Melaskóli sprunginn
Melaskóli er sprunginn. Skólahúsnæðið nær ekki lengur að þjóna þeim tilgangi að hýsa nemendur, kennara og skólastarfið á Melunum. Sturtuaðstaða er slæm, mötuneytið er of lítið og stólar og borð eru 68 ára gömul. Þetta kom m.a. fram á kynningarfundi um húsnæðismál og aðbúnað í Melaskóla sem haldinn var nýlega. Fjölmargir foreldrar barna í skólanum mættu á fundinn sem haldinn var og fulltrúar borgar-innar voru einnig á staðnum.
Í máli Dagnýjar Annasdóttir skólastjóra Melaskóla kom fram að skólayfirvöld hafi óskað eftir formlegri úttekt á skólanum og þegar komi að aðbúnaði og húsnæðismálum sé fyrsta forgangsatriðið að endurnýja stóla og borð sem séu orðin allt að 68 ára gömul húsgögn og í slæmu ástandi. Hún ræddi einnig um að málning í skólastofum séu orðin „ansi fátækleg“ og þriðja forgangsatriðið sem hún nefndi voru gamlar og illa farnar snyrtingar. Hún sagði að stöðugt fjölgaði nemendum við skólann og væri hann nú orðinn fjölmennasti grunnskólinn í borginni. Agnar Guðlaugsson, deildarstjóri byggingadeildar umhverfis og skipulagssviðs borgarinnar var á fundinum og útskýrði hann að hans deild sjái helst um viðhald fasteigna. Sagði hann foreldrum frá því að nú væri búið að taka út alla leikskóla í Vesturbænum og að grunnskólarnir séu næstir á dagskrá. Hann sagði að markmiðið væri að setja fyrst á dagskrá allt sem talist geti hættulegt. Síðast var málað í Melaskóla sumarið 2008 og vegna niðurskurðar í viðhaldi fasteiga borgarinnar hafi málning við skólann ekki enn komist á dagskrá. Á fundinum kölluðu margir foreldrar eftir heildarsýn yfir vandamál skólans sem einkennast af plássleysi. Ekki sé hægt að bæta endalaust við nemendum án þess að gera neitt í húsnæðismálum. Í máli Daníels Benediktssonar verkefnastjóra fasteigna- og búnaðarmála hjá Skóla- og frístundarsviði Reykjavíkurborgar kom fram að Melaskóla verði tekin fyrir hjá skóla- og frístundarsviði innan skamms og beiðni um bættan aðbúnað rædd þar. Nefndi hann að nú væri jafnframt óskað eftir þremur kennslustofum en sé ekki vitað hvar þær eiga að vera og hvort það sé önnur lausn í boði en að fjölga stofum. Ljóst var á fundinum að margir foreldrar eru óþreyjufullir eftir því vanda að skólans verði veitt athygli og hafist verði handa um áætlun til þess að bæta úr ástandi hans.