Vinningstillaga um nýja byggð í Skerjafirði
Tillaga ASK arkitekta sigraði í samkeppni á vegum Reykjavíkurborgar um nýja byggð við Skerjafjörð en tillagan var unnin í samstarfi við Landslag og verkfræðistofuna Eflu. Tillagan byggir á nálægð við sjóinn en einnig er lögð sérstök áhersla á græn svæði og útivist.
Tillagan gefur hugmynd um á hvern hátt byggja megi í sátt við nágrennið; Öskjuhlíðina, Nauðhólsvíkina og síðast en ekki síst við Vatnsmýrina þar sem Reykjavíkurflugvöllur stendur nú. Í greinargerð með vinningstillögunni kemur fram að staðsetning hinnar fyrirhuguðu byggðar hafi allt til að skipulag á þessu svæði geti orðið leiðarljós fyrir þá uppbyggingu sem þarna gert átt sér stað á næstu árum og áratugum. Hún eigi sér stað á landi sem sé eitt það verðmætasta sem borgarbúar hafi yfir að ráða. Verið sé að brjóta nýtt land um leið og að þétta og styrkja þá byggð sem fyrir er. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2030 er gert ráð fyrir að á svæðinu muni rísa íbúðir og er gerð rammaskipulags fyrsta skrefið í átt að því að framfylgja þeirri stefnu. Þróunarreiturinn liggur að núverandi byggð í Skerjafirði og afmarkast af götunni Skeljanesi til vesturs og af öryggissvæði flugbrauta til norðurs og austurs. Svæðið hallar til suðurs í átt að Fossvogi og liggur vel við sól og vindáttum með stórkostlegu útsýni að sjó. Áhersla er lögð á vistvæna byggð sem tekur tillit til náttúru og nærliggjandi byggðar.