Hvatamenn að samgöngusamningi

Hvatamenn

Ásta Vilhjálmsdóttir og Borghildur Hertvig grunnskólakennara.

Fastráðnir bæjarstarfsmenn á Seltjarnarnesi fá nú mánaðarlegar greiðslur vegna kostnaðar við samgöngur og frítt í sundlaug og bókasafns bæjarins. Þessi kjarabót bæjarstarfsmanna var samþykkt á fundi bæjarráðs fyrr í þessum mánuði. Með framtakinu boðar Seltjarnarnesbær kjarabætur til handa starfsmönnum og stuðlar um leið að bættri lýðheilsu- og umhverfisvitund auk menningarlegrar upplifunar þeirra. Samkomulagið tekur gildi frá og með 1. janúar 2015 og gildir út árið.

Það voru þær Ásta Vilhjálmsdóttir og Borghildur Hertvig grunnskólakennarar á Seltjarnarnesi sem voru hvatamenn að því að bæjaryfirvöld ákváðu að gefa öllum starfsmönnum bæjarins kost á að undirrita samgöngusamning og öðlast starfstengd hlunnindi, sem fela í sér umtalsverðar kjarabætur frá og með 1. janúar 2015. Blaðamaður Nesfrétta hitti kennarana og brautryðjendurna Ástu og Borghildi í bókasafni Mýrarhúsaskóla á dögunum. Þær Ásta og Borghildur afhentu Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra undirskriftarlista með um 60 nöfnum starfsfólks Grunnskóla Seltjarnarness um miðjan október en söfnun undirskrifta hafði staðið yfir í um það bil tvær vikur. Þær segja að umræður um samgöngusamninginn hafi komið upp af og til en að þær hafi látið til skarar skríða í haust með þessum óvænta og ánægjulega árangri. Báðar hafa þær um árabil gengið eða hjólað í vinnuna og þekkja til þess að samgöngusamningar eru við lýði hjá fyrirtækjum í einka- og opinbera geiranum.

Vistvænar samgöngur

Markmið samgöngusamningsins er að hvetja starfsfólk Seltjarnarnesbæjar til að nota vistvænan og hagkvæman ferðamáta. Slíkur samningur er hvatning til að bæta umhverfið, bæjarbraginn og stuðla að góðri heilsu starfsfólks bæjarins og annarra. Samgöngusamningurinn felur í sér að starfsmenn bæjarins noti vistvænar samgöngur til og frá vinnustað í a.m.k. 80% tilvika. Þeir starfsmenn, sem undirgangast samgöngusamninginn, fá mánaðarlega greiddar óskattlagðar 4.500 krónur en upphæðin getur einnig nýst sem mánaðarleg greiðsla upp í árskort hjá Strætó. Þá gefst starfsmönnum einnig kostur á ókeypis aðgangi í Sundlaug Seltjarnarness og fá bókasafnskort hjá Bókasafni Seltjarnarness þeim að kostnaðarlausu.

Hjóla hvernig sem viðrar

„Ég bý á Ránargötunni og hjóla hvernig sem viðrar,“ segir Ásta. „Áður kem ég við í Sundlaug Vesturbæjar og fæ mér sundsprett og hjóla svo út á Nes. Nú þegar kortið mitt er að renna út þar þá breyti ég rúntinum og fer í Sundlaug Seltjarnarness í staðinn, þannig að þetta er umtalsverð kjarabót fyrir mig. Ég var að fá mér nagladekk undir hjólið mitt í fyrsta skipti og það gerir gæfumuninn. Mér finnst mjög endurnærandi að geta ferðast á þennan hátt og forðast að nota bílinn minn í lengstu lög. Ég set ekki rysjótta tíð fyrir mig, í mínum huga er hún áskorun. Þar að auki eru strætósamgöngur frekar óhagstæðar fyrir mig og ef ómögulegt er að hjóla þá geng ég frekar.“ Borghildur býr á Nesinu og segist alltaf hafa gengið til vinnu líka þegar hún vann við bankastörf á Hótel Sögu. „Mér finnst líka skipta máli að vera góð fyrirmynd,“ segir Borghidlur. „Við erum grænfánaskóli og mér finnst mikilvægt að við starfsfólk skólans göngum á undan með góðu fordæmi og notum umhverfisvæna samgöngumáta. Börnin taka eftir því ef við erum á hjólum og gangandi og tala um það. Líkt og Ásta hef ég þurft að bregðast við erfiðri færð og því eru mannbroddar orðinn staðalbúnaður hjá mér. Maður er vel vaknaður þegar maður mætir til vinnu eftir hressandi útiveru og svo má ekki gleyma því að þetta er ekki síður andleg líkamsrækt en líkamleg.“ Ásta bætir við að það sem hafi vakið hana til meðvitundar um umhverfisvænni lífsstíl er ádeila sem hún las eftir ungan mann sem sagði að þeir sem væru sífellt að predika um umhverfisvænan lífsstíl væru sístir til að uppfylla hann. Keyrandi í líkamsræktina, hlaupandi á bretti sem gangi fyrir rafmagni í stað þess að nota umhverfisvænar samgöngur. Lesning vakti hana til umhugsunar og hún sneri við blaðinu og sér ekki eftir því.

Góð viðbrögð samstarfsfólks

Ásta og Borghildur nefna að þær séu sérstaklega ánægðar með hversu Ásgerður bæjarstjóri tók vel á móti þeim og hversu skjóta afgreiðslu málið fékk hjá bænum og bæjarstjórn. „Einnig voru viðbrögð samstarfsfólks okkar afar góð og við getum bara glaðst yfir því að hafa komið þessu góða málefni til leiðar,“ segja hinir kraftmiklu og úrræðagóðu kennarar að lokum áður en þær hlaupa í næstu kennslustund.

You may also like...