Fjölbreytt sýning félagsstarfsins á Aflagranda
Handverkssýning félagsstarfsins á Aflagranda var haldin á dögunum. Að venju var þetta uppskeruhátíð félagsstarfsins en einnig kynning á þeirri dægradvöl og félagsskap sem íbúum hverfisins býðst.
Á sýningunni kenndi margra grasa. Verk af ýmsum toga voru til sýnis enda félagsstarfið fjölbreytt að þessu leyti. Fólk fæst við eitt og annað í höndunum allt frá listsköpun til hefðbundinnar handavinnu. Fjölmargir nýta sér þá aðstöðu og þjónustu sem félagsstarfið býður og vitað er að margir fleiri íbúar í hverfinu gætu nýtt sér „sælureit“ sem þennan en gera ekki af ýmsum ástæðum. Sumir vita ef til vill ekki af starfinu eða í hverju það felst og öðrum finnst að þeir þurfi að stíga yfir eins konar innri þröskuld til þess að koma. Stundum hefur þess misskilnings gætt að félagsstarfið sé eingöngu fyrir þá sem oft eru nefndir heldri borgarar – fólk sem komið er að starfsloka- og eftirlaunaaldri en í því felst mikill misskilningur. Félagsstarfið er fyrir alla og að undanförnu hefur borið á því að mæður í fæðingarorlofi hafi notfært sér starfið og þá gjarnan haft börnin með sér.