Möguleikar til bygginga minni íbúða í Breiðholti
Innan aðalskipulags Reykjavíkur frá 2010 til 2030 og hverfaskipulags Breiðholts er að finna nokkra möguleika til að byggja minni og ódýrari íbúðir í Breiðholti. Þeir eru einkum í Norður Mjódd. Við Suðurhóla og í Seljahverfi. Í skipulaginu er gert ráð fyrir að styrkja íbúðabyggð en einnig atvinnuhúsnæði því það er ekki síður mikilvægt með hliðsjón af auknu jafnvægi í fjölda íbúa og atvinnutækifæra.
Í hverfisskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir að styrkja Norður Mjódd með þéttingu og blöndun byggðar og er hún talin eitt þeirra svæða sem tilgreind eru sem byggingasvæði. Í skipulaginu er lagt til að þar verði gert ráð fyrir blandaðri byggð með um 100 til 200 íbúðum. Einnig er sett fram hugmynd að þéttingu byggðar sem nemur 20 til 30 íbúðum við Stekkjarbakka og beggja megin við Breiðholtsbraut en hætt hefur verið við að færa Stekkjarbakka og breikka götuna í fjórar akreinar. Í skipulaginu segir að samfara þéttingu byggðar skapist svigrúm til að hlúa betur að fjölbreytilegri þjónustu og starfsemi í göngufjarlægð frá heimilum. Þá kemur fram í skipulaginu að mikilvægt sé að styrkja verslunar- og þjónustukjarna í miðju hverfisins með fjölbreyttari starfsemi og nýjum íbúðum. Í skipulaginu er lagt til að hlutar Stekkjarbakka, Álfabakka og Arnarbakka verði skilgreindir sem borgargötur er njóti forgangs við endurhönnun og fegrun sem almenningsrými og umferðaræðar fyrir alla ferðamáta.
Aðrir hlutar Neðra Breiðholts taldir fullbyggðir
Neðra Breiðholt er talið fullbyggt hverfi og nokkuð vel sett hvað verslun og þjónustu varðar en mikilvægt sé að endurnýja þjónustukjarna í miðju hverfisins og umhverfi hans. Helsti veikleiki þjónustukjarnans er sagður nálægð við Norður Mjódd og því nauðsynlegt að finna honum víðtækara hlutverk en honum er ætlað í dag. Æskilegt er talið að kanna möguleika á að breyta götum og bílastæðum á nokkrum tilteknum stöðum með áherslu á opin almenningsrými og til að tryggja skilyrði fyrir fjölbreytta ferðamáta. Lagfæra umhverfið við biðstöðina í Mjódd, sérstaklega strætisvagnaplanið sjálft og skipulag þess til að gera það öruggara og gönguvænna. Í frétt í Morgunblaðinu frá því í maí á liðnu ári kemur fram að áformað sé að byggja um 100 íbúðir á Garðheimareitnum í Norður Mjódd. Lóðin er í eigu Haga og í samtali við Finn Árnason forstjóra Haga í fréttinni segir hann félagið hafa hug á að þróa þessa eign og gera úr henni meiri verðmæti. Hann sagði þetta þó ekkert sem gerist alveg á næstunni. Í skoðun sé að byggja þriggja til sex hæða fjölbýlishús með inn görðum. Á jarðhæð yrði verslun og þjónusta.
Þétting byggðar við Suðurhóla
Í Efra Breiðholti er lagt til í aðalskipulagi að byggð verði þétt við Suðurhóla, Suðurfell og Hraunberg. Einnig eru settar fram hugmyndir um margbreytilega endurskoðun í Austurbergi og miðsvæði hverfisins. Horft er til möguleika á að þétta þar byggð, koma fyrir bílastæðahúsum á völdum stöðum til að draga úr ásýnd bílastæða á svæðinu og uppbyggingu leik- og útivistarsvæða. Til að efla þjónustukjarna við Lóuhóla er lagt til að koma fyrir torgi með bílastæðum í kjallara undir torgi. Lagt er til að Austurberg og hluti Suðurhóla og Norðurfells verða skilgreindar sem borgargötur. Áhersla verði lögð á bættar tengingar við önnur hverfi borgarhlutans með bættum göngu- og hjólastígum og göngubrú yfir í Seljahverfi sem þegar er verið að ljúka uppsetningu á. Efra Breiðholt er með þéttbýlli hverfum í Reykjavík utan miðborgarinnar en þar er hlutfallslega mikið af fjölbýli, litlum íbúðum og félagslegum íbúðum, þannig að blöndun íbúðagerða er ábótavant. Hugmyndir eru um íbúðabyggingu, jafnvel háhýsis við Eddufell en hugmyndir þar að lútandi eru skammt á veg komnar og spurningar um hvort rými sé fyrir háhýsi á þeim stað en frekar mætti byggja lægri byggð. Í skipulaginu segir að hverfinu megi þoka í átt til sjálfbærni með því að huga betur að blöndun með byggingu nýs atvinnuhúsnæðis fyrir viðeigandi atvinnugreinar í þessu umhverfi. Hverfið er nokkuð vel sett hvað verslun og þjónustu varðar en aðkoma, aðstaða og allt umhverfi verslunar- og þjónustukjarna er fremur bágborið segir í aðalskipulaginu.
Þéttleiki Seljahverfis ekki nægjanlegur
Í Seljahverfi er gert ráð fyrir að þétta byggð á þróunarsvæðum samkvæmt stefnu aðalskipulags Reykjavíkur 2010 til 2030 og nær það bæði til íbúða- og atvinnuhúsnæðis. Í aðalskipulaginu segir að þéttleiki byggðar í Seljahverfi virðist ekki nægilegur til þess að halda uppi ásættanlegri nærþjónustu á miðsvæði hverfisins auk þess sem heppilegt verslunarhúsnæði vantar þar. Bent er á að engin dagvöruverslun sé í göngufæri fyrir stóran hluta hverfisins og báðir verslunarkjarnar hverfisins séu staðsettir í norðausturjaðri þess í námunda við Breiðholtsbraut. Eitt af meginmarkmiðum hverfisskipulags er að skoða möguleika á að styrkja hverfismiðjuna sem hentuga aðstöðu fyrir verslun og þjónustu, þar sem hjartað er hverfistorg í góðum tengslum við tjörn og garðsvæði við Hólmasel.