Róið á Nauthólsvíkinni
Félagar í Strandróðrafélaginu Brandi róa á Nauthólsvíkinni á færeyska sexæringnum Svani og hafa gert undanfarin sumur.
Strandróðrafélagið Brandur var stofnað af Vesturbæingum og flestir félagsmenn búa í Vesturbænum. Félagar í Brandi hafa tekið bæði Svan og einnig Skálabátinn sem hefur uppsátur við grásleppuskúrana við Ægisíðu að sér og hafa annast um viðhald á Svani eða dittað að honum eins og stundum er sagt. Til þessa hefur eingöngu verið róið um Nauthólsvíkina og félagarnir æft áralag og bætt tækni sína. Reykjavíkurborg hefur veitt róðrarfélaginu góðan stuðning og aðstöðu í Nauthólsvík auk aðstöðu til þess að geyma bátinn undir þaki. Svanur er í eigu Skúla Guðbjarnarsonar en hann Skúli áformaði að bjóða túristum upp á róðra frá Ægisíðunni en hann flutti af landi burt áður en af því varð og býr nú í Noregi. Engin útgerð eða ferðaþjónusta er því við Skúrana við Ægissíðuna.
Myndasmiður Ólafur Hauksson.