Spólgleði veldur reiði í Vesturbænum
Vorið er jafnan tími bílaáhugamanna og þá líta ýmiskonar fákar þeirra dagsins ljós á götum borgarinnar. Á meðal þeirra eru menn sem hafa sérstaka ánægju af því að láta bílana spóla með góðri inngjöf á malbiki svo mikil hljóð myndast þegar gúmmíið í hjólbörðunum nuddast við þurrt malbikið. Þessu fylgir einnig kapp um hver kemst fyrstur í mark þótt kappakstur sé ekki alltaf fylgifiskur spólaranna.
Spólararnir fara jafnan af stað á kvöldin þegar önnur umferð er að mestu hljóðnuð til þess að eiga göturnar einir. Hávaði og óhljóð sem þessu fylgja falla ekki alltaf og reyndar sjaldnast í kramið hjá íbúum borgarinnar sem margir hverjir eru að ganga til náða eða gengnir um það leyti sem drunur vélfákanna og spólískur hefjast. Einkum hefur þessi hávaði pirrað íbúa Vesturbæjarins að undanförnu þótt víðar hafi verið spólað. Hefur lögregla þurft að hafa afskipti af ökumönnum sem haldið hafa vöku fyrir íbúum vestasta bæjarhluta og hefur reiði blossað upp á meðal íbúa sem tjá sig um málið á samfélagsmiðlum. Þar segir að ökumenn haldi vöku fyrir fólki og spóli og spyrni víða um hverfið. Kjartan Magnússon, borg-arfulltrúi er einn þeirra sem hefur tjáð sig um málið. Hann segir þetta hafa gerst reglulega í mörg ár og íbúar standi ráðalausir gagnvart því. Einkum hefur þetta verið vandamál á hinu nýuppbyggða verslunar- og þjónustusvæði í Ánanaustum og Örfirisey. Lögreglan hefur reynt að fylgjast með þessu og sendi hún bíl á svæðin þar sem spólið fer fram slái það á akstursgræðgi ökuþóranna um stund en allt fari í sama farið þegar hún hverfur á braut. Því miður hefur lögreglan ekki nægilegan mannafla til þess að fylgjast með þessu eins og greinilega þarf. Akstursíþróttir eru viðurkenndur hluti af íþrótta- og keppnislífi en eiga rétt eins og önnur íþróttaiðkun að fara fram á sérstökum svæðum sem til þess eru ætluð en ekki á umferðargötum í þjónustu- og íbúðahverfum.