Drafnarborg 65 ára
Leikskólinn Drafnarborg er 65 ára og var afmælið 13. október sl. Drafnarborg hlaut einnig grænfánann í þriðja sinn þannig að segja má að tvíheilagt hafi verið. Dvergasteinn átt einnig afmæli en 17 ár eru frá því að hann tók til starfa. Drafnarborg tók til starfa 13. október 1950 og er fyrsti leikskólinn sem opnaður var í húsnæði sem byggt er sérstaklega fyrir leikskólastarf við Drafnarstíg og teiknaður af Þór Sandholt arkitekt síðar skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík.
Barnavinafélagið Sumargjöf annaðist rekstur í upphafi eða til ársins 1987 þegar Reykjavíkurborg tók við rekstri hans. Drafnarborg var í byrjun þriggja deilda leikskóli með börnum í hálfsdagsvistun en fyrirkomulagi hans var breytt árið 1995 þegar byggt var við húsið og síðan hefur leikskólinn verið tveggja deilda með börnum í blandaðri vistun. Fyrsta forstöðukona Drafnarborgar og síðar leikskólastjóri var Bryndís Zoëga og gegndi hún því starfi til 1991 eða í 41 ár. Bryndís var fyrst Íslendinga til að nema leikskólakennarafræði en hún útskrifaðist frá Fröbel Höjskole í Kaupmannahöfn árið 1939 og er mörgum Vesturbæingum sem komnir eru á miðjan aldur vel kunn. Glatt var á hjalla í Drafnarborg þegar afmælinu var fagnað. Foreldrum var boðið til veislu. Farið var yfir sögu skólans börnin sungu fyrir gesti. Árið 2011 voru leikskólarnir Drafnarborg og Dvergasteinn sameinaðir í einn rekstur og undir eina stjórn. Leikskólinn er því sex deilda í þremur húsum með 122 börnum samtímis. Leikskólastjóri sameinaðs leikskóla er Elín Mjöll Jónasdóttir og aðstoðarleikskólastjóri er Halldóra Guðmundsdóttir.