Ólst upp í Gróttu

Elías 1

Elías Árnason á góðviðrisdegi í garðinum heima á Kaplaskjólveginum.

Elías Árnason bifreiðarstjóri með meiru ólst upp í Gróttu ásamt systkinum sínum Gunnlaugi og Guðrúnu Ester fyrstu ár ævi sinnar. Foreldrar hans voru Árni Elíasson og Fanney Gunnlaugsdóttir en Árni starfaði um tíma sem aðstoðarvitavörður og hafði þá aðsetur í Gróttu ásamt Jóni Albert Þorvarðarsyni vitaverði þar til margra ára. Elías spjallar við Nesfréttir að þessu sinni og rifjar meðal annars upp bernskuna í Gróttu, hernámsárin á Nesinu, leigubílaakstur í Reykjavík og fleira.

„Ég var um hálfs árs þegar við fluttum út í Gróttu,“ segir Elías þegar hann var sestur með tíðindamanni í einu af hornum bókasafnsins á Seltjarnarnesi á dögunum. „Faðir minn fékk þá starf hjá vita- og hafnarmálum sem aðstoðarvitavörður og var staðsettur út í Gróttu þótt hann sinnti fleiri störfum og vann meðal annars að byggingu Þormóðsskersvita sem er á Þormóðsskeri fyrir utan Mýrar á Borgarfirði. Í Gróttu ólumst við upp fyrstu árin en þegar kom að því að við krakkarnir áttum að fara í skóla urðu foreldrar okkar að flytja í land. Skólatíminn passaði ekki alltaf við flóð og fjöru sem þurfti að sæta til þess að komast úr Gróttu í land. Þetta þýddi að faðir minn varð að skipta um starf þar sem starfið við vitann og vitamálin byggðust á búsetu í Gróttu. Við fluttumst þá inn í Bygggarða og bjuggum þar fyrst um sinn en færðum okkur innar á Nesið þegar tækifæri gafst.“

Gat ekki platað kálfinn

„Í Gróttu bjuggum við á annarri hæðinni í vitavarðarhúsinu en Albert á fyrstu hæðinni. Foreldrar mínir voru með smá búskap. Faðir minn var með tvær kýr og það var heyjað í Gróttu og líka út í Engey og heyið flutt á bát yfir í Gróttu. Ég fékk stundum að fara með á bátnum út í Engey þegar verið var að heyja. Ég man að einhverju sinni var ég settur við lundaholu og sagt að sitja og grípa lundann þegar hann færi úr holunni. Auðvitað var enginn lundi þar enda varptíminn liðinn en þetta var aðferð til að fá mig til þess að vera um kyrrt og fara mér ekkert að voða á meðan faðir minn var að slá eða hirða. Eitt sumarið var kálfur með kúnum í Gróttu og við urðum ágætis leikfélagar. Í minningunni var stór heybólstur eins og það var kallað þegar búið var að þurrka heyið og bera það saman og ég lék mér við að láta kálfinn elta mig í kringum bólsturinn. Svo stakk ég hann af og skreið upp á bólsturinn og horfði niður á kálfinn halda áfram að hlaupa í hringi. En hann var ekki eins vitlaus og ég hélt og þetta endaði með því að hann kom til mín upp á heyið og lagðist við hliðina á mér. Ég gat greinilega ekki platað hann.“

Arni-2

Foreldrar Elíasar þau Árni Elíasson og Fanney Gunnlaugsdóttir. Þau giftu sig 11. nóvember 1933 og haldið var veglegt demantsbrúðkaup þeirra 11. nóvember 1993. Þau voru síðasta fólkið sem bjó í Gróttu fyrir utan Jón Albert Þorvarðarson.

