo nokkurs sé getið. En hvernig stóð á að hann ákvað að fara vestur. Hann segir að upphaf þess megi rekja aftur til aldamótanna. „Ég var 19 ára þegar ég fór fyrst vestur. Þarna voru ákveðin tímamót í lífi mínu. Ég var að verða fullorðinn og fann þörf fyrir tilbreytingu. Í afmælisávarpi til Ísafjarðarbæjar lýsti ég mér einu sinni þessum tíma svona; “Ég var föðurlaus tinkarl í leita að hjarta”  “Ég lauk lokaárinu í framhaldsskóla fyrir vestan og spilaði fótbolta og fékk mína eldskírn sem ungur fyrirliði og leiðtogi í BÍ liðinu. Hélt síðan aftur suður til frekara náms –  fullorðin.”

Félagsveran sigraði fótboltamanninn

Pétur spilaði í meistaraflokki í rúman áratug. “Ég átti mjög gott tímabil í úrvalsdeildinni með Fjölni sumarið 2008 og þaðan fór fór ég í Val. Það var góð upplifun að spila með toppklúbbi og frábærum leikmönnum. Það voru forréttindi að spila með þeim, en sjálfsagt þrekraun fyrir þá og klúbbinn. Ég hreifst með pólitíkinni á saman tíma. Ég var formaður ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og fór í framboð til Alþingiskosninga, og endaði sem varaþingmaður undir lokin á kjörtímabilinu. Það hafði áhrif á frammistöðuna. Mér var hins vegar sama, þegar kemur að pólitík hef ég köllun, hæfileika og ástríðu. Fótboltinn var meira æskuuppgjör hjá mér sem dróst á langinn. Það er meiri stjórnmálamaður í mér en fótboltamaður.” Pétur hélt aftur vestur árið 2011, í því skyni að klára knattspyrnuferilinn sem fyrirliði BÍ/Bolungarvíkur, þar sem hann byrjaði af alvöru. Pétur var ekki svo gamall þá, 31 árs, og hefði getað átt mörg ár eftir í boltanum. Af hverju ákvað hann þá að fara vestur með það að markmiði að klára ferilinn? „Félagsveran í mér hefur alltaf átt meira í mér en fótboltamaðurinn. Ég er líka betri stjórnmálamaður en fótboltamaður. Félagsveran sigraði fótboltamanninn. Ég er samt afar þakklátur fyrir ferilinn minn – það er leitun af lélegri fótboltamanni sem spilaði með jafn góðum liðum og betri leikmönnum.

Sveitarstjóri og forystumaður um málefni Vestfjarða

Ég flutti aftur vestur á firði, tók við fyrirliðabandinu sem ég hafði skilið eftir 21 árs og fór að vinna sem framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfjarða. Við komum okkur fyrir í Súðavík og ég fór að skipta mér af pólitíkinni. Ég varð sveitarstjóri eftir kosningarnar 2014 og í hönd fór dásamlegur tími uppgangs, umbóta og framfara. Rekstur sveitarfélagsins tók stakkaskiptum, atvinnuþróunarmál fóru á fullt, samfélagið fékk lit í vangann og eld í hjartað. Sveitarfélagið fékk verðskuldaða athygli og var mikið í fjölmiðlum þetta kjörtímabilið. Á miðju kjörtímabili tek ég síðan við sem formaður Fjórðungssambands Vestfjarða. Í því hlutverki var ég talsmaður hagsmuna sveitarfélaga á Vestfjörðum og sömu sögu má segja um að athygli og hagsmunaþungi fjórðungsins hafi aukist til muna. Fyrir utan stórmál eins og laxeldi, virkjanir og samgöngubyltingu þá brann ég fyrir einu máli sérstaklega, sameiningu Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og Fjórðungssambandsins. Mál sem hafði verið reynt áður en strandað á póltískum vilja og forystu. Það var því mikil sigur fyrir Vestfirði og mig persónulega að klára stofnun Vestfjarðastofu, þar sem verkefni FV og AtVest runni inn í.” Pétur sagði í grein sem hann birti á BB.is, fréttasíðu Vestfjarða og Vestfirðinga að stofnun Vestfjarðastofu hafi verið mesta framfaraskref  í vestfirskum sveitarstjórnarmálum í lengri tíma. „Hagsmunamál Vestfjarða hafa undanfarið komist mun meira í kastljós fjölmiðla, kaffistofa og almannaróms. Þaðan endurvarpast baráttan, samkvæmt frumstæðri hegðun pólitíkur, til landsstjórnmála. Eitthvað sem sárlega hefur vantað, en undanfarin tvö ár hefur orðið stigmögnun í umfjöllun fjölmiðla um málefni Vestfjarða. Slíkt er nauðsynlegt, þó umræðuhamurinn geti stundum veðrað mann og gert óálitlegan í einhverjum fínum boðum. Þá er bara að muna eftir voninni,“ skrifar Pétur.  

