Öflug hjón á Skólabrautinni

Ágúst og Ninný með börnum sínum. Myndin er sennilega tekin 1951.

Guðný Vilhelmína Karls­dóttir oftast kölluð Ninný fæddist í Reykjavík 16. apríl 1922. Hún lést á Hjúkrunar­heimilinu Grund við Hringbraut 11. ágúst 2017. Foreldrar hennar voru Þorbjörg Ágústína Eggerts­­dóttir, f. á Hafursstöðum, Kolbeins­­staða­hreppi og Karl Axel Vilhjálmsson. Ninný giftist 1. nóvember 1941 Ágústi Óskari Sæmunds­syni rafvirkja­meistara. Foreldrar hans voru Sæmundur Þórðar­son frá Fells­múla í Land­sveit, steinsmiður og Guðlaug Jóhannesdóttir frá Eyva­koti á Eyrarbakka. Ninný hefði orðið 100 ára á þessu ári en hún náði 95 ára aldri. Hún lést 1. ágúst 2017. Ninný og Ágúst áttu sér bæði sögu þungrar lífsbaráttu. Sögu fólks sem braust frá erfið­leikum og komu sér vel fyrir. Sonur þeirra Daði Ágústsson rafmagnsverkfræðingur tók saman ágrip úr sögu foreldra sinna í tilefni 90 ára afmælis Ninnýar árið 2012. Veitti hann Nesfréttum góðfúslegt leyfi til þess að nýta það efni eftir því sem kostur var.

Ninný og Ágúst hófu búskap á Framnesveginum í Reykjavík þar sem Guðný átti heimili ásamt móður sinni. Þar fæddust fyrstu þrjú börn þeirra Edda og Daði fæddust heima, en Gústaf á Landsspítalanum. Fyrsta barnið Edda kom í heiminn 20. janúar 1942 og var fædd mánuði fyrir tímann. Eftir að þeim var sagt upp húsnæðinu hófst nýtt tímabil í lífi þeirra. Erfitt var að fá leigt eða lóð til að byggja á. Þau gátu fengið lóð hjá Hólmi fyrir ofan Geitháls en þau tóku hana ekki. Guðmundur í Hrólfskála á Seltjarnarnesi lét þau þá fá lóð við Skólabrautina. Byrjunin þótti ekki glæsileg. Fólk spurði hvort þau ætluðu að flytja út í sveit. Húsið stend­ur þar sem eldhús Breska hersins var. Fleiri daga tók að moka fitunni úr skólp­rörunum. Bretarnir elduðu svo mikið úr feit. Unnið var nótt og dag við bygginguna. Í september stóð á að fá efni í miðstöðina vegna skömmtunar­laganna. Það fékkst þó á endanum og olíukyndingin komst í gangið. Þau fluttum inn í september 1947. Þá var Ninný ólétt af fjórða barninu. „Við unnum vel að uppbyggingu nýja heimilisins okkar. Ég og mamma hnýttum net fyrir Hampiðjuna. Þetta voru vængir og fengum við heilmikla peninga fyrir, sjálfskaparviðleitnin var alltaf til staðar,“ segir Daði.

Bjössi vanilludropi og Rósi

Í ágripi Daða kemur fram að hjá Ninnýju móður hans sé margs að minnast eftir nær 27 ára starf við verslun. „Ég hafði góða kunna, skólann og Ísbjörninn. Oft gekk mikið á í frímínútum. Sett var lúga á lager vegginn. Það hjálpaði mikið við afgreiðslu.“ Hún minnist einnig sérkennilegra kúnna sem voru nokkuð margir. „Bjössi vanilludropi kom alltaf í kaffitímum og keypti fjögur vanilludropaglös. Hann var bakari að mennt. Hann sturtaði úr glösunum í sig á planinu. Ég spurði hann af hverju hann drykki þetta. Hann sagðist vera nokkurs­konar alkóhólisti. En var indæll karl. Allir þekktu Rósa. Hann var afar drykkfelldur en aldrei neitt vesen með hann. Hann stóð alltaf í skilum og náði háum aldri þrátt fyrir mikla vinnu og óreglu.“

