Sjúk ást, hvað getum við gert? – Rætt á málþingi ungmannaráðs Breiðholts

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir frá Stígamótum hélt erindi á málþinginu og fjallaði um hvenær afbrýðissemi væri réttlætanleg.

Ungmennaráð Breiðholts stóð fyrir líflegu málþingi föstudaginn 6. apríl um samskipti í ástarsamböndum ungs fólks. Málþingið var haldið í Austurbergi og áttu flestir grunnskólar borgarinnar sína fulltrúa þar. Umræðuefnið var mikilvægt; munurinn á heilbrigðum og óheilbrigðum samböndum, kynferðisleg áreitni og samskipti á netinu.

Dagskráin hófst  með erindi Steinunnar Gyðu- og Guðjónsdóttir verkefnastýru hjá Stígamótum og fjallaði hún um sjúk samskipti ungs fólks í nánum samböndum sem byggðust á afbrýðissemi, þvingunum og jafnvel ofbeldi. Þá fjallaði Dagbjört Ásmundsdóttir verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði um kynferðislega áreitni og að lokum fjölluðu þau Kári og Andrea, sem vinna með ungmennum í félagsmiðstöðvastarfi, um óheilbrigð samskipti á netinu.

Vel á annað hundrað unglingar sóttu málþingið og urðu líflegar umræður á milli erindanna og augljóst að efnið brann á mörgum fundargestum. Málþingið fellur inn í umræður sem skapast hafa í samfélaginu í kjölfar me-too byltingar og sýningar á myndinni Mannasiðir um páskanna og því auðvelt að tengja umfjöllunarefnið við það sem ungir sem aldnir þekkja í umfjöllun fjölmiðla undanfarna mánuði. 

Ungmennaráð Breiðholts skipulagði málþingið og er það í anda annarra málþinga á þeirra vegum fyrir ungmenni í borginni þar sem lögð er áhersla á samtal milli ungs fólks um mikilvæg málefni sem á þeim brenna. Fundarstjóri var Elínborg Una Einarsdóttir sem situr í ungmennaráði Breiðholts. 

You may also like...