Kirkjan þarf að eiga samfylgd með þjóðinni – ekki ríkinu

Svo liggur leiðin til biskupsstofu. “Aðstæður í fjölskyldunni kölluðu á breytingar á búsetu. Konan mín er að ljúka magisternám í guðfræði og við hefðum orðið að kljúfa upp fjölskylduna til þess það láta það ganga upp. Það vildum við ekki.

Þegar starf samskiptastjóra Biskupsstofu var auglýst ákvað ég að sækja um. Var valinn úr hópi 26 umsækjenda. Það var mikill áhugi á starfinu enda ljóst að spennandi verkefni væri framundan í stefnumörkun í ásýnd og ímyndamálum kirkjunnar – hvernig kirkjan ætlaði að birtast þjóðinni og þjónusta í framtíðinni.”

Já – nýjungar í starfi Þjóðkirkjunnar

Er nýjunga að vænta í starfi Þjóðkirkjunnar. “Afdráttarlaust Já er stutta svarið. Ég man þegar ég heyrði Agnesi biskup segja við mig í fyrsta skipti kirkjan þyrfti að eiga samfylgd með þjóðinni en ekki endilega ríkinu. Þá vissi ég að verkefnið væri ekki bara spennandi, heldur væri nauðsynleg fyrir framtíð kirkjunnar og ekki síður mikilvægt fyrir þjóðina að eiga atfylgi í þjóðkirkjunni, sem þarf að vera samverkamaður í nýsmíði framtíðarinnar. “Kirkjan á að vera einn af smiðum leikmyndar framtíðarinnar – hamar og nagli uppbyggingar mannsins. Ef henni tekst að verða samtíða þjóðinni á hún góða tíma framundan.”

Andstreymi að undanförnu

“Það er rétt að kirkjan hefur verið í andstreymi undanfarin áratug, jafnvel lengur,” segir Pétur.” Það er vangreining að skrifa það andstreymi á tilvistarbreytingar á eðli mannsins – að maðurinn sé að ganga af trúnni. Það er rangt. Maðurinn er andlega leitandi – hefur verið það og verður um ókomna tíð. Hins vegar er ljóst að ef fólk finnur sig ekki innan kirkjunnar, er ósátt við stofnunina skráir það sig annað. Skellir sér í Sólir út á Granda. Það er mikil breyting sem kirkjan þarf að laga sig að. Kirkjan býr yfir gríðarlegum mannauði og þekkingu á andlegum málum. Kirkjan er fagaðili þegar kemur að sálgæslu sem er grunnþjónusta í velferðarumhverfi mannsins og einnig fagaðili þegar kemur að útförum, síðustu skrefin með ástvinum okkar. Yfir þessu og svo mörgu öðru býr kirkjan og gerir hana að kjölfestu stofnun í íslensku samfélagi. En það er hins vegar ekki sjálfsagt að þessi starfsemi skili sér í jákvæðu viðhorfi landsmanna. Þar kemur inn á mitt hlutverk. Hlutverkið mitt er að aðstoða við stefnumörkun um á hvern hátt þjóðkirkjan ætlar að mæta þjóðinni og eiga með henni samfylgd.”

Kirkjan þarf að halda úti andlegu velferðarkerfi

“Kirkjan verður að starfa með margbreytilegum veruleika samtímans. Tuttugasta öldin fór í að skilgreina og koma velferðarkerfi á fót. Fyrst snerist umræðan um hvort það ætti að vera velferðarkerfi. Svo komust menn á þá niðurstöðu að velferðarkerfi væri grunnþjónusta sem þyrfti að vera til staðar. Núna karpa menn hversu víðtækt kerfið eigi að vera, en tilvist þess og mikilvægi svo til óumdeilt. Ég sé sömu þróun eiga sér stað varðandi trú og andlega leit. Við nálgumst hratt þann umræðu stað að andleg rækt mannsins er grunnþörf – ekki fáfræði fortíðarinnar. En af sama skapi þarf Kirkja að tileinka sér margbreytilega þörf manna til að leita andlegrar upplifunar. Hvort sem það er hámessa eða lágmessa, kyrrðarbæn eða jóga og í raun allt spektrúmið. Ef kirkjan svarar þessu kalli framtíðarinnar er kirkjuvor fram undan. Andstreymið verður saga sem við höldum til haga til  að gleyma ekki. Maðurinn er leitandi vera. Leitin er ein af grunnþörfum mannsins. Henni verður að sinna með andlegu velferðarkerfi rétt eins og öðrum grunnþörfum er sinnt með veraldlegu velferðarkerfi.”

