Það er gott að starfa í Vesturbænum

steinunn-arnthrudur

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir prestur í Neskirkju.

Séra Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir var skipuð í embætti prests í Nesprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra á liðnum vetri. Steinunn er fæddur Vesturbæingur, dóttir Björn Friðfinnssonar fyrrum ráðuneytisstjóra og Iðunnar Steinsdóttur rithöfundar. Afi hennar í föðurætt var Friðfinnur Ólafsson sem lengi var forstjóri Háskólabíós og þekktur maður á sinni tíð. Steinunn ólst upp á Húsavík og við Mývatn þar sem faðir hennar gegndi starfi bæjarstjóra og síðar framkvæmdastjóra Kísiliðjunnar um hríð. Hún kynntist snemma flóttafólki því faðir hennar var í fremstu línu við að taka á móti fólki sem kom hingað til lands frá Vietnam haustið 1979 og bjó í fyrstu á Meistaravöllum í gömlu húsi við Kaplaskjólsveg sem löngu er búið að rífa. Steinunn hefur látið málefni fólks í hinum ýmsum löndum sig varða í gegnum árin og farið víða og dvalið ásamt eiginmanni sínum Þóri Guðmundssyni, sem hefur starfað lengi fyrir Rauða krossinn. „Nú finnst mér ég vera komin heim,“ segir hún í samtali við Vesturbæjarblaðið.

„Foreldrar mínir bjuggu í Vesturbænum þegar ég fæddist. Fyrst bjuggu þau við Melhaga og síðan við Hagamel. Fyrstu minningar mínar eru því úr Vesturbænum en þó er á mörkunum að ég viti af þeim. Ég man þó eftir að hafa verið á gæsluvelli. Faðir minn var í námi og fyrstu vinnu eftir nám og þau leigðu, sem skýrir hve oft var flutt. Við erum þrjú systkinin og fædd með stuttu tímabili öll að hausti til þannig að þetta varð snemma talsvert stór fjölskylda. En þegar ég var tæplega þriggja ára þá fluttum við norður á Húsavík þar sem faðir minn tók við starfi bæjarstjóra. Við vorum í einn áratug fyrir norðan – fyrst sex á Húsavík og síðan fjögur við Mývatn þar sem faðir minn tók við stjórn Kísiliðjunnar um tíma.“

Hóf búskapinn í Litla Skerjó

Steinunn var 13 ára þegar fjölskyldan flutti aftur til Reykjavíkur og þá hófst skólaganga hennar á reykvísku landi. „Ég fór fyrst í Kvennaskólann sem þá var síðustu þrír bekkir grunnskóla. Ástæðan fyrir því að ég fór þangað var einfaldlega sú að ég þekkti nokkrar stelpur í Kvennó en engar í Laugarneshverfi, þar sem við bjuggum. Síðan tók MR við og eftir árs hlé frá námi fór ég í Háskóla Íslands þannig að ég var alltaf í skóla á þessu svæði. Fyrsta íbúðin sem við Þórir keyptum okkur var við Þjórsárgötuna í Litla Skerjó þar sem eldri sonur okkar fæddist. Hann var skírður hér í Neskirkju í sunnudagaskólanum, en ég var sjálfboðaliði í barna-starfinu hér þann vetur.“ Hún segir þetta hafa haft sitt að segja þegar hún sótti um prestsstarfið. Vesturbærinn hafi alltaf heillað sig. „Þótt ég ælist að hluta til upp út á landi þá er Vesturbærinn það hverfi sem ég samsamaði mig með sem unglingur enda átti ég marga félaga hér og á enn. Ég finn mikinn mun því ég starfaði um tíma í Kópavogi og þegar ég fór í sundlaugina þar, þá hitti ég fermingarbörnin mín og krakka úr barnastarfinu, en þegar ég fer í Vesturbæjarlaugina hitti ég gamla kunningja og skólafélaga.“

