Knattspyrnuhús og fegrun Mjóddarinnar

Mjodd 10 1

Fegrun umhverfis Mjóddarinnar í Breiðholti var eitt þeirra verkefna sem Breiðhyltingar lögðu áherslu á í kosningunni um Betri hverfi sem er nýlokið. Önnur hugmynd sem sett var fram var að bæta aðstöðu við tjörnina í Seljahverfi, setja upp borð og bekki og fegra svæðið sem heild. Stígar og leiksvæði voru einnig oft nefnd í kosningunni og má nefna gúmmímottur og ungbarnarólur í því sambandi og einnig að setja upp hjólagrindur við valda leikvelli. Knattspyrnuhús á ÍR svæðinu er langvinsælasta óskin hjá Breiðholtsbúum í Betri Reykjavík.

Mjög góð stemning var í Breiðholti fyrir kosningunni um Betra enda settu Breiðhyltingar markið hátt og ætluðu sér strax að rjúfa 100 hugmynda múrinn. Engin takmörk voru á fjölda þeirra hugmynda sem hver og einn gat sett inn auk þess sem allir gátu sett inn hugmyndir í fleiru en einu hverfi. Á meðal hugmynda sem settar voru fram voru útigrill, ruslatunnuskrýmsli, fjölskyldusvæði, bókasafn, brosandi umferðarljós, lagfæringar á göngustígum, blak- og tennisvöllur, körfuboltavöllur, hringtorg, gangbraut, íþrótta- og leikjaparadís, lagfæringar á girðingu, planta trjám, styttur og margt fleira. Í Breiðholti er öflugt hverfastarf með áherslu á samskipti kynslóðanna og fjölbreytni mannlífsins. Alls eru 450 milljónir til framkvæmda á þeim hugmyndum sem koma inn í ár og er það veruleg hækkun frá fyrri árum þegar 300 milljónir voru til ráðstöfunar. Af þeim renna 69.957.904 kr. til Breiðholtsins sem hlýtur hæstu upphæðina að þessu sinni.

You may also like...