Græna kirkjan og Mannréttindakirkjan – fjölmennustu samtök Íslands á sínu sviði

Pétur segir tvö verkefni hafi fengið mikinn kraft undanfarið, til að skerpa á og efla samfélagshlutverki Kirkjunnar. „Annað þeirra er græna kirkjan. Græna kirkjan snýr að því að kirkjan hefur hlutverki að gegna er varðar umhverfisvernd. Tuttugasta öldin var öld lýðræðisins. Þegar verið var að koma lýðræði á fót í mörgum löndum. Þótt því verkefni sé alls ekki lokið hafa önnur bæst við. Tuttugasta og fyrsta öldin er öld umhverfisins. Vigdís Finnbogadóttir var að því leyti á undan sinni samtíð að planta trjám þegar hún var forseti Íslands. Ef þjóðkirkjan nær takmarki sinu í þessu efni verður hún stærstu umhverfissamtök hér á landi. Mannréttindakirkjan er annað viðfangsefni. Verkefni til að stuðla að mannréttindum og verja grunnréttindi allra einstaklinga og breiða mannréttindahugsjónina sem víðast. Í mínum huga er þetta einfalt. Kirkjan á að vera fjölmennustu umhverfissamtök á Íslandi undir heitinu Græna kirkjan og kirkjan á að vera fjölmennustu mannréttindasamtök Íslands undir heitinu Mannréttindakirkjan. “

Neskirkja, Ægisíða, Vesturbæjarlaugin og KR 

Pétur snýr sér að Vesturbænum. Neskirkja er dæmi um öflugt og gott kirkjustarf í gegnum tíðina. Hún er eitt af einkennum Vesturbæjarins. Eins og KR, Ægisíðan og Vesturbæjarlaugin er hún hornsteinn Vesturbæjarsamfélagsins. Kirkjan er ekki bara Biskupsstofa. Hún er sóknirnar út um allar byggðir. Og nú tala ég eins og sveitarstjórnarmaður. Sveitarstjórnarstigið er ekki bara Samband Íslenskra sveitarfélaga. Stofnun í Reykjavík. Heldur sveitarfélögin um allt land. Við megum ekki einbíla um of á miðlæga stjórnsýslu kirkjunnar. Glæsilegar kirkjur og öflugt félagsstarf um landið allt er kirkjan.

Kirkjan er stofnun með alvöru byggðastefnu

Þjóðkirkjan er stofnun sem rekur raunverulega byggðastefnu. Raðar háskólamenntuðu starfsfólki út á akurinn, í fámennari jaðarbyggðir, jafnt sem fjölmennari byggðakjarna. Jafnvel Byggðastofnun getur ekki státað af því með jafn myndarlegum hætti og Þjóðkirkjan. Kirkjan er líka fræðslu og velferðarstofnun. Fræðsluhlutverkið má rekja við siðbótar Martins Luters. Fræðsluhlutverkið kom með siðbótinni. Kirkjan hefur sinnt því hér á landi. Á fyrri hluta liðinnar aldar voru prestar að kenna konum að lesa dönsku svo þær gætu lesið dönsku blöðin. Víða út um land voru þeir einu háskólamenntuðu einstaklingarnir í byggðarlögunum. Svo voru læknar en þeir sinntu fremur heilbrigðisþjónustunni. Hlutverk prestanna hefur alltaf verið meira og víðtækara en að messa, jarða, gifta, skýra og ferma. Þeir hafa gegnt félagslegu hlutverki á meðal fólksins. Kirkjan þarf að vera kirkja þjóðarinnar. Kirkja fólksins. Hún hefur margvíslegu hlutverki að gegna.”

Hún rúllar þessu upp 

Þetta er kraftmikil framtíðarsýn, er forysta Kirkjunnar nægilega öflug til að láta rætast úr henni. “Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, er fyrsti kvenbiskupinn, fráskilin að vestan. Ef það væri hægt að mæla þykktina á þeim glervegg. Hún hefur sigrað meira krefjandi verkefni vill ég meina. Kirkjan er í sókn undir forystu Agnesar. Hún rúllar þessu upp – ég hef trú á því.”

Sveitarstjórnarmálin eru ekki að baki

En hvað með sveitarstjórnarmálin, eru þau að baki? “Nei, alls ekki. Ég er mikill umbótasinni eins og ég kom að áðan og hugsa lífið í verkefnum. Núna er ég í miðju verkefni, það gengur vel og mun skila sér í öflugri kirkju og öflugra samfélagi er ég handviss um. Mikil forréttindi að fá að tilheyra slíku. Svo er það bara næsta verkefni. Ég bý allavega í Hafnarfirðinum og hef skotið þar rótum. Einstakt samfélag þar sem börnin mín munu vaxa úr grasi.”

You may also like...