Draugasaga úr Gróttu

Elías segir árin í Gróttu hafa verið sérstök og athyglisvert að hafa alist þar upp fyrsta æviskeiðið. „Þar skiptu samskiptin við sjóinn og einnig búskapinn mestu. En þar virtist einnig vera nálægð við fleira. Ég veit ekki hvort ég á að kalla það draugasögu en eitt sinn varð ég var við sýn sem eftir á að hyggja virðist hafa verið framliðinn maður. Faðir minn var að mjólka og ég með honum í fjósinu þegar ég var var við að hár og grannur maður í gráum fötum fór út í hlöðuna og ég krakkinn á eftir honum en þá hvarf hann sjónum mínum. Um kvöldið fór ég að segja foreldrum mínum frá þessu. Móðir mín spyr mig nánar út í útlit mannsins og þá kemur lýsing mín heim og saman við lýsingu á bróður hennar sem hafi drukknað þrem dögum áður. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á þetta en sýnina bar fyrir mig svo vel að ég gat lýst henni fyrir foreldrum mínum og þau fundið henni samastað í bróður móður minnar. En nú eru ekki kýr í Gróttu og engin hlandfor. Fjósið og hlaðan hafa fengið nýtt hlutverk og eru orðin að menningarsetri og bátaskýlið klúbbhús. Jú – ég man vel eftir Albert,“ segir Elías aðspurður. „Ein minningin um hann er tengd bát sem hann smíðaði þegar hann var 14 ára. Þannig var að norðaustan við Gróttu var lítil laut sem sjór féll inn í þegar stórstreymt var. Það gat verið nóg til þess að þessi litla skekkta flaut. Hún var mjög völt og ekki til sjóferða á miklu dýpi en Albert fór stundum með hana út á þessa litlu tjörn sem stundum myndaðist og leyfði okkur bræðrunum að leika okkur. Þar lærðum við áralagið og þetta var sjómennska sem við nutum í skjóli Alberts.“

Nammið kom með hernum

Elías man vel eftir hernámsárunum. „Já ég man komu hersins og hernámsárin á Nesinu. Herinn hafði aðsetur á Valhúsahæðinni og víðar á Seltjarnarnesi. Hermennirnir gengu mikið um – voru í eftirlitsferðum og fóru gjarnan hringinn á Nesinu. Sumir gáfu sig að okkur og voru vingjarnlegir. Ég man sérstaklega eftir einum. Hann var kallaður Bob. Sennilega styttingu úr lengra nafni. Hann gaf okkur stundum súkkulaði. Ég man líka eftir að við fundum kassa við Gróttu sem rekið hafði að landi. Þegar hann var opnaður var hann fullur af Baby Ruth sælgæti innpökkuðu í vaxpappír. Nokkru sem við krakkarnir höfðum varla séð. Þetta var aldeilis veisla en móðir okkar tók kassann í sína vörslu og vildi skammta okkur. Svo fann ég annan samskonar kassa. Ég ætlaði ekki að láta nein vita af þeim fundi og sitja einn að góssinu svo ég faldi hann út í hlöðu. Ég var nokkuð duglegur að vitja hans þegar aðrir sáu ekki til og svo fór móðir mín að veita því athygli að ég var orðin lystarlítill og gekk á mig hvað ég væri að borða. Kannski hefur hana grunað eitthvað og ég varð að viðurkenna tilvist kassans og koma með hann inn. En þetta var mikið nýnæmi fyrir krakka á þessum tíma. Nammið kom með hernum.“

Á efri hæðina í Bygggörðum

En svo lauk Gróttuvistinni. „Henni lauk þegar ég komst á skólaaldur. Annars hefðum við trúlega ekki farið úr Gróttu. Það þótti ekki hægt að skólakrakkar byggju úti í Gróttu og væru háð fljóði og fjöru til þess að komast í land. Faðir minn losaði sig úr starfi sínu sem aðstoðarvitavörður og búskapnum var hætt. Í fyrstu fengum við inni á efri hæðinni í Bygggörðum. Þar var þá tvílyft hús og Ingimundur Steindórsson bjó á þeirri neðri. Þetta var fyrir þá tíma að farið var að byggja iðnaðarhúsnæði þar ytra og Bygggarðarnir urðu að iðnaðarsvæði. Þarna voru nokkrir bæir; Nýi bær, Litli bær og svo Ráðagerði litlu innar, Nes og Tryggvastaðir að mig minnir.“

