Frá verslun til útvegs og aftur til verslunar

Sé yfir Vesturbæinn og höfnina. Þarna er Grandinn enn örmjór.

Fyrstu hugmyndir um tengsl verslunar við Örfirisey má rekja til daga einokunarverslunarinnar frá 1602 til 1787. Svonefndur Hólmskaupstaður var talinn ein helsta bækistöð einokunarverslunarinnar. Kaupsvæðið hennar náði yfir Seltjarnarnes, Kjósarsýslu og Borgarfjarðarhérað sunnan Hvítár. Skoðanir eru skiptar um hvar Hólmsverslun eða Hólmskaupstaður var. Hugmyndir hafa verið um að hún hafi fyrst verið í Grandahólma, sem er smáeyja vestur af Örfirisey sunnan Akureyjar. Í óprentaðri ritgerð Péturs Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Landhelgisgæslunnar kemur fram að frá því um 1520 hefjist kaupskapur í Hólmi og standi þar fram undir 1715 þegar verslunarhúsin voru risin í Örfirisey. Efasemdir hafa þó verið um þetta vegna slæmra aðstæðna til skipakoma við hólmann.  

Saga Örfiriseyjar er hvorki samfelld saga atvinnustarfsemi eða byggðar. Þann 9. janúar 1799 gekk ofsaveður yfir Suðvesturland svonefnt Básendaveður. Eyddist þá öll byggð í Örfirisey. Sú byggð sem reis þar að nýju var aðeins brot af þeirri fyrri og lagðist niður með öllu 1861. Eftir að eyjan fór í eyði voru slægjur nýttar og hagabeit var þar fyrir hross.  

Lifrarbræðslan og bretinn

Reykjavikurbær festi kaup á eyjunni árið 1906 vegna hafnargerðarinnar sem þá var í undirbúningi. Örfirisey hafði verið lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur árið 1835 og við stofnun Reykjavíkurkaupstaðar var mælt fyrir um að eyjan skyldi afhent Reykjavík til eignar. Bent var á að hún væri kaupstaðnum nauðsynleg. Þar væri hentugt land til fiskverkunar. Hún lægi vel við vöruflutningum og síðast en ekki síst væri hún hentug til að reisa þar virki kaupstaðnum til varnar. Þessi ráðstöfun var formlega afturkölluð 1791 og því varð bærinn að festa kaup á henni. Seint á 19. öld setti Geir Zoega á fót lýsisbræðslu í Örfirisey sem varð umdeild vegna brælulyktar sem Zoega kallaði peningalykt. Hafnargerðin hófst 1913. Þá var lagður grjótgarður eftir Grandanum út í eyjuna. Þótt garðurinn væri aðeins um 2,5 metrar á breidd auðveldaði hann ferðir þangað. Með því má segja að Örfirisey væri orðin landföst. Breska setuliðið lagði Örfirisey undir sig í byrjun heimsstyrjaldarinnar 1939 til 1945. Girti eyjuna af og skyldi eftir sig ýmsar stríðsmynjar sem þóttu lítil augnayndi. Eftir brotthvarf herliðsins var nokkuð deilt um hvernig nýta mætti eyjuna. Hugmyndir voru uppi um atvinnulíf en einnig útivist og skemmtun.  

Séð yfir vesturhöfnina og Örfirisey eins og eyjan er í dag.

Dýrasýning sjómannadagsráðs

Fulltrúaráð sjómannadagsins ákvað að standa fyrir dýrasýningu í Örfirisey sumarið 1947. Dýrasýningin var haldin í tengslum við tíunda sjómannadaginn og átti allur ágóði af henni að renna til byggingar dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Sjómannadagsráðið fékk Örfirisey til fullra umráða yfir sumarið og réðist í ýmsar framkvæmdir til að koma upp sýningunni. Eyjan var afgirt tímabundið og þar voru smíðuð búr fyrir apa og steypt lón fyrir seli, sæljón og ísbirni. Sýningin stóð í þrjá mánuði og þegar henni lauk í lok sumars 1947 höfðu um 40 þúsund sýningargestir heimsótt hana. Annað átti þó eftir að liggja fyrir Örfirisey en að verða útivistarparadís og skemmtigarður.

Nýsköpunarstjórn og höfuðvígi

Á stríðsárunum gekkst hafnarstjórn fyrir því að byrjað var að breikka garðinn út í eyna í tæpa 36 metra þannig að hægt yrði að aka eftir honum. Innan Grandagarðsins var þá einnig byrjað að gera bryggjur. Hugmynd að framtíðarskipulagi Vesturhafnarinnar 1945 var sú að allar framkvæmdir og fyrirætlanir um uppbyggingu héldust í hendur við aðgerðir og framtíðaráætlanir ríkisstjórnarinnar um stórfellda atvinnuuppbyggingu og nýsköpun atvinnulífsins og þá ekki síst útgerðarinnar. Á þessum tíma var tekin við völdum ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Sósíalistaflokks – hin svokallaða nýsköpunarstjórn, sem stóð meðal annars fyrir því að togarafloti landsins var endurnýjaður, tugir nýrra vélbáta voru keyptir eða smíðaðir og uppbygging síldar- og fiskiðnaðar var hafin.  