Langaði að læra guðfræði og ætlaði að verða blaðamaður

Talið beinist að þeirri ákvörðun hennar að gerast prestur. Hún kveðst í upphafi ekki hafa ætlað að fara þá leið. „Mig langaði að læra guðfræði sem mér fannst gaman en ég hafði hugsað mér að gerast blaðamaður. Ég starfaði um tíma sem blaða- og fréttamaður. Ég vann líka um tíma við upphaf verkefnisins Geðrækt og við almannatengsl. En ég starfaði líka innan kirkjunnar. Ég var framkvæmdastjóri æskulýðsstarfsins í Reykjavíkurprófastsdæmum áður en við fluttum til Brussel og eftir að ég kom heim eftir nokkurra ára dvöl erlendis fór ég að vinna á Biskupsstofu þar sem ég var í tíu ár. Svo fór ég að starfa í Hjallasókn í Kópavogi. Lengsti tíminn af mínum starfsferli hefur því verið innan kirkjunnar þótt um slitróttan starfstíma hafi verið að ræða einkum á fyrri hluta hans þegar við vorum með annan fótinn í útlöndum. Á þeim tíma greip maður bara þau verkefni sem buðust sem voru oftast freelance blaðamennska og fræðsluskrif.“

Erfitt tölvusamband frá Austur-Evrópu

En hvernig var að fást við það frá útlöndum fyrir daga þeirrar samskiptatækni sem við þekkjum í dag. „Það var kominn tölvupóstur þegar við vorum í Brussel en netið var ekki mikið notað að öðru leyti. Þegar við fórum síðan til Kasakstan þá tókst okkur að koma tölvupóstssambandi á þegar við höfðum rafmagn sem var alls ekki alltaf og oft tók það allt að sextán upphringingar að ná sambandi. Tölvan var tengd við gamlan snúningsskífusíma og oft gat tekið klukkutíma að hlaða póstinum inn. Hverfið þar sem við bjuggum var ekki í góðu sambandi. Eftir að við fluttum til Malasíu, var tæknin komin mikið lengra. Þá var hægt að fara á netið. Það var til dæmis hægt að lesa Moggann sem voru mikil viðbrigði frá dvölinni í Kasakstan og fá tölvupóst reglulega.“

Símaþjónustan í skralli

En aftur til Kasakstan. Steinunn segir margt hafa verið mjög sérstakt þar í okkar augum. „Þórir þurfti að ferðast mikið vegna þess að hann starfaði fyrir öll Mið-Asíulýðveldin og varði um helmingi tímans í öðrum löndum, sérstaklega Tadjikistan. Yfirleitt gat ég ekki hringt í hann þangað eða til hinna mið-Asíulýðveldanna. Það var ekki mikið símasamband á milli þessara landsvæða sem öll tilheyrðu Sovétríkjunum á sínum tíma. En ef hann fór til Genfar, þar sem höfuðstöðvar Rauða krossins eru, þá gat ég hringt til hans vegna þess að það var farið í gegnum annað kerfi að hringja til útlanda en innan þessara gömlu sovétlýðvelda. Þar var allt í skralli þegar kom að símaþjónustunni.“

sreinunn-arnthruur-5

Frá skírn yngri sonarins í Brussel.

Hruntímabil í Asíulýðveldunum

Steinunn segir að þau Þórir hafi dvalið í Kasakstan á árunum frá 1996 til 1998 og þá hafi enn verið hruntímabil þar og í Asíulýðveldum gömlu Sovétríkjanna. Ekki hafi verið búið að byggja þessi ríki upp eftir Sovétríkin. Margt af því sem virkaði í Sovétríkjunum hafi hætt að virka við fall þeirra. „Eitt af því voru greiðslur eftirlauna, annað að raforkudreifing var ekki í lagi, rusl var ekki hirt og fleira mætti nefna. Hluti grunnstoða samfélagsins var allt í einu ekki til staðar. Kasakstan er stórt ríki og þar var mikil spilling.“

Með lánslögreglubúninga og fölsuð skírteini

Steinunn segir að Asíulýðveldin hafi þróast nokkuð með mismunandi móti en margt í hinni pólitísku þróun hafi ekki vakið neina hrifningu með þeim hjónum. „Ég man eftir því að menn fengu lánaða lögreglubúninga og fölsuðu lögregluskírteini og stöðvuðu bíla um leið og þeir sáu að um útlendinga var að ræða. Þetta var sprottið af einhverskonar sjálfsbjargarviðleytni en var auðvitað kolólöglegt. Við vorum svo heppin að vera með diplómatanúmer á bílnum sem varð held ég fyrir einhvern misskilning og gátum skýlt okkur á bakvið það ef við vorum stoppuð.