Sex mánuðir á spítala

Raunverulega byrjaði dvölin á fasta landinu ekki vel. Ég fór í bæjarferð með móður minni. Þá var ekki farið á bíl og þetta var nokkuð löng ganga fyrir okkur utan af Nesi. Án þess að það væri vitað var ég með skemmd í mjöðm sem var þess eðlis að ég þoldi ekki þessa löngu göngu sem kostaði mig sex mánaða spítalavist. Þetta var vegna þess að bein sem tengir lærlegginn við mjaðmarskálina var bogið og við mikla göngu hafði augnkallinn farið utan í skálina. Þetta þurfti að rétta og ég var hafður í gifsumbúðum til þess að halda mjöðminni í skorðum á meðan þetta lagaðist sem það gerði með því að hreyfa hana ekki í þennan tíma og ég slapp við að fara í aðgerð.“

Stal hjóli föður míns í hádeginu

„Við vorum um tíma í Bygggörðum og faðir minn fór að vinna í Ísbirninum upp á Hrólfsskálamel. Þetta var nokkur spölur að fara á milli en hann kom oftast heim í mat í hádeginu. Hann fékk sér reiðhjól til að vera fljótari í förum og þá greip ég oft tækifærið, stal hjólinu og fékk mér smá hjólatúr á meðan hann var að borða. Við vorum þarna um tíma tvö eða þrjú ár að mig minnir en þá keyptu foreldrar mínir sumarbústað af Óskari Ísaksen leigubílstjóra sem stóð við Melabrautina. Faðir minn stækkaði hann fljótlega með viðbyggingu og með þessu vorum við komin mun innar á Nesið. Þaðan var líka styttra fyrir hann að fara til vinnu og okkur krakkana í skólann. Það var ekki nema steinsnar fyrir okkur. Á þessum tíma voru hermannabraggar á Valhúsahæðinni og þannig háttaði til að einn braggagaflinn snéri að Mýrarhúsaskóla. Kokkurinn hjá hernum hafði greinilega fylgst með okkur krökkunum því einn daginn þegar frímínútur stóðu yfir opnaðist glugginn alveg upp á gátt og hann birtist með stórt fat með stórri skúkkulaðitertu. Hann var búinn að skera tertuna í sneiðar alveg jafn margar og við vorum þannig að hver fékk sína sneið. Hann hafði þá talið okkur líka. Vissi nákvæmlega hvað við vorum mörg.“

Svartir af kolaryki

„Upp á fasta landinu tóku ný áhugamál og viðfangsefni við. Við bræðurnir eignuðumst leikfélaga sem ekki voru til staðar í Gróttu. Við fórum í ýmsa leiki sem tíðkuðust í þá daga eins og keilubolta og fleira og fótboltinn tók við eftir að ég stækkaði. Við vorum oft í fótbolta fram yfir miðnætti. Það var erfitt að fá okkur inn þegar nóttin var björt. Við spiluðum í nágrenni gömlu lifrarbræðslustöðvarinnar ekki langt frá þar sem Iðunnarhúsið stóð og vorum því oft svartir af kolaryki sem var alls staðar þarna. Móðir mín varð stundum að fara með fötin okkar inn í þvottalaugarnar í Laugardal sem þá voru enn notaðar til þess að þvo og var ekki alltaf ánægð með útganginn. Á veturnar var farið á sleða. Albert í Gróttu hafði gefið okkur bræðrum magasleða og við renndum okkur fyrir ofan Eiðið. Lambastaðamýrina lagði oft á veturna og okkur þótti gaman að skjótast á skautum á svellunum á milli þúfnanna sem oft stóðu upp úr. Þarna var líka mikið af tómum olíutunnum og einn leikur okkar var að raða saman nokkrum tunnum og hoppa yfir þær á skautunum. Lengst komumst við að hoppa yfir sex tunnur. Við fórum líka á skauta inn á Reykjavíkurtjörn. Tókum átta strætó inneftir og hálftólf strætó til baka. Það var mjög gott að renna sér á Tjörninni vegna þess að slökkviliðið sem þá var í Tjarnargötunni sprautaði vatni yfir ísinn til þess að fá sléttara yfirborð. Á þessum tíma var Kolbeinsstaðamýrin að mestu óbyggð. Aðeins nokkur býli stóðu þar; Grænamýri og Bjarg, Stóri- og Litli Ás, Teigur, Baldursheimur. Blómsturvellir og Sunnuhvöll og skammt fyrir ofan Eiðið var Minni Bakki. Nú er þetta allt horfið nema Stóri Ás sem staðið hefur tómur um árabil en nú á að rífa húsið og byggja fjölbýli á lóðinni.“

