Seltirningabók nú ókeypis á netinu

Rafraen SeltirningabokÍ tilefni af 40 ára kaupstaðarafmæli Seltjarnarnesbæjar á þessu ári samþykkti bæjarstjórn að ráðast í rafræna útgáfu Seltirningabókar eftir sagnfræðinginn Heimi Þorleifsson en bókin hefur verið ófáanleg um alllangt skeið.

Aðgangur að bókinni verður öllum að kostnaðarlausu en hún verður aðgengileg frá og með fimmtudaginum 20. nóvember um það leyti sem rithöfundur bókarinnar hefði orðið 77 ára. Heimir var fæddur 22. nóvember 1936 og lést um mitt síðasta ár. Í bókinni er að finna mikinn fróðleik um þróun mannlífs og sveitarstjórnar í ört vaxandi byggð, en bókinni er skipt upp í sex meginhluta. Sá fyrsti fjallar einkum um landamerki og sveitarstjórn, annar um landsvæði núverandi kaupstaðar, þriðji um útgerð, fjórði um skólahald, fimmti um félagsstarfsemi á Nesinu og sjötti um kirkjuhald. Í bókarlok eru rækilegar heimilda-, mynda- og nafnaskrár.

Heimir var mikilvirkur höfundur fræðirita og kennslu-bóka í sagnfræði. Hann flutti útvarpserindi og þætti, skrifaði fjölda greina í blöð, tímarit og safnrit um söguleg efni. Hann gerðist kennari við Menntaskólann í Reykjavík 1961 og var deildarstjóri í sögu og félagsfræði við skólann til 1994. Heimir lét sig miklu varða sögulega geymd umhverfis, muna og heimilda og beitti sér sérstaklega fyrir slíkum verkefnum í heima-bæ sínum Seltjarnarnesi. Það var Guðmundur Einarsson sem bjó bókina í rafrænt form en fyrirtækið Snara ehf. hýsir bókina.

 

You may also like...