Starfsemi úr hafinu getur þrefaldast á tveimur áratugum

– nýtt rit um Bláa hagkerfið kynnt í Sjávarklasanum –

Myndin var tekin þegar kynning bæklingsins “Hvað er bakvið ystu sjónarrönd var kynntur. Á myndinni eru; Þór Sigfússon, Júlíus B Kristinsson, Friðrik Sigurðsson, frú Elíza Reid, Davíð Freyr Jónsson, Þórlindur Kjartansson og Berta Daníelsdóttir.

Bláa hagkerfið, eða öll starfsemi sem við kemur hafinu í kringum Ísland, getur þrefaldast að umfangi á næstu tveim áratugum. Í bláa hagkerfinu felast því mörg tækifæri til að skapa verðmæti og áhugaverð störf til framtíðar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju riti Íslenska sjávarklasans sem nefnist „Bak við yztu sjónarrönd“. Höfundar ritsins eru þeir Þór Sigfússon og Þórlindur Kjartansson en 26 sérfræðingar og frumkvöðlar veita einnig álit sitt á ýmsum framtíðarviðfangsefnum er lúta að hafinu.

Bróðurpartur veltu bláa hagkerfisins í dag er tengdur hefðbundnum sjávarútvegi. Í ritinu er talið að vel kunni svo að fara að stór hluti bláa hagkerfisins sé lítið eða ekkert tengdur hefðbundnum fiskveiðum innan 20 ára. Nýjar atvinnugreinar, sem nýta auðlindir hafsins, munu skjóta enn frekar rótum og verða fyrirferðarmiklar á komandi árum ef rétt er á málum haldið. Í ritinu er rætt um líklega þróun í veltu einstakra greina sem tengjast bláa hagkerfinu hérlendis næstu tvo áratugina. Þær áætlanir byggjast bæði á áætlunum sem gerðar hafa verið um veltuaukningu þessara atvinnugreina á heimsvísu og á viðtölum við ýmsa frumkvöðla og forsvarsmenn fyrirtækja hérlendis.

Tækifæri í líftækni og fullvinnslu

Tækifærin liggja m.a. í aukinni fiskirækt, líftækni, fullvinnslu aukaafurða, vaxandi stofnum nýrra veiðitegunda við Ísland eins og skelfiski, nýtingu þara og ræktun þörunga svo eitthvað sé nefnt. Ógnanirnar felast fyrst og fremst aukinni mengun í hafinu í kringum Ísland, hitnun og súrnun sjávar og plastmengun.

Í ritinu eru nefnd nokkur atriði sem leggja ber kapp á til að efla enn frekar bláa hagkerfið. Þar er m.a. nefnt mikilvægi þess að Íslendingar skynji þau tækifæri sem felast í því að taka sér stöðu sem forystuland í í nýsköpun og umhverfisvernd. Þá þarf að efla rannsóknir og menntun á þessum sviðum,  styrkja enn frekar samkeppnissjóði, treysta hafréttarlega stöðu Íslands og efla nýsköpunar- og frumkvöðlaumhverfið hérlendis. Hinn 3. desember sl. tók frú Eliza Reid á móti fyrsta eintaki af þessu riti Í húsi sjávarklasans að Grandagarði 16. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra flutti ávarp og nokkrir frumkvöðlar sýndu nýsköpunarverkefni sem bætt geta umhverfið og aukið verðmæti.

You may also like...