Timburhús reist á Nýlendureitnum
Hafin er bygging timburhúsa á svokölluðum Nýlendureit á horni Seljavegar og Mýrargötu í Vesturbæ Reykjavíkur. Um að ræða sambyggða húseign, sem er rísa á lóðunum nr. 27, 29 og 31 við Mýrargötu og lóðunum nr. 1A og 1B við Seljaveg í Reykjavík. Það er félagið Arwen Holdings ehf. sem stendur að byggingu húsanna. Húsin eru byggð úr hágæða forsmíðuðum timburveggjum sem settir eru ofan á steyptan grunn sem stendur á klöpp er ekki var sprengt og grafið niður fyrir húsunum. Nýmæli er að byggð séu timburhús í Reykjavík en húsin eru að hluta til flutt inn smíðuð frá Litháen.
Húsin skiptist í fjögur keðjuhús, tvær þakíbúðir og veitingastað. Keðjuhúsin verða verða um 190 fermetrar hvert. Þau verða á þremur hæðum með möguleika á sér íbúðum á jarðhæð og þakíbúðir verða á tveimur hæðum en stærðir þeirra verða um 125 fermetrar og 260 fermetrar. Gert er ráð fyrir veitingahúsi á jarðhæð sem verður um 202 fermetrar að stærð. Mikið er lagt í einangrun húsanna og má nefna að gluggar eru gríðarlega vandaðir timburgluggar og eru sérsmíðaðir við kjöraðstæður. Allir gluggar eru með þreföldu gleri og gluggar sem snúa að umferðargötum; Mýrargötu og Seljavegi eru sérstaklega hljóðeinangraðir. Á milli hæða verða timburplötur en til að auka gæði hússins verður sett sjö sentimetra þykkt flot yfir timburplötuna sem eykur hljóðeinangrun á milli hæða og stífir allt húsið af. Byggingartími húsanna er stuttur og gert ráð fyrir að íbúðirnar verið tilbúnar til afhendingar með vorinu. Guðmundur Th. Jónsson fasteignasali hjá Fasteignamarkaðnum annast sölu húsanna.