Allt að 500 nýjar íbúðir í Breiðholti á skipulagstímabili

Árskógar

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir árin 2010 til 2030 sem var samþykkt í borgarstjórn þann 26. nóvember 2013 er gert er ráð fyrir talsverðum byggingaframkvæmdum í Breiðholti. Þar á meðal er gert ráð fyrir nýrri lágreistri íbúðarbyggð með allt að 50 íbúðum á opnu svæði austan við Suðurfell og nokkurri þéttingu byggðar í suður Mjódd og einnig á efri hæðum verslunar- og þjónustuhúsa við Fellagarða og Blöndubakka.

Þá er gert ráð fyrir íbúðum við Suðurhóla og Hólaberg/Gerðuberg. Áætla má að um sé að ræða um 500 nýjar íbúðir og allt að 45.000 fermetra atvinnuhúsnæðis á skipulagstímabilinu. Í hverfisskipulagi verða þéttingarmöguleikar kannaðir frekar en í aðalskipulaginu er aðeins sett bindandi stefna fyrir reiti sem gera ráð fyrir fleiri en 50 almennum íbúðum eða sambærilegri uppbyggingu. Gert er ráð fyrir möguleikum á um 50 íbúðum við Fellagarða þar sem verslanir og þjónusta verða á fyrstu hæð húsa en íbúðir heimilar á efri hæðum. Við Suðurhóla er gert ræða fyrir íbúða byggð – einkum fyrir eldri borgara auk opins svæðis eða svæði tengt íþróttastarfsemi. Í skipulaginu er gert ráð fyrir hverfiskjarna með fjölbreyttri þjónustu við Gerðuberg. Kjarna með verslun, stofnunum og félagsstarfsemi fyrir íbúa hverfisins og borgarhlutans, auk íbúða og opins svæðis auk þess sem veitingastaðir í flokki I og II verða heimilir. Á svæðinu eru nú þegar nýbyggðar 49 íbúðir fyrir eldri borgara í samtengdum húsum á tveimur til þremur hæðum ásamt bílageymslukjallara. Íbúðirnar tengjast með beinum hætti félagsþjónustu í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi.

Íbúðir við Suðurfell og Arnarbakka

Á svæðinu austan við Suðurfell, sem nú er opið svæði til sérstakra nota má gera ráð fyrir lágreistri sérbýlishúsabyggð á um fjögurra hektara svæði, fyrir um 40 til 50 íbúðir á einni til tveimur hæðum þar sem yfirbragð byggðarinnar taki mið af jaðarbyggð hverfisins. Við Arnarbakka er áformað að taka svæði sunnan götunnar þar sem nú er opið svæði til sérstakra nota. Það svæði má mögulega nýta fyrir sértækar íbúðir á borð við sambýli, húsnæði fyrir aldraða eða þjónustu í þágu hverfisins. Gert er ráð fyrir að byggðin verði lágreist, ein til tvær hæðir, sem fellur vel að útivistarsvæðinu. Við Raufarsel þar sem upphaflega var ætluð kirkjulóð má gera ráð fyrir 10 tveggja hæða sérbýlishúsum.

Ýmsar framkvæmdir og fjölgun íbúða í Mjóddinni

Þá er komið að lokakaflanum í aðalskipulega Reykjavíkur þar sem fyrst má vænta framkvæmda en það er suður Mjóddin. Gert er ráð fyrir atvinnulóðum allt að 30 þúsund fermetrum með fram Álfabakka. Þar verði um atvinnuhúsnæði á bilinu fimm til sjö hæðir að ræða en skipulagið gerir ekki ráð fyrir íbúðabyggð. Hins vegar er gert ráð fyrir að stækka íbúðasvæðið við Árskóga um einn hektara þar sem byggja megi um eitt hundrað íbúðir fyrir eldri borgar í allt að fjögurra hæða húsum. Skipulagið gerir einnig ráð fyrir að styrkja beri norður Mjóddina og svæðið þar í kring með þéttingu og að þar verði blönduð byggð. Gera má ráð fyrir allt að 100 til 200 íbúðum auk um 30 þúsund rúmmetra verslunar- og þjónustuhúsnæðis.

You may also like...