Arni-3

Elías t.h. ásamt systkinum sínum þeim þeim Gunnlaugi Erni og Guðrúnu Esther. Myndin er tekin í Gróttu þar sem þau ólust upp fystu árin.

Harða keilan bragðaðist vel

„Á þessum tíma var oft verið að þurrka net á trönum fyrir ofan Ísbjörninn rétt þar sem við áttum heima og líka verið að herða fisk. Okkur krökkunum fannst keilan sérstaklega góð þegar búið var að berja hana á steini til þess að mýkja hana. Nú er þetta allt farið og búið að byggja stórar íbúðablokkir á Hrólfsskálamelnum,“ heldur Elías áfram. „Þar var gryfjan sem kölluð var en hún varð til þegar möl var tekin til þess að bera ofan í vegakerfið á Nesinu. Húsið Bakki stóð á melnum og þar bjó vélstjóri hjá Ísbirninum og svo var þar annað hús sem hét Staður. Kveldúlfur var með tvær bryggjur. Önnur var við Melshús ekki langt frá og þangað fórum við strákarnir stundum til þess að veiða. Við veiddum einkum ufsa sem koma alveg upp að bryggjunum og var stundum kallaður bryggjuufsi vegna þess hversu nærri hann lá upp við land. Kveldúlfur var líka með bræðslustöð þar sem einkum var brædd lifur og þar stóðu gamlir bræðslukatlar eftir að bræðslunni var hætt.“

Byssurörið undir Kaffivagninum?

Elías lætur hugann aftur reika til stríðsins og segir að mikið hafi verið flogið kringum og yfir Seltjarnarnes. Eitt sinn flaug vél á símavír en flugmaðurinn var svo heppinn að hann náði henni upp aftur. Önnur var skotin niður út við Bygggarða. Ég sá það ekki en man þegar verið var að hífa flakið upp úr sjónum. Trúlega hefur hún verið þýsk án þess að ég viti það. Oft voru líka gefin loftvarnarmerki. Þá var blásið í sérstakar flautur og við urðum samkvæmt fyrirmælum að fara ofan í kjallara og bíða þar þangað til að hættan var flautuð af með öðru hljóðmerki. Byssuhreiður var á Seltjarnarnesi og svo voru líka smíðaðar trébyssur. Ég heyrði einhvern tíma á tal mann niður á Kaffivagni að aðalfallbyssurörið myndi vera grafið þar undir í uppfyllingu en ég sel þá frétt jafn ódýrt og ég heyrði hana. Þetta getur þó alveg verið rétt.“

Varð ekki KR-ingur því að ég reykti ekki

Elías varð aldrei KR-ingur þrátt fyrir áhuga á fótbolta. Af hverju skyldi það hafa verið. Hann segir skondna sögu af viðskiptum sínum við KR-strákana á þeim tíma. „Það var lítill kofi sem KR-ingar höfðu afnot af þar sem íþróttavöllurinn er núna. Ég hafði mikinn áhuga á að fá að spila með þeim og lagði eitt kvöld leið mína að kofanum til þeirra. Ég bankaði og bar erindið upp – hvort ég mætti spila með þeim. Og ég fékk spurnigu á móti. Ég var spurður hvort ég reykti og þegar ég neitaði því voru þeir fljótir til svars að þá hefði ég ekkert að gera með þeim. Ég fékk ekki að spila með KR-strákunum af því að ég reykti ekki. Þetta þætti nú ekki mikil íþróttamennska nú til dags en ég móðgaðist eitthvað við svarið sem var til þess að ég var aldrei með KR. Ég varð því aldrei nein fótboltahetja en fór þess í stað með Guðmundi Magnússyni skólabróður mínum af Seltjarnarnesi að æfa fimleika með ÍR og síðar með Ármanni. Annars var ekki margt að gera fyrir unglinga á þessum tíma. Við stunduðum svolítið að fara í KFUM og svo voru þrjú bíóin á sunnudögum þar sem við strákarnir skiptumst á hasarblöðum í hléinu. Maður laumaðist líka svolítið í íþróttirnar þótt ég yrði alltaf að gæta mín út af mjöðminni.“