Björgunarstöð slysavarnafélagsins

Árið 1945 var ákveðið að Slysavarnafélag Íslands fengi að reisa nýja björgunarstöð í Örfirisey og keypti félagið skála af Sölunefnd setuliðsviðskipta síðar varnarliðseigna. Skálinn stóð á austurenda eyjunnar. Björgunarstöðin var tekin í notkun 11. maí 1946 og var hin stærsta og fullkomnasta á landinu á þeim tíma. Þar voru skýli fyrir björgunarbát, geymsla fyrir björgunartæki og aðstaða fyrir björgunarsveitir.

Olíubirgðastöð

Allt frá því laust eftir stríð hefur olíubirgðastöð verið í Örfirisey og þar er eitt af þremur olíulöndunarsvæðum í Reykjavík. Nokkuð hefur verið rætt um að færa verði stöðina. Af henni stafi hætta og einnig umferð olíuflutningabíla um götur frá eyjunni. Tímalengd lóðaleigusamnings stöðvarinnar fylgir gildistíma aðalskipulags Reykjavíkurborgar til ársins 2030.

Bíll á leið út í Örfirisey. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær en af útliti bílsins má ráða að það hafi verið um eða eftir 1930.

Verbúðirnar

Um miðjan fimmta áratug 20. aldar kom fram hugmynd um að byggja samfellda röð af húsum eða skýlum meðfram Grandagarðinum með sterkbyggðri norðvesturhlið til að verjast sjógangi. Höfnin fékk leyfi byggingarnefndar Reykjavíkur til að hefja byggingu húsalengjunnar í júlí 1945. Eiríkur Einarsson arkitekt gerði teikningar sem gerðu ráð fyrir að húsalengjunni yrði skipt í margar jafnstórar geymslueiningar. Byrjað var að byggja verbúðirnar 1946. Árið 1955 voru byggðar 15 verbúðar til viðbótar þeim sem fyrir voru. Syðsta húsið sem byggt var í sömu mynd var spennistöð byggð um 1960. Ýmis gagnrýni kom fram vegna þessara bygginga. Í einu dagblaðanna voru þær kallaðar “vitlausasta” hús landsins og gárungar töluðu gjarnan um “lönguvitleysu”. Í dag er nyrðri hluti verbúðanna enn notaður fyrir útvegsstarfsemi en syðri hlutinn hefur verið tekinn fyrir, verslunar- og einnig lista og menningarstarfsemi og hefur svæðið orðið mjög vinsælt af bæjarbúum og ferðafólki.

Elsta veitingahúsið

Við syðstu verbúðabryggjuna var árið 1950 komið fyrir kaffivagni á hjólum. Guðrún Ingólfsdóttir veitingakona hafði keypt kaffivagninn af Bjarna Kristjánssyni, sem í mörg ár hafði haft hann á Steinbryggjuplaninu á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis. Guðrún seldi kaffi og meðlæti við miklar vinsældir sjómanna, hafnarverkamanna og annarra þeirra sem störfuðu á svæðinu. Skömmu eftir 1960 var vagninum breytt í lítið timburhús á steyptum grunni og um miðjan áttunda áratuginn var húsinu breytt í núverandi mynd. Kaffivagninn hefur verið í stöðugum rekstri. Nokkur eigendaskipti hafa orðið á síðari árum og rekstri hefur verið breytt nokkuð meðal annars með tilliti til ferðamanna en vinsældir vagnsins hafa haldist stöðugar um áratuga skeið.

Marshallhúsið

Undir lok fimmta áratugar 20. aldar gekk suðurlandssíldin inn í Kollafjörð og Hvalfjörð og mokveiddist. Veiðin var meiri en hægt var að taka við í landi og þá stofnuðu Reykjavíkurborg og hlutafélagið Kveldúlfur með sér sameignarfélagið Faxa sf. um byggingu nýrrar síldarverksmiðju árið 1948. Húsið var snemma kennt við Marshall aðstoðina sem voru fjármunir sem Bandaríkin styrktu Ísland og fleiri lönd með eftir síðari heimsstyrjöldina. Þeir munu að einhverju leyti hafa verið notaðir til byggingar þess eins og kemur fram í þingræðu Bjarna Benediktssonar eldri frá 1955. Þetta átti að verða fullkomnasta verksmiðja sinnar tegundar hér á landi því hún myndi gjörnýta það hráefni sem unnið yrði þannig að ekkert færi til spillis en framleiða átti bæði mjöl og lýsi. Þetta er fjórlyft hús með mjórri þakhæð eftir miðjuási. Í húsinu voru vélasalir á öllum hæðum auk efnarannsóknastofu og umbúðageymslu. Þegar Faxaverksmiðjan var fullbúin var síldin horfin. Eftir það var verksmiðjuna nýtt eftir föngum. Ýmis fyrirtæki fengu afnot af húsnæði hennar og vélar og tæki lánuð og leigð. Árið 1962 samþykkti borgarstjórn að slíta félaginu. Reykjavíkurborg festi kaup á húsinu árið 2017 til að nota fyrir menningarmiðstöð og lét endurhanna það. Í dag eru í Marshallhúsinu þrjár menningarstofnanir. Nýlistasafnið, Gallerí Kling & Bang og Stúdíó Ólafur Elíasson auk veitingarekstrar á jarðhæð. 

