Borgarstjóri fundaði með Vesturbæingum
Um 70 manns sóttu íbúafund sem haldin var í boði borgarstjóra í Hagaskóla 17. nóvember sl. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór í kynningu sinni vítt yfir lífið í hverfinu, starfsemi borgarinnar og áherslur, skipulagsmál og uppbyggingu í hverfinu.
Baldur Stefánsson formaður mannvirkjanefndar KR fór í stuttu máli yfir stöðu KR og Pétur Marteinsson hjá Borgarbrag varpaði upp myndum af því hvernig svæðið gæti mögulega litið út en samþykkt hefur verið að stofna starfshóp um framtíðarskipulag fyrir KR svæðið í samvinnu við félagið. Baldur ræddi um þá uppbyggingu sem KR hefur verið að skoða hjá sér og Pétur fór yfir framtíð KR – svæðisins. Hann talaði um mikilvægi þess að þetta verkefni yrði ekki unnið á mettíma heldur fengi það að þróast í sátt og samlyndi við borgina sem og íbúa í Vesturbæ. Pétur varpaði upp myndum af því hvernig þetta gæti mögulega litið út, en tók skýrt fram að þetta væru bara hugmyndir en ekki ákvarðanir.
Vaxandi pressa á ungmenni
Sigríður Hannesdóttir fulltrúi íbúa rifjaði upp gamla tíma, bæði í leik eða starfi. Í máli hennar kom fram að í „gamla daga“ var nú prakkarast líkt og krakkar gera í dag, kannski bara ekki á sama hátt. Hún fór yfir það hvað allt væri að verða flott og fallegt og allar þær breytingar sem hafa átt sér stað í Vesturbænum sl. ár og áratugi. Fulltrúar ungmennaráðs Vesturbæjar þær Erla Sverrisdóttir, Ásta Rún Ingvadóttir, Karolína Einarsdóttir og Arndís María Ólafsdóttir komu og fóru yfir hlutverk ungmennaráðs. Þær sögðu frá hvað gert hefur verið sl. mánuði en það má t.d. nefna að ungmennaráðið hefur boðið öðrum ungmennaráðum í borginni í heimsókn. Einnig fóru þær yfir niðurstöður frá Rannsóknum og greiningu. Þær bentu á að hjá ungmennum væri vaxandi kvíði og þunglynd. Sem mögulegar ástæður nefndu þær þá pressu sem þeim finnst vera á ungmennum almennt í dag miðað við undanfarin ár, eða það er a.m.k. þeirra upplifun. Þær vilja meina að samfélagsmiðlar hafi mikil áhrif hvað það varðar. Einnig fóru þær yfir hvað tómstundir eru orðnar „atvinnu miðaðar“ þ.e. að ungmenni geti ekki verið t.d. í íþróttum sem leik. Það sama á við um tónlist, þeim finnst að það eigi að forgangsraða á þann hátt að börn geti verið í henni til að hafa gaman.
Skerjafjörður og Hofsvallagata hugleikin
Nokkrir tóku til máls þegar opnað var fyrir almennar umræður og fyrirspurnir. Ívar Pálsson formaður Prýðifélagsins Skjaldar gerði skipulag á nýju svæði í Skerjafirði að umtalsefni og vildi vita hvenær ætti að kynna það nánar fyrir íbúum í næsta nágrenni. Dagur B. Eggertsson svaraði því til að verkefnið væri rétt að hefjast. Eftir væri að skipa verkefnisstjóra og í framhaldi af því ætti að ræða við íbúa. Kristján Sverrisson vildi vita hvort ekki væri fullreynt með þessa „vistvænu“ aðgerðir á Hofsvallagötu. Dagur B. Eggertsson sagði að margt hefði betur mátt fara en ekki mætti gleyma því að meginmarkmiðið hefði verið að hægja á umferð um Hofsvalla-götuna og það hefði tekist. Friðrik Ármann Guðmundsson nefndi að hægt væri að hafa tengingu annars staðar en í gegnum Hofsvallagötuna. Helga Jónsdóttir gerði íbúalýðræðisverkefnið Hverfið mitt að umtalsefni og sagði að sér fyndist það ekki vera að virka. Dagur B. Eggertsson sagði að vel mætti hugsa sér ýmsar útfærslur en verkefnið væri umfram allt íbúalýðræði þar sem íbúar hafa endanlegt val um hvaða verkefni fara í framkvæmd. Verkefnið er í raun enn í mótun og nefndi Dagur að gaman væri að bjóða krökkum upp á að taka þátt í kosningum. Katrín Guðmundsdóttir vildi fá skýrara svar um hvert yrði næsta skref í Skerjafjarðarmálinu. Dagur B. Eggertsson sagði að fyrst þyrfti að skipa verkefnisstjóra, kortleggja svæðið og í framhaldi ætti að eiga samtal við íbúa í Skerjafirði.