Byggðar í stíl við önnur hús í götunni

Þannig mun framhlið hinna nýju húsa við Framnesveg líta út. Áhersla hefur verið lögð á að þau falli vel að götumyndinni.

Eflaust hafa ýmsir tekið eftir framkvæmdum við Framnesveg 40 til 42. Vesturbæjarblaðið hafði samband við Brynjólf J. Baldursson, stjórnarformaður hjá Grunni fasteignafélagi sem annast framkvæmdirnar.

“Það er fasteignafélagið Grunnur sem stýrir uppbyggingu á þessum byggingareit. Haustið 2015 voru fest kaup á þremur samliggjandi húsum á Framnesvegi á lóðum 40, 42 og 42a. Í framhaldi tók síðan við þróunarvinna á reitnum þar sem lagt var upp með að byggja tvö fjölbýlishús sem myndu falla vel inní umhverfið.

Verkefnið valið á sýningu

Brynjólfur segir að eftir mikla vinnu með Reykjavíkurborg var samþykkt breytt deiluskipulag í byrjun árs 2017 og þótti verkefnið svo vel heppnað að það var valið á sýningu Reykjavíkurborgar í Ráðhúsinu um þróun byggðar í Reykjavík. “Það fór síðan góður tími í að klára alla hönnunarvinnu og undirbúning fyrir framkvæmdir sem hófust fyrir alvöru síðasta haust.”

Bakhlið húsanna við Famnesveg 40 til 42. Svalir snúa út að bakgarði.

Arkþing í hönnun bygginganna

Hverjir eru á bak við framkvæmdirnar? “Grunnur fasteignafélag ber ábyrgð á verkefninu og leggur félagið mikinn metnað í að uppbyggingin heppnist sem allra best. Hjá félaginu starfa reynslumiklir einstaklingar en einnig koma að verkinu fjöldi annarra sterkra samstarfsaðila. Arkþing arkitektar unnu með okkur í hönnun bygginganna og skipulagi íbúðanna en einnig var mikil vinna lögð í sjálfa innanhúshönnunina en þar nýttum við okkur krafta Berglindar Berndsen og Helgu Sigurbjarnadóttur innanhúsarkitekta.

Útlitið í stíl við önnur hús

Hvernig hús og íbúðir eru hugsaðar á reitnum og hvað verða þær margar? Það skiptir okkur miklu máli að húsin falli vel inn í þetta gróna og skemmtilega hverfi. Útlit bygginganna eru því í stíl við önnur hús í götunni. Við lögðum síðan upp með að vera með íbúðir sem ekki væru of stórar en mjög vel skipulagðar. Lögð var áhersla á að innahúshönnunin myndi passa vel við Vesturbæinn og að okkar mati tókst það mjög vel. Íbúðirnar eru alls níu talsins og stærðin er frá u.m.b. 50 fermum upp í rétt rúmlega 100 fermetra.

Tilbúnar í haust

Hvenær verða íbúðirnar tilbúnar til afhendingar og hvenær verður byrjað að selja þær? “Við áætlum að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar í haust.  Varðandi sölu þá hefur verið mikill áhugi á verkefninu og mikið spurt um íbúðirnar og því líklegt að við skoðum möguleikann að selja þær á byggingarstigi. Það verður þá auglýst síðar en fólk getur líka haft samband við mig beint á netfangið brynjolfur@grunnurfasteignafelag.is ef það hefur áhuga að fá frekari upplýsingar.”

Íbúðirnar eru alls níu talsins og stærðin er frá u.m.b. 50 fermetrum upp í rétt rúmlega 100 fermetra.

You may also like...