Hraðfrysti- og verksmiðjuhús

Á sama tíma og bygging verbúðanna hófst fékk fiskimálanefnd ríkisins leyfi til að byggja hraðfrysti- og verksmiðjuhús á lóð suðvestast á Grandagarðsuppfyllingunni. Húsið sem var byggt var á sínum tíma ein stærsta verksmiðjubygging á landinu og meðal hinna fullkomnustu og nýtískulegustu. Árið 1957 skoðuðu sænsku konungshjónin Fiskiðjuverið í opinberri heimsókn hingað og var af því tilefni hreinsað mikið til á Grandagarði. Þá voru meðal annars fjarlægðir ýmsir skúrar sem staðið höfðu í nágrenni við Fiskiðjuverið og höfnina engum til prýði. Þarna starfaði Fiskiðjuverið fram til ársins 1959 að borgarsjóður keypti húsið undir rekstur Bæjarútgerðar Reykjavíkur.  

Nýtt deiliskipulag

Árið 2006 voru afmarkaðar í deiliskipulagi nýjar lóðir á yngsta hluta uppfyllingarinnar og nýjar þvergötur úr Fiskislóð. Á þessum lóðum hafa á síðustu árum verið byggð nokkur atvinnuhúsnæði og verslunar- og þjónustuhús. Þar er að finna fyrirtæki á borð við Ellingsen, Krónuna, BYKO, verslun Samkaupa, Bónus og fleiri fyrirtæki og rekstraraðila. Á milli Grandagarðs og fiskislóðar er að finna mörg iðnaðarhúsnæði sem sum hver geta tæplega talist til framtíðarbygginga.

Góðviðrisdagur í Örfirisey. Til vinstri eru Verbúðirnar þar sem nú fer fram ýmis verslunar, lista og menningarstarfsemi.

Sjóminjasafnið

Sjóminjasafnið í Reykjavík er staðsett við Grandagarð í því húsnæði sem áður hýsti Bæjarútgerð Reykjavíkur. Árið 2008 bættist Varðskipið Óðinn við í safnkostinn og liggur það nú við bryggju safnsins. Árið 2014 var Sjóminjasafnið sameinað öðrum borgarsöfnum sem hafa með sögu Reykjavíkur að gera undir nafninu Borgarsögusafn Reykjavíkur.  

Íslenski sjávarkalsinn

Segja ná að stanslaus uppbygging hafi verið í Örfirisey það sem af er 21. öld. Á árinu 2012 flutti Íslenski sjávarkalsinn inn í gömlu Bakkaskemmuna við Grandagarð 16. Stofnandi Íslenska sjávarklasana er Þór Sigfússon. Fyrirtækin í Sjávarklasanum eru af ýmsum toga en eitt af markmiðunum er að viðhafa ákveðna fjölbreytni í húsinu þótt mörg þeirra tengist sjó og sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. Mathöllin er hluti af þessu dæmi og hefur notið mikilla vinsælda frá því hún var opnuð á neðri hæð við Grandagarð 16. Í húsinu starfa nú yfir 70 fyrirtæki og um 120 manns frá yfir 12 löndum hafa þar aðstöðu. Þar eru fyrirtæki í fiskeldi, fisksölu, sjávarútvegstækni, hugbúnaðargerð, hönnun, líftækni, snyrtivörum, ráðgjöf, rannsóknum og ýmsu öðru. Hús sjávarklasans er samfélag þessara fyrirtækja og vettvangur fyrir þau til að skapa saman ný verðmæti.

Skiptar skoðanir um íbúðabyggingar

Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um framtíð bygginga og nýtingu allrar Örfiriseyjar. Skiptar skoðanir eru um hvort efna eigi til íbúðabyggðar í eynni en hugmyndir hafa komið fram um svo kallaðar nýsköpunarbyggðir sem erlendis hafa risið á eldri hafnarsvæðum. Þór Sigfússon segir að þar komi deilihagkerfið við sögu og einnig sú þróun að borgir séu í auknum mæli að færa sig til sjávar. Atvinnulífið fari á undan og þá kjósi fólk einnig að búa á þessum svæðum. Örfirisey hófst á verslun. Síðan tók útvegur við en nú er verslunarstarfsemin orðin yfirgnæfandi þáttur í starfsemi í eyjunni.

You may also like...