Dagur í Breiðholti
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsótti Breiðholtið fyrir skömmu. Hann hóf yfirreið sína í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þar sem hann hitti nemendur og starfsfólk og kynnti sér ýmsar nýjungar í skólastarfinu, eins og vinnu nemenda í Fab-Labinu og Framtíðarskólastofunni sem nemendur innréttuðu sjálfir. Þá snæddi hann hádegisverð með nemendaráðinu og skoðaði skólann. Borgarstjóri fór næst í Hólabrekkuskóla þar sem hann fundaði með skólastjórum fimm grunnskóla í hverfinu. Síðdegis fór hann á framkvæmdasvæði Félags eldri borgara, FEB, við Árskóga en þar er verið að byggja 68 íbúðir fyrir aldraða. Að lokum lá leiðin í félagsstarfið í Árskógum þar sem hann fékk sér kaffisopa með eldri borgurum.
Hverfisheimsókninni lauk með íbúafundi í Gerðubergi. Á fundinum fór borgarstjóri yfir ýmsar staðreyndir varðandi hverfið og lýsti því sem gert hefur verið í framkvæmdum á ýmsum sviðum. Þá fór hann yfir hverfisskipulag Breiðholts, væntanlega tengingu Borgarlínunnar, íþróttamannvirki og uppbyggingu þeirra í Suður Mjódd, svo og möguleika á þéttingu byggðar víða í hverfinu. Að loknu erindi borgarstjóra hélt Þórdís Lilja Gísladóttir erindi um heilsueflingu í Breiðholti en það verkefni hefur tekist afar vel og hefur fólk í öðrum hverfum borgarinnar lýst yfir áhuga á að hefja svipaða heilsueflingu. Eftir að formlegri dagskrá lauk, svaraði borgarstjóri spurningum úr sal. Nicole Leigh Mosty formaður hverfisráðs Breiðholts var fundarstjóri.
Alls 21.842 íbúar í um 7760 íbúðum
Margt kom fram um Breiðholtið í erindi og upplýsingum borgarstjóra sem fólk hefur ef til vill ekki gert sér grein fyrir. Nú búa 21.842 manns í Breiðholti í 7760 íbúðum. Breiðholtið stendur á 5,8 ferkílómetrum lands en byggt land er um 3,4 ferkílómetrar. Alls eru 57 opin leiksvæði í Breiðholti samtals 61.520 fermetrar að stærð. Samtals eru um 110 kílómetrar af göngu- og hjólastígum með bundnu slitlagi auk gangstétta og í Breiðholtinu má finna 152 setubekki og 230 ruslastampa. Ellefu leikskólar eru starfræktir í Breiðholti með um 950 börnum og þar af eru 350 af erlendum uppruna. Framsækið og fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf á sér stað í hverfinu. Einnig þverfaglegt samstarf á milli skóla og með frístundamiðstöð og þjónustumiðstöð um mörg verkefni. Þá hafa áhugaverð Áhugaverð þróunarverkefni sem snúa að börnum og ungmennum hafa verið unnin og má þar nefna Okkar mál, Læsi allra mál, Brúarsmiður í Fellaskóla og fl.
Um 110 manns starfa í félagsmiðstöðvum
Fjórar félagsmiðstöðvar og sex frístundaheimili eru í Breiðholti þar sem um 110 manns eru að störfum. Ýmsir viðburðir einkenna störf þessara stofnana auk þess sem rödd ungmenna fær áheyrn í Breiðholti og fjallað er um málefni sem brenna á þeim. Ungmenni hafa áheyrnarfulltrúa í hverfisráði og tvo fulltrúa í Reykjavíkurráði ungmenna. Margar tillögur ungmenna hafa komið til framkvæmda og má þar m.a. nefna að virkja jafnaldra í móttöku barna af erlendum uppruna og fjármálafræðslu í unglingadeildunum.
Í Breiðholti eru 12 grenndarstöðvar af 57 slíkum stöðvum í Reykjavík og 85 á höfuðborgar-svæðinu öllu. Í dag eru gámar fyrir glersöfnun á þremur stöðum, Vesturbergi, Maríubakka og Skógarseli og stefnt að því að glergámar verði komnir á allar grenndarstöðvar árið 2020. Flestir íbúar Breiðholts hafa aðgengi að grenndarstöðvum í 500 metra fjarlægð frá heimili sínu eða minna. Í Jafnaseli í Breiðholti er endurvinnslustöð sem tekur við sorpi til endurvinnslu alla daga vikunnar.
Yfir 150 þúsund komu í Gerðuberg
Alls heimsóttu 154.187 manns Menningarhús Borgarbóka-safnsins Gerðuberg á árinu 2016. Fjöldi útlána úr bókasafninu var 108.413. Um 30 viðburðir fyrir börn og fjölskyldur voru í húsinu og 17 sýningar voru haldnar. Um 3000 skólabörn komu í skipulögðum heimsóknum í húsið. Ein af nýjungum í bókasafninu í Gerðubergi er vettvangur fyrir börn til að fikta og skapa með það fyrir augum að styrkja tæknilæsi. Verkefnið er enn í þróun og verður von bráðar einnig vettvangur fyrir fullorðið fólk. Mjög góð aðstaða í bókasafninu þar sem boðið er upp á opna tíma eftir skóla, klúbba og ýmis konar fjölskyldusmiðjur um helgar, t.d. að kynnast einfaldri forritun, Sonic Pi, Minecraft, LittleBits, Lego Story Starter o.fl. Ekki verður skilið við Gerðuberg án þess að geta um félagsstarfið – sem bæði er fyrir heldri borgara og yngri en mikið sótt af fólki sem komið er að eða á eftirlaunanaldur. Ýmsar fróðlegar og nytsamar upplýsingar komu fram á fundi borgarstjóra með íbúum Breiðholts.