Lokaði þegar Vörumarkaðurinn opnaði

Ninný minnist á fleiri. „Sæmi rokk var einstök lögga á Nesinu. Sá um að vökva blómin fyrir mig þegar ég var fjarverandi. Hann var snillingur í að stilla til friðar ef til átaka kom. Til eru nokkrar sögur af honum þar sem hann kom og allt var logandi í slagsmálum. Hann tók nokkrar rokk­sveiflur og allt féll í dúna logn.“ Ninný segir að nokkrir hafi fengið skrifað í versluninni fram á næsta föstudag sem var útborgunardagur. „Flestir komu í kaffitímanum og gerðu upp. Einn kom og neitaði að borga en vildi samt fá skrifað. Ég neitaði því og fór svo upp eins og venjulega milli eitt og tvö. Þegar ég kom niður aftur var stærðar rotta í kjötfars­bakkanum. Hann var að hefna sín. Sæmi lögga kom og fjarlægði rottuna.  Svo gleymdist þetta. Eitt sinn þegar ég kom niður var búið að opna kassann og taka 14.000, krónur.“ Ninný segir frá því að verðlagsstjóri hafi komið reglulega til að fara yfir vöruverð. Eitt skipti hafi hann sest á stól eins og vanalega og farið að hágráta. „Þá hafði lík af syni hans rekið í fjöruna heima á Nesinu. Ég reyndi að hugga hann eins og ég gat. Ég átti góða vini.“ Ninný lokaði versluninni fjórða apríl 1988. „Þegar Vörumarkaðurinn opnaði var ég viss um að ég yrði að loka. Edda dóttir mín hjálpaði mér mikið við lokunina og frágang gagna. Þetta gekk allt upp að lokum og ég fór ósködduð frá þessu.“  

Að duga eða drepast 

Ninný fæddist á Óðinsgötunni í Reykjavík 16. apríl 1922. Móðir hennar Þorbjörg Ágústína, oft kölluð amma Gústa, vann fyrir þeim mæðgum við þvotta hjá fína fólkinu eins og það var kallað. Litla stúlkan svaf svo á þvottaborðum sem voru stór tréborð. Það varð að duga eða drepast á þeim tíma. Karl Axel barnsfaðir hennar gekkst ekki við stúlkunni og vildi ekki vita af mæðgunum. Hann var því ekkert inni í myndinni. Foreldrar hans sýndu stúlkunni á hinn bóginn hlýju og kærleika og önnuðust hana hluta úr degi frá tveggja ára til sex ára aldurs. Fyrsta heimili mæðgnanna var á Óðinsgötu. Síðan á Lokastígnum og á fleiri stöðum. Þær þurftu oft að flytja sem var ekki óalgengt á þeim tíma. Ninný mundi fyrst eftir sér á Grundarstígnum. Þær mæðgur Þorbjörg Ágústína og Ninný dóttir hennar fluttu í Vélstjórahúsið við Framnesveg 42 og bjuggu þar þangað til fjölskyldan flutti á Skólabrautina. Þá var hún gift og þriggja barna móðir.

Kirkjubraut 1 sem áður var Skólabraut 1. Þar bjuggu Ninný og Óskar og hún rak verslun á jarðhæð hússins. Nú hefur verið byggt mikið við húsið. Þarna eru nú sex íbúðir þar sem eitt sinn var eldhús breska hersins og síðar heimili fjölskyldu Ninnýjar og verslun. 

Fjögurra ára fyrir bíl

Þegar Ninný var fjögra ára var ekið yfir hægri fótinn á henni um miðjan dag. Hún var að leika sér á götunni þegar kemur bíll. Bílstjórinn sem var kallaður Snær Magni var að sækja landa til Sigga Berentz. Hann ók áfram sem ekkert hefði í skorist. Stúlkan var flutt í Svörtu Maríu í Landakot og þar sem Matthías Einarsson læknir tók við henni. Á þeim tíma voru ekki nein röntgentæki. Hann gerði við brotið án þess að hafa meinar myndir af því sem verður að teljast kraftaverk. Í fyrstu var haldið var að taka þyrfti fótinn af en verk Matthíasar læknis var slíkt að þess þurfti ekki.   

Berentz borgaði undir borðið 

Engar tryggingar voru á þessum árum og urðu móðurbræður ömmu, Björn og Óskar að bera ábyrgð á greiðslum fyrir sjúkrahúsdvölinni. Snær Magni þurfti aldrei að svara til saka. Þó urðu málaferli. Guðríður, kona Sigurðar Einarssonar Tömmer, horfði á slysið og var látinn sverja eið að því að hafa séð þennan atburð, en það hafði ekkert að segja. Siggi Berentz var mikill bruggari í Reykjavík og þekktur okurlánari. Hann borgaði bara undir borðið. Þetta slys sat í Ninný alla tíð. Hvernig þeir gátu slopp­ið frá sannleikanum.

