Líkan af Húsavíkurkirkju vakti athygli

Kristjana við líkanið af Húsavíkurkirkju. Myndin er tekin á sýningu í Gerðubergi.

– hef alltaf haft gaman af að smíða segir Kristjana Guðlaugsdóttir höfundur líkansins –

Líkan af Húsavíkurkirkju vakti verðskuldaða athygli á forsýningu félagsstarfseminnar í Gerðubergi á dögunum. Húsavíkurkirkja er ein af eftirtektarverðari byggingum landsins. Hún er byggð í svonefndum schweitzerstíl sem er krosslaga kirkjuskip og turn í einu horni byggingarinnar. Kirkjan er teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt, var byggð árin 1906 og 1907 og vígð 2. júní 1907. Kirkjan er byggð úr norskum við á hlöðnum grunni sem hlaðin var af Jóni Ármanni Árnasyni steinsmiði en yfirsmiður var Páll Kristjánsson smiður og kaupmaður á Húsavík. Það er barnabarn steinsmiðsins Kristjána Guðlaugsdóttir sem smíðaði líkanið en hún hefur fengist við myndlist jafnframt starfi á skrifstofu FB þar sem hún vann í 26 ár en stundaði einnig nám við skólann.

En hvað kom Kristjönu til að nota Húsavíkurkirkju sem fyrirmynd en hún hefur bæði málað málverk af kirkjunni og smíðað þetta líkan. “Ég er fædd og uppalin á Húsavík og hef ríkar tengingar í gömlu heimahagana. Ég fór reyndar snemma að heiman og hef ekki búið þar síðan en bjó um tíma í Þingeyjarsýslu – reyndar í Mývatnssveit þar sem maðurinn minn Ásmundur Jóhannsson starfaði. Við Ásmundur fórum til Þýskalands eftir að við kynntumst en þaðan lá leiðin að Mývatni. Hann var upphaflega búinn að fá vilyrði fyrir vinnu við Laxárvirkjun og við keyptum okkur bíl og ókum af stað norður. Ekki varð þó af því að hann færi þar til starfa en Vésteinn Guðmundsson sem var forstjóri Kísiliðjunnar frétti af okkur. Þá var verið að byggja verksmiðjuna upp og hann vantaði mann til afleysinga. Hann þekkti aðeins til okkar og ég man þegar hann spurði mig hvort ég væri með karlinn með mér. Þegar ég svaraði því játandi sagði hann með sinni sérstöku djúprámu rödd “látt´ann koma”. Hann átti upphaflega að starfa þar í þrjá mánuði en Vésteinn hélt í hann og það urðu níu ár þannig að ég tengdist Húsavík talsvert að nýju á þessum tíma.”

Frá Guðmundi Sveinssyni til Guðrúnar Hrefnu

Svo tengistu FB eftir að þú komst suður. “Já – við áttum íbúð í Breiðholtinu og það hafði lengi blundað í mér að fara í kvöldskólann eða öldungadeildina eins og hún var kölluð. Ég var þar í fjögur ár. Ég fór líka að vinna á skrifstofunni í FB og starfaði þar í 26 ár. Ég hef því náð að starfa með öllum skólameisturum. Allt frá séra Guðmundi Sveinssyni sem var fyrsti skólameistarinn og vann ötult uppbyggingarstarf til Guðrúnar Hrefnu sem stýrir skólanum af myndarskap í dag.”

Smíðaði barnarúm og strauborð

En aftur að smíðunum. Kirkjan er ekki fyrsta smíði þín. “Nei ég var strax með áhuga á smíðum sem barn. Þá þótti ekki viðeigandi að stelpur væru í smíðum með strákunum í skóla en móðir mín talaði við skólastjórann á Húsavík og ég fékk að fara í smíðatíma. Ég smíðaði meðal annars barnarúm handa systur minni og strauborð handa mömmu. Vinur okkar sem hafði stundað útskurð og átti mikið af verkfærum vildi færa mér þau að gjöf þegar leið að því að hann hætti að starfa. Hann átti bæði börn og barnabörn og mér fannst því að ég gæti alls ekki tekið við þessu. Afkomendur hans höfðu hins vegar ekki áhuga á smíðum og hann vildi að verkfærin nýttust þar sem þeirra væri þörf. Hann vissi af smíðaáhuga mínum og ég sá að honum myndi mislíka ef ég tæki ekki við þeim og ég held að ég hafi glatt hann fyrir utan að ég eignast ýmis tól sem komu sér vel fyrir smíðakonuna.”

Notaði bæði flísatengur og tannstöngla

Kristjana lauk ekki aðeins námi sínu við FB heldur hefur hún sótt ýmis námskeið gegnum tíðina. Hún hefur málað og smíða jöfnum höndum eins og myndir hennar og smíðagripir sýna. Hún segist gefa sér góðan tíma í verkin. “Ég var lengi að vinna við kirkjubygginguna. Var með líkanið bæði heima og hér í félagsstarfinu í Gerðubergi. Við höfum góðan leiðbeinanda hér hann Einar Jónassonar leiðbeinanda sem gefur okkur bæði góð ráð og góðan tíma. Ég notaði ýmis verkfæri við kirkjusmíðina og má í því sambandi bæði nefna flísatangir og tannstöngla sem ég notaði til þess að bera lím á þá fleti þar sem líma þurfti saman. Nei – ég þurfti ekki að teikna alla kirkjuna upp sjálf,” segir Kristjana aðspurð og dregur fram teikningar sem hún studdist við á meðan hún smíðaði líkanið. “Þetta er auðvitað ekkert annað en vinna og aftur vinna en fyrir mér er þetta ákaflega skemmtilegt,” segir Kristjana að lokum.

You may also like...