Skeytasendill á mótorhjóli

Svo tóku fullorðinsárin við. „Já – svo tóku þau við og ég fór að vinna. Fyrst við sendistörf hjá Ríkisútvarpinu og síðan við skeytasendingar hjá Landssímanum. Ég eignaðist hjólaskauta á þessum tíma og eitt sinn er ég var á þeim á Hringbrautinni kom lögreglan og tók þá af mér. Ég frétti aldrei af þeim framar og engin svör fengust um af hverju þeir gerðu þetta. En trúlega hafa þeir álitið þetta hættulegt farartæki og tekið það af mér af einhverjum öryggisástæðum. Fyrstu árin hjá Símanum fórum við með skeytin á mótorhjóli en eftir um sjö ár á hjólinu fengum við bíla við skeytasendingarnar. Ég starfaði við akstur leigubíla í 13 ár. Það tók mig þann tíma að átta mig á að leigubílaaksturinn gaf lítið í aðra hönd þegar upp var staðið. Innkoman fór svo mikið í kostnað. Þetta var á amerísku öldinni eins við getum kallað hana. Þegar flestir leigubílstjórar voru á stórum eyðslufrekum amerískum bílum sem þurftu einnig talsvert viðhald þegar mikið var ekið. Vinnudagurinn var oft langur. Farnir voru túrar til Keflavíkur – stundum snemma á morgnana með flugfarþega og aðra og svo var hluti starfsins alltaf fólgin í að aka með menn í misjöfnu ástandi – oftast á kvöldin og nóttunni. Fyrsti bíllinn minn var af gerðinni Ford árgerð 1948. Hann kom frá Akureyri. Hafði skráningarnúmerið A 8 og hafði verið notaður við leiguakstur á Bifreiðastöð Akureyrar eða BSA eins og hún var kölluð. Ég átt einnig Plymounth árgerð 1966 og síðan Chervolet Nova. Hann var með fjögurra strokka vél og því fremur sparneytinn. Ég hafði hugsað mér að endurnýja hann en fékk þá þau svör hjá umboðinu að hætt væri að setja svo litlar vélar í þetta stóra bíla. Síðasti bílinn sem ég notaði í leigubílaaksturinn var Ford Grand Torino.“

Frá Gróttu inn að KR heimili

„Þetta gekk allt stórslysalaust hjá mér en svo gafst ég upp á harkinu. Þetta var oftast mikil vinna borin saman við afraksturinn þegar allur kostnaður við bílaútgerðina hafði verið dreginn frá. En ég greip talsvert í hópferðaakstur á sumrin sem mér fannst miklu skemmtilegri vinna. Þar kynntist maður mörgu ágætu fólki auk þess að sjá og kynnast landinu því ég fór talsvert inn á hálendið með ferðafólk – nokkuð sem maður gerði alls ekki á leigubílnum. En eftir að ég hætti leigubílaakstri fór ég að starfa við akstur hjá Olíufélaginu Skeljungi eða Shell. Þá vandist maður aftur við hefðbundinn vinnudag. En við hvað sem ég hef fengist um dagana þá hefur Seltjarnarnes alltaf verið ofarlega í huga mér enda uppvöxturinn þar og hluti fullorðinsáranna. Ég bý á Kaplaskjólveginum í dag en hef alltaf verið tengdur Seltjarnarnesi. Ég átti um tíma heima á Unnarbrautinni en flutti svo inn fyrir bæjarmörkin um tíma. Þetta hefur verið hringurinn. Ég hef aldrei komist lengra frá Gróttu en inn að KR heimili. Það er varla hægt að segja að ég hafi farið af Nesinu.“

You may also like...