Gamla fólki varð eftir

Kasakstan var að sumu leyti svipað og Ísland var 50 árum áður. Rafmagnsleysi og gasleysi voru viðvarandi. Svo var villta vestri handan við hornið og uppgangur mafíunnar gekk greiðlega fyrir sig. Fátæktin var mjög áberandi og ég tók þátt í því sem sjálfboðaliði hjá Kasaska Rauða hálfmánanum að safna peningum fyrir súpueldhúsi. Þar kynntist maður fólkinu og kjörum þess. Einkum því eldra. Þangað kom mikið fólki sem fékk eftirlaunin ekki lengur á réttum tíma. Sumt af þessu fólki var af rússneskum ættum og afkomendur þess voru margir farnir til Rússlands. Yngra fólk átti meiri möguleika á að fara og ef til vill meiri framtíð þar en í Kazakstan. En gamla fólkið varð eftir.“

Skrýtnustu sögurnar frá Rúmeníu

Steinunn og Þórir voru líka í Austur Evrópu 1990, árið sem fyrstu frjálsu kosningarnar fóru fram í fjölda landa þar, skömmu eftir fall múrsins. Þau bjuggu í Ungverjalandi og ferðuðust milli landanna. Þau fóru meðal annars til Transylvaníu í Rúmeníu og Tirgu Mures, þar sem byltingin 1989 hófst. „Þetta svæði er byggt fólki af ungverskum uppruna og maður fann fyrir því að til voru öfl í Ungverjalandi sem dreymdi um endurreisn Stór-Ungverjalands. Tortryggnin á milli Ungverja og Rúmena var gríðarleg og er enn. Þegar ég fór á kirkjuþing þangað árið 2007 endaði það með að rúmensku Ungverjarnir fóru heim. Þeim fannst vegið að sér – öll samskipti þjóðarbrotanna eru viðkvæm og sögulegar ástæður liggja að baki. Mér finnst ég hafa upplifað meiri togstreitu þarna 1990 en á milli Serba og Bosníumanna þótt þar hafi síðar soðið upp úr með stríðsátökum. Við Þórir skrifuðum bók um árin í Austur Evrópu. Hún heitir Úr álögum og kom út 1991. Skrautlegustu sögurnar í bókinni eru frá Rúmeníu – hvernig við lentum í hálfgerðum átökum við herinn, eyddum síðustu aurunum í að kaupa íkón lengst uppi í fjöllum í Transylvaníu, hittum mótmælendur, securitate leynilögregluna og leituðum að ómerktri gröf Ceausescus.

Ætlaði að læra en átti dreng í staðinn

Eftir Evróputímann fóru þau Steinunn og Þórir til Asíu og Ástralíu um tíma og sinntu fréttamennsku. Hittu meðal annars Dalai Lama að máli uppi í Dharamsala í Himalayafjöllum. „Við vorum í Ástralíu þegar Persaflóastríðið braut út og þá var hringt í Þóri frá Stöð 2 og hann beðinn um að koma heim. Hann flaug heim en ég varð eftir í Ástralíu. Ég var þar einn af fulltrúum Íslands á heimsþingi Alkirkjuráðsins. Það kom í ljós þegar við vorum nýlega komin til Ástralíu að ég var orðin ófrísk þannig að ég var fegin að komast heim. Við eignuðumst svo dreng um haustið. Við vorum heima í tvö ár en fórum svo til Brussel þar sem Þórir starfaði sem fréttaritari og stundaði mastersnám. Ég ætlaði mér líka að nota tímann til þess að fara í mastersnám seinna árið þar en varð aftur ófrísk og þar sem tímasetning fæðingar og próf voru á sama tíma varð minna úr mastersnámi. En ég nýtti tímann í Brussel í að læra frönsku – og átti yngri soninn.

Eins og að koma heim

En nú er Steinunn komin heim. „Ég kunni vel við mig að starfa í Kópavogi og var tekið afskaplega vel. En að koma í Neskirkju er fyrir mér eins og að koma heim. Vesturbæingar taka einstaklega vel á móti manni. Margir koma hingað í kirkjuna og gamlir nágrannar hafa komið í messur. Og svo búum við að því að hér er frábært starfsfólk sem gaman er að vinna með. Sumt þekkti ég fyrir eftir áratuga vinnu í kirkjunni með hléum. Öðru er gaman að kynnast. Það er gott að starfa hér í Vesturbænum.“

steinunn-arnthrudur-2

Steinunn og Þórir Guðmundsson eiginmaður hennar í heimsókn hjá Síkkafjölskyldu í Delhi árið 1990.

You may also like...