Kaffiboð Tryggva á Skólavörðustígnum
Kaffiboð Tryggva er yfirskrift sýningar sem fimm myndlistarmenn opnuðu hjá Ófeigi á Skólavörðustíg í desember mánuði. Listamennirnir eru Eyjólfur Einarsson, Haukur Dór, Sigurður Þórir, Sigurður Örlygsson og Sigurjón Jóhannsson en heiti sýningarinnar er kennt við Tryggva Ólafsson listmálara sem er upphafsmaður að þessum sýningum.
Auk framlags myndlistarmannanna las Ólafur Gunnarsson rithöfundur upp úr nýrri skáldsögu sinni Syndaranum. Listamennirnir eru á sambærilegum aldri og hafa þekkst mjög lengi. Þeir voru nær allir samtímis í Kaupmannahöfn fyrir um hálfri öld og numu sumir á sama tíma hjá listaakademíunni þar í borg. Tengsl þeirra má rekja aftur til þess tíma að þeir hittust reglulega með mis formlegum hætti eins og listamönnum er títt. Eftir að Tryggvi flutti heim frá Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum, en hann dvaldist þar mun lengur en hinir endurvakti hann þann sið að hittast og hefur boðið þessum hópi myndlistarmanna og einnig rithöfundum til þess að hittast, sýna myndverk og lesa úr skáldverkum en kannski fyrst og fremst að segja sögur. Vesturbæjarblaðið leit við á Skólavörustígnum á opnunardegi sýningarinnar.