Sendiherraverkefnið virkjar innflytjendur

Beniamin Alin sendiherra rúmenskumælandi fólks í Breiðholti.

Sendiherraverkefnið er áhrifaríkt verkefni á vegum Þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Í verkefninu er lögð áhersla á að skapa vettvang fyrir samstarf við fólk af erlendum uppruna innan hverfisins. Markmiðið með þessu er að tengja erlenda íbúa betur við hverfið, tryggja betri upplýsingamiðlun til þeirra og efla aðgengi að upplýsingum. Einn af sendiherrunum er Beniamin Alin, en hann er sendiherra rúmenskumælandi fólks. Blaðamaður Breiðholtsblaðsins hafði samband við Beniamin og bað hann um að segja okkur meira um sendiherraverkefnið og sjálfan sig í leiðinni. 

Beniamin er fæddur og uppalinn í Timisoara, höfuðborginni í Timis sýslu í Rúmeníu. Hann lauk þar námi í menntaskóla og fór eftir það í hermennskunám sem varði í eitt ár. Hann hefur búið á Íslandi í sautján ár og býr núna í Breiðholti. Hann er sendiherra rúmenskumælandi fólks hér á landi og er einnig lærður þjálfari og dómari í knattspyrnu. Beniamin talar þrjú tungumál; rúmensku, ensku og íslensku. Ásamt því að sinna sendiherrastarfinu er hann einn af stofnendum Félags Rúmena á Íslandi, eða Asociasia Romania Nordica Islanda, og stofnandi fótboltaliðs sem skipað er Rúmenum, Íslendingum og fólki af fleiri þjóðernum.

Spurður út í fæðingarstað sinn segir Beniamin: „Timisoara er 350.000 manna borg með mikið menningarlíf og hefur stundum verið kölluð Blómaborgin.“ Gælunafnið á að hans sögn uppruna sinn í því hversu mikið er af almenningsgörðum og grænum svæðum í borginni. Beniamin flutti til Íslands árið 2004. „Ég flutti til Íslands tuttugu og fjögurra ára gamall, eftir að ég hitti konuna mína sem er frá Íslandi. Hún bjó um hríð í Rúmeníu og var að vinna þar í hjálparstarfi og í kirkju sem ég var að vinna fyrir sem túlkur. Þar kynntumst við og ákváðum síðan að koma til Íslands,“ segir Beniamin.

Frá Timisoara í Rúmeníu heimaborg Beniamin Alin.

Reynum að upplýsa fólk um réttindi sín

Beniamin hefur myndað gott tengslanet í sínum menningarhópi sem hann nýtir í starfi sendiherra. Þetta hefur hann meðal annars gert með því að stofna fótboltaliðið sem fyrr er nefnt. „Verkefnin sem ég var að vinna í núna síðastliðinn vetur og sumar var að stofna fótboltalið með Rúmenum, Íslendingum og fleirum. Liðið er núna að taka þátt á Íslandsmóti í 4. deild,“ upplýsir Beniamin.

Ásamt þessu verkefni hefur hann stofnað félag Rúmena á Íslandi með nokkrum öðrum: Asociația Romania Nordica Islanda. „Við vorum fimm saman sem stofnuðum félagið árið 2019. Við erum fjögur núna eftir af stofnendum og erum öll jöfn, við vinnum saman í hlutunum sem við þurfum að gera, eins og að skipuleggja ferðir og hittinga. Við reynum að upplýsa fólk um allt sem tilheyrir innflytjendum og um réttindi sín.“ 

Passa upp á réttindi Rúmena

Er eitt af markmiðunum í félaginu að passa upp á réttindi rúmenskra hérlendis? spyr blaðamaður.

„Já, þess vegna stofnuðum við þetta félag“, svarar Beniamin, „til að hjálpa fólki frá Rúmeníu. Það er markmiðið okkar og við, þessi fjögur sem erum eftir, erum búin að búa hér lengi. Við vitum hvernig er að vera ný í landinu og vita ekki mikið um lög og réttindi og fleira.“ Beniamin bætir við að allt sem félagið hafi upp á að bjóða sé gjaldfrjálst og að ekki sé rukkað fyrir þjónustuna sem er í boði. Hann vill leggja áherslu á að fólk frá Rúmeníu fái betri upplýsingar en nú er og eigi auðveldara með að aðlagast lífinu hér. Ásamt því segir Beniamin að bæði fótboltaliðið og félag Rúmena á Íslandi hafi hjálpað honum í starfi sendiherra: „Ég kynnist fólki og vandamálunum sem þau ganga í gegnum. Fólk spyr alls konar spurninga og er kannski að hringja í mig og önnur í félaginu. Þannig kynnumst við fólki. Að öðru leyti er það bara facebook og reyna koma upplýsingum frá okkur á framfæri.“

Markmiðið er að koma í veg fyrir einangrun

Aðspurður um stærstu áskoranirnar hvað varðar menningarmismun svarar Beniamin að Rúmenar sæki mikið í félagsskap en finni ef til vill fyrir einangrun þegar þeir flytji til Íslands. Veðrið geti átt sinn hlut að máli. „Fólk frá Rúmeníu er vinalegt og leggur mikið upp úr því að læra tungumálið og aðlagast nýrri menningu. Ég hugsa bara um hvernig ég var, þegar ég kom hingað fyrst. Ég var svolítið einmana og þurfti að finna mér eitthvað fólk, einhverja vini, eitthvað að gera  – annars er maður bara heima út af veðrinu.“ Þegar Beniamin flutti til landsins voru að því er hann telur einungis um fimmtán til tuttugu manns af rúmensku bergi brotnir á landinu. “Núna eru mörg hundruð.” Hann segist sjá á facebook og í gegnum félagið að þau sem komi hingað þekki og hitti aðra. “Þetta er mikill munur og fólk hittist oftar”, segir hann. “Sendiherraverkefnið hefur meðal annars það markmið að virkja innflytjendur í samfélaginu. Ég er ekki búinn að gera neitt hingað til í sambandi við þetta en þetta er eitt markmið, að hjálpa þeim sem koma hingað til Íslands með upplýsingum, láta þeim líða vel og vera virk í samfélaginu, og taka þátt.“ 

Þórhildur Vígdögg Kristínardóttir.

You may also like...