Séra Sigurður Már til Seljakirkju

– Seljasókn komin í hóp safnaða á grænni leið – 

Séra Sigurður Már Hannesson.

Séra Sigurður Már Hannesson hefur verið ráðinn prestur við Seljakirkju. Hann er fæddur 1990 og uppalinn í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 2010, stundaði nám í viðskipta­fræði við Háskóla Íslands en leiðin lá svo í guðfræðideildina. Árið 2016 stundaði sr. Sigurður Már skiptinám í Kaupmanna­höfn þar sem hann nam guðfræði við Kaupmannahafnar­háskóla. Hann var vígður til prestsþjónustu hjá Kristilegu skólahreyfingunni í mars 2021. Jafnframt sinnti hann ýmsum verkefnum fyrir KFUM og KFUK. 

Sigurður Már hefur starfað í sunnudagaskóla hjá Grens­áskirkju og Dómkirkjunni í Reykjavík ásamt því að hafa starfað sem æskulýðsfulltrúi í Ástjarnarkirkju. Samhliða starfi sínu hjá Kristilegu skólahreyfing­unni sinnti hann afleysingum í Laugardalsprestakalli síðastliðið vor. Eiginkona sr. Sigurðar Más er Heiðdís Haukdal Reynis­dóttir, verkefnastjóri í rafrænum kennslumálum hjá Háskóla Íslands. Þau eiga eina dóttur. Þá má geta þess að nýlega bættist Seljasókn í hóp safnaða sem eru á grænni leið. Þetta er fimmtándi söfnuðurinn sem heldur út þá gæfuleið. Grænir söfnuðir eru hins vegar sjö að tölu. Það er alltaf ánægjuefni þegar söfnuðir fara að huga að hinum grænu málum. Græna leiðin og græni söfnuðurinn eru kjörin tækifæri til að virkja safnaðarmeðlimi í því að ræða umhverfismál og taka virkan þátt í þeim, segir á heimasíðu Seljakirkju.

You may also like...