Einar dyravörður og Týra Tönn 

Ninný fór fluglæs í Miðbæjar­skólann þegar hún var átta ár. Hún kvaðst eiga góðar minningar þaðan. Tjörnin hafi verið mikill leikvangur. Freistandi hafi verið að fara út á ísinn þegar Tjörnin var frosin. Hún minntist þess að hafa farið þrisvar á bólakaf. „Þá sagði Einar Loftsson dyravörður við mig. Vertu fljót heim í þurrt og fljót til baka þá færð ekki skróp. Engin miskunn þar.“ Um talsverða vegalengd var að hlaupa fram og til baka. „Æginn var mikill. Jónas Hallgrímsson íslenskukennari var mjög strangur. Hann ræskti sig tvisvar og þá varð þögn. Mikið vorkenndi ég þeim sem lentu í skammakróknum hjá honum, þeir voru látnir standa úti í horni við stóra ofna þar til tíminn var búinn. Einar var vörður í frímínútum. Hann var mjög stífur. Guðmundur tvinni, teiknikennari var einnig geysistífur. Hann lét okkur hafa tvinnakefli og maður mótaði línurnar með því og ég mótaði meira að segja hjartalínur með því. Maður fékk mörg högg á puttann því ég var ekki góð að teikna. Ekki má gleyma Týru Tönn, sem var tannlæknir skólans. Allir muna eftir henni. Maður fékk í magann þegar mæta átti hjá henni. Hún var svo mikill fauti blessunin.“  

Sendur með gripalest

Eiginmaður Ninnýar var Ágúst Óskar Sæmundsson. Hann átti sér ekki síður sögu erfiðleika. Þegar Ágúst var fjögurra ára gerðust atburðir í lífi fjölskyldunnar sem nútímafólki kunna að finnast ótrúlegir. Foreldrar höfðu gift sig 1903 og var Sæmundur þá titlaður tómthúsmaður þótt hann hafi lært steinsmíði og múrverk. Á þessum tíma var oft lítið að gera fyrir byggingamenn, einkum að vetrinum. Þótt hann hafi komið að ýmsum byggingum varð hann gjaldþrota. Hann fór á vertíð til Vestmannaeyja veturinn 1915. Á meðan hann var í Vestmannaeyjum ráðstafaði Guðlaug börnum þeirra, þar á meðal Ágústi Óskari á sveit sína. Þau voru flutt hreppaflutningum austur á Eyrarbakka á vordögum 1915. Þar voru þau boðin upp eins og algengt var á þeirri tíð þegar foreldrar gátu ekki séð fyrir börnum sínum. Lægstbjóðandi eða sá sem taldi sig þurfa minnstar greiðslur fyrir að taka börnin að sér fékk þau síðan til varðveislu fram að fermingaraldri þar sem þau voru gjarnan notuð til ýmissa verka á sveitabæjum. Þetta var ótrúleg harka gagnvart börnum en Ágúst hefur trúlega verið heppinn miðað við aðstæður vegna þess að hann fór til Þórðar Gíslasonar og Guðrúnar Gunnarsdóttur sem bjuggu að Hæringsstaðahjáleigu í Stokkseyrarhreppi. Ágúst yfirgaf æskuheimili sitt að fermingu lokinni og mun hafa verið komin til sjós 16 ára gamall. Fyrst á vertíð á Þórkötlustöðum í Grindavík, síðar á síldveiðar en lengst af var hann á kaupskipum. Hann var á skipum Eimskipafélags Íslands og um tíma var hann á norsku skipi sem sigldi milli hafna á Miðjarðarhafi. Honum líkað vistin illa en gat ekki afskráð sig því afskráning varð að fara fram í heimahöfn skipsins. Hann strauk af skipinu í Marseille í Frakklandi þar sem hann dvaldi um tíma og svaf undir berum himni. Hann var handtekinn, gefin kostur á að fara í útlendingaherdeildina en var á endanum sendur með gripalest til Danmerkur því ekki voru til pening­ar fyrir fargjaldi á farþegarými. Eftir heimkomuna á fjórða áratugnum fór hann að læra rafvirkjun hjá Johan Rönning. Hann tók burtfararpróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1936 þá 25 ára gamall, sveinspróf í rafvirkjun 1937 og fékk síðan meistarabréf í rafvirkjun og löggildingu sem rafvirkja­meistari í desember 1942.  

Skipti aldrei skapi

Í niðurlagi ágripsins minnist Daði móður sinnar með þessum orðum. „Móðir okkar var á margan hátt mjög einstök manneskja. Aldrei man ég eftir því að hún skipti skapi alltaf glöð og einstaklega jákvæð, alltaf tilbúin til að gleðjast þegar öðrum gekk vel. Ekki minnist ég þess að hún talaði nokkur tíman illa um fólk. Hún eignast sjö mannvænleg og heilbrigð börn. Vann samhliða því við verslunarstörf í 27 ár, dugnaðurinn og krafturinn var með eindæmum. Lífið hjá henni hafði ekki alltaf verið dans á rósum. Hún hafði mikinn metnað fyrir því að börnin gengu menntaveginn og hafa öll systkinin lokið mismunandi námi. Hún varð þeirrar gæfu njótandi að eignast 16 barnabörn og 18 lang­ömmubörn sem öll eru hraust. Heilsa hennar var lengst af mjög góð þar til elli kerling fór að banka uppá þegar hún var 90 ára 2012. Minnið var þó ótrúlega gott og góða skapið á sínum stað allt að lífslokum.  

You may also like...